Fólkið í kirkjunni: Hún er söngfugl

25. september 2019

Fólkið í kirkjunni: Hún er söngfugl

Rannveig Iðunn Ásgeirsdóttir, öflug kirkjukona

Rannveig Iðunn Ásgeirsdóttir er ung kona. Hún vinnur á leikskóla – er aðstoðarleikskólakennari. Börn eru hennar líf og yndi. Leikskólastarfið hefur alltaf dregið hana til sín. Í níu ár vann hún við leikskólann Berg á Kjalarnesi en er búin að vera í þrjú ár á Álftaborg í Safamýrinni.

Þegar kirkjan.is gekk inn í leikskólann Álftaborg stóð hún þar í listaskálanum með barn í fangi. Það vildi ekki sleppa takinu af henni. Þetta var síðdegi og foreldrar streymdu í leikskólann til að sækja börnin. Sum voru sótt snemma en önnur síðar. En smám saman þynntist hópurinn enda vinnudagurinn senn á enda og mjúk þögnin lagðist yfir lítil borð og litla bekki.

„Þetta eru börnin mín,“ segir hún með blíðu brosi og horfði á eftir þeim. „Það eru sautján börn á deildinni minni – og þau eru af sjö þjóðernum.“

En Rannveig Iðunn hefur líka komið nálægt kirkjustarfi allt frá því að hún var barn. Hún er uppalin á Kjalarnesinu, undir Esjunni, á Skrauthólum sem standa hátt og þar sér vel yfir flóann og til borgarinnar. Hennar kirkja var Brautarholtskirkja og sú kirkja er ekki í göngufæri margra. Faðir hennar var um árabil sóknarnefndarformaður og ók til kirkjunnar og hún með. Sú stutta var fljót að læra sálmana og þótti gaman í messunum. Hún tók þátt í barna- og æskulýðsstarfinu á Kjalarnesi, Brautarholtssókn, og þegar hún óx úr grasi leiddi hún það í ein átta ár á sama tíma og hún starfaði við leikskólann á Kjalarnesi.

Þegar sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir kom sem héraðsprestur byrjaði TTT- starf á Kjalarnesi. Hún hélt líka áfram með svokallaða Vordaga kirkjunnar sem höfðu verið haldnir í mörg ár. Rannveig Iðunn tók þátt í því með prestinum – líka bróðir Kríu, eins og sr. Kristin Þórunn er kölluð af þeim sem þekkja hana vel, hann Svenni, eða Sveinn Tómasson. Rannveig Iðunn fór svo í Leiðtogaskólann og hefur síðan alltaf verið í einhverju kirkjulegu starfi.

„Það var frábært að fara í Leiðtogaskólann,“ segir hún, „sérstaklega að fara í heimsóknir í svo margar kirkjur og sjá hvernig starfið var á hverjum stað fyrir sig.“

Svo sat hún kirkjuþing unga fólksins í tvö ár fyrir Kjalarnessprófastsdæmi og hafði gaman af því.

„En ég er sko ekta Kjalnesingur,“ segir hún og hlær við. „Bjó þar frá fæðingu og þar til ég flutti þaðan 22ja ára gömul.“

En hún er líka söngfugl. Og það kemur sér vel í kirkjustarfi. Því að söngurinn er list himnanna.

Og rödd hennar er kröftug og falleg, nýtur sín vel. Rannveig Iðunn söng með kirkjukór Brautarholtssóknar áður en hún gekk til liðs við Vox Populi – og var meira að segja einn af stofnendum kórsins fyrir ellefu árum. Þau æfa einu sinni í viku undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Syngja oftast í messum í Kirkjuselinu í Spönginni eða í Grafarvogskirkju.

Í frístundum sínum tekur hún myndir og fæst við alls konar föndur.

Rannveig Iðunn hefur rætt opinskátt um kvíða og þunglyndi á Facebook-síðu sinni sem hún hefur glímt við á köflum. Skrif hennar hafa vakið mikla athygli fyrir einlægni og hispursleysi. „Ég leita mikið í kirkjuna af því að þar líður mér vel,“ segir hún og bætir við: „Ég tel að trúin hjálpi mér mikið í baráttunni við veikindin.“

Rannveig Iðunn Ásgeirsdóttir, leikskólastarfsmaður, hugrökk ung kona og söngfugl, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.



Brautarholtskirkja á Kjalarnesi er lítil sveitakirkja í borg, byggð 1857




  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju