Glæsilegt samstarf

6. október 2019

Glæsilegt samstarf

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir stýrði sameiginlegu hátíðinni

Í morgun var haldin fjölskylduhátíð nokkurra sókna í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði. Á sjötta hundrað manns mættu í dumbungsrigningu og létu það ekki aftra sér.

Fólk streymdi að kirkjunni í takt við regnið sem streymdi niður úr steingráum himninum. Karlar og konur sem gripið höfðu með sér regnhlífar en gleymt glímubrögðum Kára í jötunmóð sem beið utan dyra og tók nokkur dansspor við þær og sneri þeim ýmist á hlið eða á hvolf; aðrir voru í litskærum regnkápum, og enn aðrir á jakkanum eða ljósu sumarkápunni á harðaspretti undan þungum regndropum og drógu sumir hverjir börnin á eftir sér eða ráku þau á undan sér eins og trippi. Það var greinilega spenningur í loftinu.

Bogadreginn inngangur Víðistaðakirkju tók opnum örmum á móti fólkinu – eins og alltaf.

Kirkjan fagnar.

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, stýrði fjölskylduhátíðinni styrkri hendi í í kirkjunni – vön kona og kann vel til verka. Hundrað barna kór söng og leiddi fólk í alkunnum kirkjulegum söngvum og tóku undir sem aldnir hressilega undir. Kærleikurinn og umhyggja fyrir náunganum er kjarninn í boðskap textanna. Temað var líka náungakærleikurinn eins og hann kemur fram í sögunni af Miskunnsama Samverjanum. Þrjú ungmenni léku þá sögu og gerðu það prýðilega.

„Þetta tókst mjög vel,“ sagði sr. Jóna Hrönn Bolladóttir eftir stundina. „Hún var líka lengi í undirbúningi og ótrúlega margir sem hafa komið að henni.“

Eftir kirkjustundina þrammaði mannskapurinn út í gegnum regnið og inn í íþróttahús Víðistaðaskóla sem er í túnfæti kirkjunnar. Við dyrnar var sr. Stefán Már Gunnlaugsson, héraðsprestur, með moppuna á lofti, og strauk bleytu af gólfi svo fólk færi sér ekki að voða á hálu gólfinu. „Það er gaman að sjá hér allar kynslóðir saman,“ sagði hann. „Þetta er í annað skipti sem við erum með svona sameiginlega fjölskylduhátíð.“

Börnin ærsluðust í hoppuköstulum, andlitsmálarar voru á staðnum, blöðrulistamenn og Sirkus Íslands. Farið var í leiki og síðan var öllum boðið upp á pylsur.

Svo sannarlega góð fjölskyldustemning.

En engin stund í kirkju er án tónlistarfólks sem stendur til hliðar í hógværð sinni og leikur á hljóðfæri sín. Það voru þeir Ástvaldur Traustason, Þórarinn Kr. Ólafsson, Arngrímur Bragi Steinarsson, Davíð Sigurgeirsson, og sr. Hans Guðberg Alfreðsson.

Þær sóknir sem unnu saman að fjölskylduhátíðinni voru Ástjarnarsókn, Bessastaðasókn, Garðasókn, Hafnarfjarðarsókn og Víðistaðasókn.

Samstarf sóknanna tókst með eindæmum vel og getur verið öðrum sóknum fyrirmynd um að sameinast í stórum og mikilvægum verkefnum.


Tónlistarmennirnir - frá  vinstri:  Ástvaldur Traustason, Þórarinn Kr. Ólafsson,
Arngrímur Bragi Steinarsson, Davíð Sigurgeirsson, og sr. Hans Guðberg Alfreðsson.


Sóknarnefndarmenn í gulum vestum stýrðu umferðinni að svæðinu


  • Æskulýðsmál

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi