Öðruvísi frétt: Opinn faðmur kirkjunnar eða Guð í Kolaportinu

25. nóvember 2019

Öðruvísi frétt: Opinn faðmur kirkjunnar eða Guð í Kolaportinu

Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, og sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir

Þetta er Reykjavík. Sunnudagur 24. nóvember 2019. Í messuauglýsingum í Mogga laugardagsins stóð: 

Kolaportið í miðborginni og að því steðja stórverslunarhús, fimmstjörnu hótel, bankar, menningarhús og veitingahús. Já, þarna er Kolaportið með sínum sérstöku verslunarbásum, sumir standa skemur en aðrir. Og varningurinn, maður lifandi. Menn kunna að spyrja hví í ósköpunin þetta eða hitt hafi verið framleitt og hvernig standi á því að það hafi strandað hér nánast á hafnarbakkanum í henni Reykjavík. Glingur, fatnaður og fatnaður í milljónasta veldi, leikföng, bækur, hljóðfæri, matur og sælgæti. Allt. Og margvísleg tungumál hljóma. Lifandi mannlífstorg.

Þegar kirkjan. is gekk inn í Kolaportið blasti við slá með bláum peysum og stuttermabolum sem á stóð: Allt á 1000 kr. á slánni. Himinblár liturinn freistaði ekki beint að sinni og því var gengið innar og staðnæmst um stund fyrir framan borð með mörg þúsund gleraugum og afgreiðslukonan spurð hvort þetta væri tilboð um valkvíða dagsins og brosti hún við og sagði það ekki fjarri lagi. Og við aðra fataslá ekki langt frá eiturgrænt spjald sem á stóð á íslensku og ensku: Fylltu pokann fyrir 2000 kr. – og klunnaleg ör vísaði leiðina.

Ekki beint skortur á bænum af hinum efnislegu gæðum en fátt var um viðskiptavini á þessum sólgráa nóvembermorgni – kannski fjárskortur rétt fyrir mánaðarmót.

En gamlir peningaseðlar og póstkort blöktu á snúru með klemmu eins og til þerris væri eftir langa rysjótta ævi hjá póstkorta- og seðlasalanum í Kolaportinu. Hm, 500 króna seðill frá 1928 á 25. 000 kr. Óljóst með þá ávöxtun í ljósi áranna og núllklippingar af krónu hér um árið. Og póstkortin í stöflum frá ýmsum tímabilum. Þéttholda póstkorta- og seðlasalinn, ábyrgðarfullur á svip, benti á plasthylki með gömlum póstkortum i lúnum ílöngum pappakassa sem hafði gefið sig á hornunum en því bjargað að hætti hússins með málningarlímbandi og sagði að þarna væru póstkort með myndum af kirkjum. Kvað alveg ótrúlegan fjölda safna kortum og spurði „En þú“ og neiið við þeirri spurningu var varla lent þá að sveif maður nokkur all hraðskreiður sem sagðist hafa átt stærsta kortafyrirtæki landsins af gömlu tegundinni. Dró eftir leifturleit upp himinbjart póstkort úr öðrum lúnum ílöngum pappakassa með mynd frá Reykjavíkurtjörn um 1970 og vingsaði því snögglega sigri hrósandi um stund og viðstöddum í þessari örstuttu mannlífssenu varð ljóst eftir kúnstpásuna sem fylgdi vingsinu að þetta var eitt kortanna úr firmanu hans. Þéttholda póstkorta- og seðlasalinn spurði áhugasamur með verslunarglampa í augum hvar kortin væru. Þarna væri kannski strandgóss, leyndist í svipnum og hin fræga brún lyftist ögn. En gamli póstkortasalinn steðjaði í burtu og virtist ekki ætla að svara en á hárréttu augnabliki hversdagsleikhússins sagði hann skýrmæltur og tók vel utan um orðin – enda kveðjuorðin áður en hann steig út af sviðinu hinsta sinni - svo þau bárust vel eftir ganginum í Kolaportinu að þau væru vel geymd og týnd eins og hann.

En kirkjan.is hélt áfram för sinni í þessu völundarhúsi sunnudagsins í leit að Kolaportsmessunni og Guði. Rambaði loks á skilti eitt varðað kókauglýsingum: Kaffiport.
Á góðum stað í kaffihúsinu við vegg prýddan listaverkum af stórkarlalegu íslensku landslagi stóðu þær sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir og Ragnheiður Sverrisdóttir djákni og voru að undirbúa guðsþjónustuna. Una Haraldsdóttir var við píanóið.

Söfnuðurinn var mættur eða kannski hafði hann bara verið þarna um hríð – og alls ekkert farasnið á honum - hann var bara þarna. Hann kemur augljóslega úr ýmsum áttum. Öskuhvít og slétt andlit langrar inniveru og veikinda, hryssingslegir dagar töluðu út úr öðrum andlitum. Og andlit með engum svip. Sumir eru fátækir, aðrir ekki en fara sínar leiðir, enn aðrir hafa átt leið hjá án þess að vita og setjast um stund niður. Og svo eru þeir sem eru skrítnir á hinn almenna mælikvarða. Þá er sá hópur sem kann vel við þessar aðstæður við móttöku á fagnaðarerindinu, sötrar kaffi og nartar í bakkelsi. Eða borðar skyndimatinn úr pappírnum með sósu úti á kinn og fylgist með úr laumulegri fjarlægð. Nokkrir eru í hjólastól. Börn hrína í fjarska. Kona nokkur sat þar með vinkonu sinni og kirkjan.is varpaði á hana kveðju og spurði tíðinda en hún svaraði að það vantaði bílastæði. Þetta væri allt á heljarþröm. Síðasti dagur kirkjuársins og textar um jörð sem nötrar og nýja veröld í vændum. Spennandi sunnudagur í Kolaportinu.

