Kirkjuþing sett – þrjár konur

2. nóvember 2019

Kirkjuþing sett – þrjár konur

Þrjár konur: Ráðherra, biskup og forseti kirkjuþings

Setningarathöfn kirkjuþings 2019 hófst í Háteigskirkju kl. 9. 00 í morgun með helgistund sem sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, stýrði.

Að helgistund lokinni tók forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, til máls og setti þingið.

Bauð hún gesti velkomna og fór síðan nokkrum orðum um viðbótarsamning ríkis og kirkju. Taldi hún að með samþykkt hans hefði verið stigið stórt skref í sögu þjóðkirkjunnar, og mun samningurinn styrkja starfsemi kirkjunnar að hennar mati. Um er að ræða grundvallarskref til aukins sjálfstæðis í fjármálum kirkjunnar. Margvíslegar breytingar verða á ýmsu í skipulagi kirkjunnar í kjölfar þessa samnings sem kirkjuþing mun þurfa að taka á.

Drífa minnti á úrslit kosninganna 2012 hvað þjóðkirkjuákvæðið í stjórnarskrá snerti, rúmlega helmingur taldi að það ætti að standa áfram í stjórnarskránni. Hún gat um að fækkað hefði í þjóðkirkjunni og við því þyrfti að bregðast. Spurði hvort hlustað væri nógu mikið á grasrótina og hvort hlúð væri að kirkjulegu starfi með nógu kröftugum hætti. Sameiginlegt verkefni okkar væri að efla og styrkja kristið starf í landinu.

Drífa sagði að sóknargjöldin hefðu ekki fengist rædd í viðræðum við ríkið í tengslum við viðbótarsamninginn. Niðurskurður á þeim tekjulið sóknanna hefði komið sér afar illa. Endurheimta þyrfti sóknargjöldin eins og lög gera ráð fyrir. Sóknarsamband Íslands hefur verið stofnað og bindur forseti miklar vonir við það.

Síðan fór hún nokkrum orðum um helstu mál sem liggja fyrir kirkjuþingi en alls eru þau 39.

Dóms – og kirkjumálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ávarpaði þingið.

Ráherra sagðist hafa átt góð og upplýsandi samskipti við kirkjuna. Ætíð væri gott að byggja upp samskiptin og þar hefði kærleiksboðskapurinn lykilhlutverki að gegna. Talaði hún á persónulegum nótum og rifjaði upp að hún hefði misst móður sína í þessum mánuði fyrir sjö árum. Þá hefði kirkjan reynst henni afar vel og fyrir það væri hún þakklát.

Hún gat um mikilvægi þess að meta með skynsamlegum hætti milli íhaldssemi og frjálslyndis. Nauðsynlegt að horfa með opnum huga á allar framfarir og þróun sem á sér stað. Í því sambandi nefndi hún að þjóðkirkjan hefði verið of sein til að átta sig á réttindabaráttu samkynhneigðra á sínum tíma, hefði ekki skilið kall tímans, og það hefði kostað hana sitt. Hún þyrfti að læra af mistökum sínum en þó að sjálfsögðu að gæta sín á því að sveiflast ekki með tískustraumum, halda fast við grunngildi sín.

Síðan vék hún að sambandi ríkis og kirkju. Sagði að kirkjan gæti sinnt öllum verkum sínum óháð ríkinu. Stefnt væri að fullum aðskilnaði en stjórnarskrárákvæðið um kirkjuna ætti að halda sér. Hvort lútherska þjóðkirkjan hér yrði áfram þjóðkirkja væri undir henni sjálfri komið sem fælist í því að vera í tengslum við þjóðina.

Hún vitnaði í lokin til afa síns, sr. Magnúsar Guðmundssonar, prests í Grundarfirði, sem sagði í prédikun árið 1966 að kirkjan væri alltaf í smíðum – hún yrði að finna samhljóm með þjóðinni svo hún héldi áfram að vaxa og dafna.

Að lokum flutti biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, ávarp.

Hún fór nokkrum orðum um hið nýja húsnæði Biskupsstofu í Katrínartúni 4. Kirkjuþingið væri fyrsti stórviðburðurinn sem þar færi fram.

Síðan ræddi hún um viðbótarsamning kirkju og ríkis. Nýir tímar fara í hönd að hennar mati, reyndar sé mörgum spurningum ósvarað en þeim verði svarað. Ræddi hún einnig um stjórnarskrárákvæðið um kirkjuna og taldi það mikilvægt – það tengi saman ríki og kirkju.

Biskup minnti á hálfrar aldar afmæli Hjálparstarfs kirkjunnar á næsta ári. Því verður fagnað sértaklega 9. janúar. Hún fór nokkrum orðum um sögu starfsins og mikilvægi þess.

Þá ræddi biskup um flutning Fjölskylduþjónustu kirkjunnar í Háteigskirkju og þýðingu þeirrar þjónustu. Sálgæslan væri ein mikilvægasta þjónusta kirkjunnar og grunnfyrirmynd hennar væri Jesús Kristur.

Biskup vék að metnaðarfullu starfi Tónskóla þjóðkirkjunnar og mikilvægi hans. Einnig að nú færi að sjá fyrir endann á útgáfu sálmabókar kirkjunnar og að vonandi yrðu kirkjuþingsfulltrúar með eintak af henni í höndunum á næsta kirkjuþingi 2020.

Í lokin drap biskup á mikilvægi umhverfismála en þau munu koma til kasta þessa kirkjuþings. Minnti á að græna kirkjan hefði náð fótfestu, reyndar mislangt komin. Kirkjan væri þegar öllu væri á botninn hvolft stærsti umhverfisvettvangur landsins.

Þá lýsti biskup ánægju með Landsmót æskulýðsfélaganna sem hún hefði sótt í Ólafsvík á dögunum. Það hefði tekist mjög vel og margur lagt á sig ómælda vinnu við það.

Í lokin vék biskup að könnun um traust til kirkjunnar. Benti á að konur bæru meira traust til kirkjunnar en karlar, og eldra fólk treysti henni betur sem og fólk úti á landsbyggðinni. Hún brýndi fólk til dáða og sagði að sem fyrr væri mikilvægast að koma boðskap fagnaðarerindisins til skila.

Um tónlistarflutning við setningu kirkjuþings sá Kordía, kór Háteigskirkju, undir stjórn Guðnýjar Einarsdóttur, organista.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem þrjár konur í virðingarembættum koma að setningu kirkjuþings, þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings. Svo sannarlega söguleg stund hvað jafnréttismálin áhrærir. 

Og þess má geta að fjórða konan, Guðný Einarsdóttir, stýrði tónlistarflutningi, sem áður getur. 

Fyrsti fundur kirkjuþings hefst í dag kl. 13.00.

Fundum kirkjuþings verður streymt með hljóði og mynd, sjá hér.

Málaskrá kirkjuþings má sjá hér.


  • Biskup

  • Frétt

  • Fundur

  • Samfélag

  • Þing

  • Viðburður

  • Biskup

  • Samfélag

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði