Kirkjubrall á Kjalarnesi

27. september 2019

Kirkjubrall á Kjalarnesi

Úr listastöðinni - tvö enn eru listrænni en eitt

Fjölbreytileikinn er mikill í kirkjustarfi víða á landinu. Fólk bryddar upp á nýjum leiðum til að efla starfið með ýmsum hætti. Nýjar leiðir eru sóknarfæri en þær ryðja ekki hefðbundnu kirkjustarfi til hliðar. Það er enn á sínum stað. En ný leið er alltaf hressandi viðbót við starfið.

Það færist í vöxt að kirkjur bjóði upp á samverustundir þar sem fólk snæðir saman jafnframt sem það tekur þátt í dagskrá sem boðið er upp á.

Kirkjubrall (Messy Church) er heiti á einni leið til að byggja safnaðarstarf upp með öðrum hætti en hinum venjulega.

Í Brautarholtssókn á Kjalarnesi var slíkt kirkjubrall í gærkvöldi í Fólkvangi og tókst vel. Temað var sköpunin, sköpunargleði og gestrisni. Sóknarpresturinn, sr. Arna Grétarsdóttir og eiginmaður hennar, Rúnar Vilhjálmsson, voru potturinn og pannan í orðsins fyllstu merkingu og bökuðu pizzu fyrir samveruna.

„Þetta tókst mjög vel,“ sagði sr. Arna ánægð á svip þegar kirkjan.is spurði hvað henni fyndist um fyrsta skiptið, „já, og bara góð mæting svona fyrsta sinn.“

Áður en gengið var til borðs gat fólk valið að nema staðar við svokallaðar stöðvar, leikstöð, söngstöð, samtalsstöð og listastöð. Börn voru aðallega í listastöðinni og leikstöðinni, nokkrir fullorðnir ræddu um tilvist Guðs og mikilvægi trúarinnar af kappi í samtalsstöðinni, og kór Reynivallaprestakalls þandi raddböndin í söngstöðinni.

Þá var þeim sem vildu boðið að taka markastein (milestone) upp úr körfu, handleika hann og segja frá einhverju sem hefði drifið á daga viðkomandi nýlega, hefði markað spor í lífi hans eða hennar, misdjúp náttúrlega en verið markvert – þannig má lengi telja. Þó nokkrir stóðu upp og sögðu frá því sem hefði verið sem markasteinn í lífi þeirra upp á síðkastið. Einn sagði til dæmis að hann hefði verið latur að hreyfa sig og farið í leikfimi eldri borgara og lagast mikið í bakinu. Annar sagðist hafa fundið gögn á tölvudiski sem hann hefði lengi leitað að og þurfti nú nauðsynlega á að halda. Stúlka nokkur sagðist vera í landsliðinu – það var hennar markasteinn. „Guð blessi þig,“ sagði hópurinn í hvert sinn eftir að þau sem tóku sér markastein í hönd höfðu sagt frá sínum markverðu tímamótum hvort heldur þau voru nú hversdagsleg eða ekki.

Stutt bænastund var fyrir matinn þar sem temað var sköpunin. Síðan fóru allir með Faðir vorið.

Pizza prestshjónanna rann ljúflega niður enda afbragðsgóð. Sr. Arna gat þess að nautahakkið á einni pizzunni væri af nautum sem gengið hefðu í haga á prestssetursjörðinni.

„Það er ekki spurning að við höldum áfram á sömu braut,“ sagði sr. Arna í lokin. „Búið er að skipuleggja næstu skipti, temu og mat.“

Félagsheimilið Fólkvangur á Kjalarnesi er oft notað fyrir kirkjulegt starf


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

For hope and future.jpg - mynd

Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins gríðarlega mikilvægt

01. júl. 2024
...varaforseti skrifar um hjálparstarfið
Sr. Erla Björk Jónsdóttir

Vel mætt í bænastundir

30. jún. 2024
...í Dalvíkurkirkju