Söngur ómaði í Kaffiportinu og þær sr. Ása Laufey og Ragnheiður djákni tóku stundina í sínar hendur af hógværð og elskusemi. Þær leiða hana af skilningi og á þeim er enginn asi. Ganga í verkið af kvenlegu innsæi og fumleysi. Þetta eru aðstæðurnar. Þetta er söfnuðurinn. Samfélagið og það er ekki að sjá annað en öllum líði vel. Fólkið signdi sig í upphafi, tók undir bæn og söng með sínu nefi, hátt og lágt. Djákninn íhugaði orð postulans Páls úr Filippíbréfinu:

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
Að endingu, systkin, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.“ (4.4-8).

Djáknanum fórst það vel úr hendi. Fólkið hlustaði á þennan magnaða texta sem djákninn benti á að innihéldi ekki bara skilning á kjörum fólks heldur bæri í sér von og hvatningu til bæna. Sagði meðal annars frá manneskju sem hefði haldið þakkardagbók sem hún hefði skráð allt í sem var þakkarvert og það var þrátt fyrir allt býsna mikið þegar upp var staðið.

Fyrirbænir voru nokkrar fyrir sjúku fólki og hjónabandserfiðleikum fólks úti í bæ. Vel var tekið undir þær og af mikilli einlægni.

Sr. Ása Laufey og Ragnheiður fóru svo í lokin á milli fólks og struku fingri í lófa viðstaddra með ilmolíu og viðhöfðu falleg orð. Það er smurning. Vægur framandi ilmur reis mjúklega upp. Sumir lögðu vit að lófa sínum eftir blessunina. Einn mannanna horfði um stund í lófa sér og sagði að nú gæti hann flutt blessun milli manna um leið og hann tæki í hönd þeirra. Annar sagði þá presturinn gekk þar hjá að falleg væri stólan, hún var prýdd lífsins tré. Já, hann hafði orðið stóla á hraðbergi. Ekki alveg ókunnur kirkjunni.

Kirkjan.is kastar kveðju í lokin á tvo menn við eitt borðið og spyr hvort þeir komi þarna oft. Annar segist hafa komið í þrjú ár í messuna og hinn skemur en býður brosandi viðmælanda sínum að draga guðsorð upp úr litlu gylltu boxi. Upp er dregið orð um bandingjann: 

Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. (Efesusbréfið 4.1-3).

Síðan kemur stutt útlegging ekki svo fráleit að allir séu nú bandingjar þegar öllu sé á botninn hvolft og losni ekki úr fjötrunum fyrr en þeir sjái hver sé lausnarinn. Ágætur eftirréttur við prédikun djáknans þar á undan.

Það hefur verið messað í Kolaportinu í meira en tvo áratugi. Þetta er kirkjulegt starf sem fólk hefur kunnað að meta og haldið tryggð við. Griðastaður fyrir fólk úr öllum áttum – kirkja sem kemur til fólks til að þjóna í auðmýkt.

Eigandi kaffistofunnar gaf leyfi fyrir því á sínum tíma að þar mættu guðsþjónustur fara fram og nýir eigendur hafa fetað í hans góða fótspor hans. Ekki úthýst Guði þó hann sé nú ekki alls staðar velkominn í hinum glæstu opnu rýmum nútímans.

Kolaportsmessurnar sýna breidd kirkjunnar. Sýna undraverðan kraft hennar sem birtist á vissan hátt í veikleika en allt er unnið af trúmennsku og samviskusemi. Það er svo hluti af styrkleika hennar. 

Þetta er starf kirkjunnar í anda meistarans frá Nasaret, meðal umkomulausra og hinna leitandi. Unnið af trúmennsku og samviskusemi. Ár eftir ár. Lúðrar ekki þeyttir.

Á leiðinni út úr Kolaportinu staldraði kirkjan.is aftur við hjá korta- og seðlasalanum. Hann var að ganga frá. Aftur var farið um lúna ílanga kassann með fáeinum kirkjumyndum og staldrað við þessa mynd hér fyrir neðan og hún keypt gegn vægu gjaldi. Sá heimur sem hún sýnir er ólíkur heimi Kolaportsins. En kirkjan.is þakkar fyrir guðsþjónustuna í Kolaportinu.

Já, og meðal annarra orða. Næsta guðsþjónusta í Kolaportinu er 15. desember. Allir velkomnir. 

Þá er bara spurningin: Hvert er prestssetrið? 


  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Messa

  • Samstarf

  • Trúin

  • Menning

Diddú og Bergþór

Síðustu hádegistónleikar í Bleikum október

29. okt. 2024
...Diddú og Bergþór Pálsson
Nokkur mættu í Valgerðartísku á fyrirlesturinn

Mikið um dýrðir í Skálholti um síðastliðna helgi

29. okt. 2024
...fyrirlestur um Valgerði Jónsdóttur og Hallgrímsmessa
Forsíða vegna kynningar.jpg - mynd

Skírnarguðfræði Lúthers

29. okt. 2024
...lúthersk skírnarguðfræði á Íslandi