Kona vígð í Jerúsalem

30. september 2019

Kona vígð í Jerúsalem

Sr. Kristján, vígslubiskup til vinstri, fyrir miðju með mítur á höfði, Ibrahim biskup, sr. Hildur Inga honum til hægri handar

Í gær var dr. María Leppäkari, framkvæmdastýra Sænsku guðfræðistofnunarinnar í Jerúsalem, vígð til prestsþjónustu hjá Lúthersku kirkjunni í Jórdaníu og Landinu helga. Hún er fyrst kvenna til að vígjast hjá þessari kirkjudeild sem telur um 3000 manns og það sem er markverðast sú fyrsta sem hlýtur vígslu í borginni helgu til kristinnar prestsþjónustu.

Dr. María er mörgum Íslendingum kunn en hún hefur tekið á móti hópum frá Íslandi vegna starfa sinna hjá Sænsku guðfræðistofnuninni. Hún kom í fyrra til Íslands og flutti fyrirlestur á afmæli Prestafélags Vestfjarða.

Íslenskir vígsluvottar voru þau sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, prestur á Þingeyri, og sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir, prestur Kvennakirkjunnar. Ýmsar aðrar kirkjur áttu sína fulltrúa í vígslunni.

Svo skemmtilega vildi til að vígsludagurinn var sá hinn sami og þá fyrsta íslenska konan, sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir, hlaut prestsvígslu fyrir 45 árum, til Staðarprestakalls í Súgandafirði. Þess var minnst við guðsþjónustu Kvennakirkjunnar í Neskirkju í gær. Sjá Kvennakirkjan.

Áður en dr. María Leppäkari tók við guðfræðistofnuninni – sem var 2015 - var hún dósent í trúarbragðafræðum við háskólann í Åbu í Finnlandi. Sænska guðfræðistofnunin í Jerúsalem fæst einkum við rannsóknir á samskiptum kristni, gyðingdóms og islam, sem og að rækta samkirkjuleg tengsl við ólíkar kirkjudeildir.

Í sumar var hér á ferð fyrrum biskup Lúthersku kirkjunnar í Jórdaníu og Landinu helga, dr. Munib Younan, fyrrum forseti Lútherska heimssambandsins, og prédikaði hann í Skálholti á Skálholtshátíð. Milli Lúthersku kirkjunnar í Jórdaníu og Landinu helga eru finnsk tengsl en dr. Munib lauk guðfræðiprófi frá háskólanum í Helsinki – og dr. Maria Leppäkari er af finnsku bergi brotin. Og benda má á enn fleiri tengsl til gamans og þau eru að dr. Munib er heiðursdoktor frá háskólanum í Wartburg í Iowa í Bandaríkjunum en hann þekkja margir Íslendingar sem þangað hafa farið í náms- og kynnisferðir með sr. Gunnari Sigurjónssyni.

Núverandi biskup Lúthersku kirkjunnar í Jórdaníu og Landinu helga er sr. Sani Ibrahim Azar.

Lútherska kirkjan í Jórdaníu og Landinu helga er með höfuðaðsetur í Jórdaníu og Palestínu. Söfnuðurinn fagnar 60 ára afmæli á þessu ári en Hússein Jórdaníukonungur viðurkenndi sjálfstæði hans árið 1959. Söfnuðurinn á rætur allt til miðrar nítjándu aldar á þessum slóðum.

Kirkjur safnaðarins eru í Jerúsalem, Betlehem, Ramallah og í Amman.

Frá vigslunni - dr. María Leppäkari lítur um öxl. Þarna má sjá 
sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, og sr. Hildi Ingu Rúnarsdóttur.
  • Alþjóðastarf

  • Biskup

  • Embætti

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

  • Menning

  • Samfélag

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði