Stutta viðtalið: Jól í skókassa

8. nóvember 2019

Stutta viðtalið: Jól í skókassa

Ingibjörg og Hreinn á Holtavegi

Kirkjan. is fór á jólastúfana til að kynna sér verkefnið Jól í skókassa.

Á morgun er síðasti skiladagur á skókössum, segja þau.

Hvað í ósköpunum er þetta eiginlega? Jól í skókassa? Ætti það ekki frekar að vera í eplakassa? Margur tengir epli við jól – alla vega í gamla daga var það svo – en það er sennilega liðin tíð.

En skókassi?

Inni á Holtavegi var fólk í miklum önnum að taka á móti skókössum og að pakka inn. Það var eins og að stíga fæti sínum inn í jólasveinaland. Byrjun nóvember og lágvær jólatónlist ómaði í salnum þar sem allir voru á þönum, börn og fullorðnir. Allt gekk smurt eins og á færibandi, hver maður hafði sitt hlutverk. Ýmist að raða ofan í skókassa, fara yfir það sem var í kössum sem komið höfðu, smella einni fallegri Jesúmynd í hvern kassa en á bakhlið hennar var jólaguðspjallið á framandi tungumáli og með dularfullu letri, loka kössum, fólk með fimm kassa í fanginu sem skellt var á borð og merkt um leið að þeir væru komnir í höfn. Svo fékk hver kassi sinn miða sem sagði til um aldur og kyn barnsins.

Þetta voru kærleiksríkar hendur sem unnu hratt og vel.

Alþjóðlegt verkefni

Hreinn Pálsson var til svara um skókassajólin inni á Holtavegi ásamt Ingibjörgu Valgeirsdóttur. Þau voru hress í bragði og bjartsýn um að allt næðist í höfn á endanum – eins og það hefur ætíð gert.

„Þetta er er alþjóðlegt verkefni sem KFUM & KFUK hafa sinnt allt frá árinu 2004,“ sagði Ingibjörg með bros á vör.

„Markmiðið er tvenns konar. Annars vegar að virkja fólk, unga sem aldna, til að safna gjöfum og hins vegar að gleðja í anda fagnaðarerindis jólanna þau sem minna mega sín,“ sagði Hreinn hress í bragði.

„Fólk úti í söfnuðunum setur gjafir í skókassana og pakkar þeim svo inn,“ sagði Ingibjörg. „Við pökkum líka hér inn gjöfum sem ýmsir hafa gefið okkur, bæði fyrirtæki og einstaklingar.“

„Þegar ákveðinn fjöldi er kominn af skókössum setjum við þá í stóra kassa, lokum þeim og setjum á bretti,“ sagði Hreinn.

„Brettin fara svo í gáminn hér fyrir utan,“ sagði Ingibjörg.

Kirkjan. is hafði einmitt rekið augun í fjörutíu feta gám fyrir utan höfuðstöðvar KFUM & K þegar tíðindamaður rölti síðdegis í napurri rigningu ofan Holtaveg og fram hjá uppljómuðum Langholtsskóla.

„Fyrst þú nefnir Langholtsskóla,“ sögðu þau Hreinn og Ingibjörg, „þá hafa börn þar komið með skókassa – og einnig úr leikskólanum Vinagarður.“

Þess er gætt að hafa svipaðar gjafir í hverjum kassa. Leikföng og eitthvað nytsamlegt. Og sælgæti.

Þau sögðu að það hafi verið árið 2004 sem þetta verkefni fór af stað. Það hefur síðan verið á hverju ári og vaxið með hverju ári.

„Nú stefnum við á fimm þúsund skókassa,“ sagði Hreinn vongóður.

Ýmsir söfnuðir taka þátt í verkefninu og KFUM & K deildir víðs vegar um land. Sem dæmi um þátttöku þá komu 106 kassar frá Hellu, 22 frá Höfn, 56 frá Lágafellskóla, 50 frá Árbæjarkirkju og þannig mætti lengi telja. Þátttakan er ótrúlega góð um allt land og fjölmargir sem koma að verkefninu úti í söfnuðunum – og skólum.

Úkraína

Jól í skókassa snúast semsé um að safna jólagjöfum sem geta fyllt einn skókassa og pakka honum inn. Skókassinn er síðan sendur til Úkraínu til héraðs sem heitir Kírovograd – skammt fyrir utan Kænugarð (Kiev). Börn sem búa þar við bág kjör fá kassana og fyllast gleði þegar þau fá alls konar gjafir úr landinu í norðri. Þetta eru fátæk börn, börn á munaðarleysingjahælum, einstæðar mæður, ungt fólk sem er á einhvers konar hælum og unglingafangelsum. Einnig börn á barnaspítölum.

Prestur úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar, Faðir Evheniy Zhabkovskiy, er tengill við verkefnið þar ytra. Hann heldur utan um verkefnið af miklum áhuga og öruggum og traustum höndum.

Hann hefur komið til Íslands í kynningarferð en KFUM í Úkraínu er starfandi innan kirkjudeildar hans.

Á fimmta tug milljóna búa í Úkraínu. Í austurhluta landsins hefur ríkt stríðsástand eins og kunnugt er. Víða er mikil fátækt í landinu og ástandið óstöðugt.

Hreinn fer ásamt tveimur öðrum utan og á eigin kostnað til að fylgja eftir verkefninu og til að hitta Föður Evheniy.

Já, og dularfulla letrið á Jesúmyndinni sem minnst var á hér að framan, er kýrillíska stafrófið en það nota þau í Úkraínu.

Góður hugur og velvild

Verkefnið nýtur mikillar velvildar ýmissa úti í samfélaginu. Þau Hreinn og Ingibjörg segja að öll þau er vinni í verkefninu séu ákaflega þakklát fyrir stuðninginn. Þennan dag hafði til dæmis komið hópur úr Íslandsbanka á svokölluðum góðgerðadegi sem þau hafa og lagt verkefninu lið. Það hafi verið 15-20 manns sem hafi staðið í ströngu dagpart og pakkað inn. Þá nefna þau að utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi lagt verkefninu lið og greitt götu þess.

Tekið er á móti skókössum í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 í dag kl. 9. 00 – 17. 00 fram að síðasta skiladegi sem er á morgun, laugardaginn 9. nóvember.

Sjá Facebókarsíðu verkefnisins hér.

Heimasíða KFUM & K hér.


Vinnuborðin í salnum voru vel skipulögð


Tómas Njáll Möller í jólaönnum


Leiðbeiningar fyrir gefendur


Faðir Evheniy Zhabkovskiy, er tengiliður við verkefnið í Úkraínu 





  • Alþjóðastarf

  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Söfnun

  • Trúin

  • Hjálparstarf

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju