Fólkið í kirkjunni: „Þessa kirkju reisti íslenska þjóðin...“

24. nóvember 2019

Fólkið í kirkjunni: „Þessa kirkju reisti íslenska þjóðin...“

Jón Valgarsson, sóknarnefndarformaður

Sóknarnefndarformaðurinn í Saurbæjarsókn á Hvalfjarðarströnd heitir Jón Valgarðsson. Hann býr á Eystra-Miðfelli með konu sinni Heiðrúnu Sveinbjörnsdóttur.

Jón fluttist með foreldrum sínum árið 1953 að Eystra-Miðfelli og þá var hann sjö ára gamall. Foreldrar hans þráðu að búa í sveit enda bæði úr sveit, hún að norðan úr Húnaþingi og hann úr Katanesi. Þau bjuggu um hríð á Akranesi en keyptu svo Eystra-Miðfellið. Húsakostur var fremur dapurlegur en með vinnusemi og bjartsýni hinna íslensku bænda byggðu foreldrar hans jörðina upp og reistu hús 1958. Eins og margur bóndasonurinn fór Jón á bændaskóla og það var ekki langt að fara að Hvanneyri. Hann lauk þaðan prófi og bjó með foreldrum sínum. Síðan tók hann við búskapnum ásamt konu sinni, Heiðu, árið 1969. Þau voru með kýr og fé. Þetta voru þeirra manndóms- og hamingjuár í sveitinni sunnan Heiðar. Ár búmennsku, barnauppeldis, félagsstarfa og tómstunda.

Nú hafa þau lagt búskapinn á hilluna og hann er kominn í hendur bróðursonar Jóns.

En kirkjumálin eru enn á hillu Jóns bónda og hann sinnir þeim af mikilli kostgæfni.

„Ég er búinn að vera sóknarnefndarformaður í fjórtán ár,“ segir Jón með sínu þægilega brosi og skýrmæltur að vanda. Hann er augljós röskur maður í eðli sínu og einbeittur, glaðsinna og nettur – enda þau hjón í dansfélaginu Sporinu sem leggur rækt við íslenska danshefð og farið víða og sýnt. En það er nú önnur saga

„Hallgrímskirkja í Saurbæ er ein af fimm höfuðkirkjum landsins, vígð 28. júlí 1957,“ segir hann. „Þetta er glæsilegt hús og reist í minningu skáldsins enda stendur yfir útidyrum hennar: Þessa kirkju reisti íslenska þjóðin drottni til dýrðar í minningu um Hallgrím Pétursson.“ Jón segir að heimafólk sé stolt af kirkjunni en sóknin er fámenn, innan við hundrað manns, og því ljóst að hún ræður ekki ein við að halda húsinu við. Hann segir að margir hugsi hlýtt til kirkjunnar og í sumar hafi til dæmis verið haldnir tónleikar af hollvinum Hallgrímskirkju í Saurbæ og ágóðinn hafi runnið til kirkjunnar. Ráðgert er að halda tónleika næsta sumar með svipuðum hætti.

Í Hallgrímskirkju í Saurbæ eru steindir gluggar eftir listakonuna Gerði Helgadóttur, sem eru mikið listaverk.

Hallgrímskirkja í Saurbæ er fagurt hús og þau sem þar fara um spyrja vissulega hví þetta mikla guðshús sé þarna í sveitinni. Sagan svarar því.

Jón sóknarnefndarformaður er margfróður um Hallgrímskirkju og söguna. Hann hefur tekið á móti hópum fólks í Saurbæ og sagt frá kirkju og staðnum – sérstaklega nú í sumar þar sem enginn hefur verið á staðnum. Hann telur mjög mikilvægt að einhver hafi búsetu í Saurbæ eftir að það var aflagt sem prestssetur. „Sú búseta á að tengjast framtíðarhlutverki staðarins með einum eða öðrum hætti,“ segir Jón ákveðinn.

Það eru ekki margir sem vita að undir Hallgrímskirkju í Saurbæ er drjúgur kjallari sem varð til þegar reisa átti þar kirkju samkvæmt teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Frá því var horfið og reist önnur kirkja ofan á kjallarann og sú er verk arkitektanna Sigurðar Guðmundssonar og Eiríks Einarssonar.

„Það væri gaman að tengja kjallarann við kirkjuna en fyrir því var ekki hugsað í upphafi,“ segir Jón og áhugasemin og umhyggjan fyrir framtíð kirkjunnar leynir sér ekki í raddblæ og fasi. „Kjallarinn væri gott safnaðarheimili ef hann yrði tengdur – sem er hægt – við kirkjuna eða jafnvel safnasalur ef hér yrði komið upp Hallgrímssetri eins og stungið hefur verið upp á.“

Jón var í starfshópi sem skipaður var til að skoða framtíðarmál Saurbæjar og skilaði sá hópur áliti sem má sjá hér.

Hallgrímskirkja skipar sess í huga sóknarnefndarformannsins. Hann var fermdur í kirkjunni af sr. Sigurjóni Guðjónssyni (1901-1995).

„Hann var síðasti presturinn sem var bóndi í Saurbæ,“ segir Jón. „Hann bjó með kýr og kindur. Sr. Sigurjón var fjármaður, hafði gaman að sauðfé og hafði vit á því.“ Jón bóndi segir með stríðnisglampa í augum ekki kalla það búskap þó að prestur sé með nokkrar rollur og láti aðra nytja landið. „Nei, sr. Sigurjón var sko prestur og bóndi,“ segir hann með þunga. „Og svo var hann skáld gott og talaði reiprennandi þýsku.“

„Kirkjan var fyrst kynt upp með rafmagni,“ segir Jón. „En það var firnadýrt og gekk ekki upp.“ Hann segir að þegar farið var að bora eftir heitu vatni innan við Saurbæ, milli Ferstiklu og Hrafnabjarga, árið 1986, þá hafi það gengið brösuglega. Byrjað var með 500 metra langan bor en ekkert gekk. Allt var þurrt og ekkert heitt vatn að finna. Menn voru orðnir úrkula vonar en ákváðu reyndar að fá lengri bor, 800 metra langan, og þar yrði látið við sitja. Áður en borun hófst aftur sammæltust menn um að heita á Hallgrímskirkju. Ef vatn fyndist þá myndi hún fá að njóta þess með ókeypis vatni meðan hún stæði. Og haldið var áfram að bora. Niður á 600 metra, 700 metra. Og ekkert gerðist og var heldur farið að dofna yfir mannskapnum. Nú nálgaðist lengd borsins ískyggilega hratt, 800 metrar og ekki færi hann dýpra. En viti menn. Streyma ekki skyndilega fram 24 sekúndulítrar af 84°C heitu vatni rétt áður en bornum sleppir! „Þess hefur Hallgrímskirkja í Saurbæ notið síðan,“ segir Jón sóknarnefndarformaður stoltur í bragði.

Jón Valgarðsson, sóknarnefndarformaður í Saurbæjarsókn í Hvalfjarðarsveit, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.









  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju