Kröftugt Hjálparstarf kirkjunnar

24. september 2019

Kröftugt Hjálparstarf kirkjunnar

Vatn er lífsnauðsyn, einnig húsaskjól og menntun

Aðalfundur Hjálparstarfs kirkjunnar var haldinn í safnaðarheimili Grensáskirkju s.l., laugardag, 21. september.

Samkvæmt skipulagsskrá Hjálparstarfsins (Sjá hana hér) er það sjálfeignarstofnun sem stofnuð er af þjóðkirkjunni og starfar á hennar vegum. Biskup Íslands er verndari stofnunarinnar.

Hjálparstarfið hefur það hlutverk að sinna mannúðar- og hjálparstarfi í nafni íslensku þjóðkirkjunnar innanlands sem og utan. Einnig að fræða almenning um starfið.

Til aðalfundar kom biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, og 24 fulltrúar prestakalla, prófastsdæma og kirkjuráðs. Séra María Guðrúnadóttir Ágústsdóttir stýrði helgistund í upphafi fundar.

Gunnar Sigurðsson, formaður framkvæmdastjórnar, setti aðalfundinn og sagði frá störfum stjórnar.

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar kynnti starfsskýrslu stofnunarinnar fyrir starfsárið júlí 2018 – júní 2019. Hana má sjá hér.

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins sögðu frá verkþáttum í innanlandsstarfi og fræðslufulltrúi frá áskorunum og árangri á sviði fræðslu og fjáröflunar.

„Valdefling er það sem hefur raunveruleg áhrif til góðs“, sagði Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs um samvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins í Reykjavík.

Á hverjum mánudegi hittast 45 – 50 konur af erlendu bergi brotnar og endurnýta efni með því að sauma úr því fjölnota innkaupapoka, grænmetispoka, dúka og margt fleira. Í lok saumavinnunnar borða konurnar saman hádegismat og kynnast betur. Þátttakendur í verkefninu koma frá yfir tíu þjóðríkjum. Konurnar segja að það sé gott að koma, mynda tengsl og læra nýja hluti.

Félagsráðgjafar Hjálparstarfs kirkjunnar hafa í síauknum mæli lagt áherslu á verkefni sem eru undirbúin í samráði við fólkið sem tekur þátt í þeim. Með því að sníða verkefnin að þörfum og óskum þátttakendanna er mun líklegra að þau leiði til árangurs og breytinga í lífi fólks; að þau séu raunveruleg hjálp til sjálfshjálpar.

Eftir hádegishlé kynnti framkvæmdastjóri starfsáætlun fyrir starfsárið 2019 – 2020. Fjallað var um stefnumótunarvinnu sem nú er í gangi og um heimasíðu sem er í smíðum.

Hjálparstarfið fagnar 50 ára starfsafmæli þann 9. janúar 2020 og var rætt um með hvaða hætti þeirra tímamóta skyldi minnst.

Næsti fundur fulltrúaráðs Hjálparstarfs kirkjunnar verður haldinn fimmtudaginn 5. mars 2020.

Sjá: Hjálparstarf kirkjunnar

Ekkert barn útundan! Hjálparstarf kirkjunnar
hefur hafið sérstaka fjársöfnun fyrir aðstoð
við efnalitla foreldra í upphafi skólaárs með
því að stofna valgreiðslu í heimabanka landsmanna
að uphæð 2.600 krónur.

Í framkvæmdastjórn Hjálparstarfs kirkjunnar
starfsárið 2019 – 2020 eru:
Gunnar Sigurðsson, formaður (2. til vinstri),
Salóme Huld Garðarsdóttir (lengst til vinstri)
og Hörður Jóhannesson (ekki á mynd).
Varamenn í stjórn eru:
Vigdís Valgerður Pálsdóttir (lengst til hægri)
og Benedikt Vilhjálmsson, (fyrir miðju)
sem kjörinn var í stjórn í stað Páls Kr. Pálssonar,
sem hætti eftir níu ára stjórnarsetu.
Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar er 2. til hægri á myndinni.
  • Frétt

  • Fundur

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Hjálparstarf

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju