Fólkið í kirkjunni: Söngur í hverri taug

23. október 2019

Fólkið í kirkjunni: Söngur í hverri taug

Anna Sigga, kröftug kirkjukona og hæfileikarík

Hún kemur gustmikil og litrík, í bláum kjól og svartri kápu með loðbryddingu, með gullveski og smellir kossi á kinn. Brosið er breitt og gleðin skín úr hverjum andlitsdrætti.

Hláturinn ómar og það heyrist hátt í henni. Hún fer ekki framhjá neinum.

Svo ekur hún um á snjóhvítri amrískri drossíu, nánar til tekið Lincoln. Með leðursætum!

Anna Sigríður Helgadóttir. Eða bara Anna Sigga eins og hún er kölluð daglega. Söngkona með meiru. Söngur í hverri taug og æð. Kirkjukona og öllu vön í þeim efnum.

Þegar hún hefur upp raust sína hriktir ögn í sperrum og glerið í gluggum nötrar.

Hún gæti verið prímadonna á söngsviði heimsins ef hún vildi. En er eins langt frá því og hægt er því hugur hennar dvelst við annað. Hógvær og auðmjúk, mild og skilningsrík. Tillitssöm og samvinnufús.

En hver er hún?

Föðurafi hennar var var prestur og prófastur í Austur-Skaftafellsprófastsdæmi. Sá var sr. Eiríkur Helgason fæddur á Eiði á Seltjarnarnesi. En aldrei sá hún þann mæta mann, hann dó á besta aldri mörgum árum áður en hún fæddist. Heyrði bara af honum. Margar sögur.

Anna Sigga lærði söng í Söngskólanum í Reykjavík.

„Ég bjó í fjögur ár á Ítalíu og var þar við söngnám og störf,“ segir hún brosandi og bætir við að svo hafi hún þvælst um allt. Hún söng í óperunni í Gautaborg og hér heima. Síðast í Hollendingnum fljúgandi en sú ópera var sett upp af Íslensku óperunni, Þjóðleikhúsinu og Listahátíð árið 2002.

Hún hefur komið að tónlistarstarfi víða með bræðrum sínum sem eru einnig söngvísir menn og ljúfir. Sungið með ýmsum hópum og kórum – og einsöng.

Kirkjulegt starf hefur átt hug og hjarta Önnu Siggu í fjöldamörg ár. Hún hefur unnið við barnastarf og eldri borgarastarf. Einnig í fjölskyldumessum. „Ég er forsöngvari og blaðrari,“ segir hún skellihlæjandi.

„Ég vinn núna við sunnudagaskólann í Laugarneskirkju og í Árbæjarkirkju. Svo er ég með sameiginlegt eldri borgarastarf Laugarnessafnaðar og Áskirkjusafnaðar ásamt prestum og kirkjuvörðum,“ segir hún. „Við sjáum um allt, mat og dagskrá. Prestarnir byrja á helgistund og svo tökum við konurnar stjórnina.“ Eitt og annað er á dagskránni, eins og keppni í að þekkja fuglahljóð og ljóð. „Og svo syngjum við auðvitað saman,“ bætir hún við.

Þegar kirkjan.is ræddi við hana sagðist hún reyndar vera á leiðinni út í búð að kaupa átta sviðahausa og samstarfskona hennar sjö. „Þeir fara í pottinn í kvöld,“ sagði hún hress í bragði og brosandi. „Eldri borgararnir kunna að meta slíkan mat.“

„Ég geri ekkert skemmtilegra en að vinna með eldri borgurum og börnum,“ segir hún einlæg á svip.

Margsinnis hefur hún sungið í guðsþjónustum og samkomum í fangelsum landsins. Hrifið fangana með kröftugum söng sínum. Rætt við þá í kaffihléum, verið einlæg í tali við þá og umhyggjusöm. Þeir hafa hlustað á hana og geymt orð hennar með sér. Þegar hún kom fyrst til að syngja á Litla-Hrauni sögðu fangarnir strax yfir sig hrifnir við fangaprestinn: „Þú verður að koma með þessa aftur!“ Og við því var sannarlega orðið. Henni tókst meira að segja að láta þá syngja keðjusöng sem þeir vissu ekki að þeir gætu né þyrðu - og höfðu mjög gaman af. 

Anna Sigga, söngkona, röggsöm kona og hugulsöm, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

Anna Sigga syngur af hjartans lyst á aðventustund á Litla-Hrauni 
  • Æskulýðsmál

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Öldrunarþjónusta

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju