Söfnuður í kærleiksstarfi

27. nóvember 2019

Söfnuður í kærleiksstarfi

Ölfugur hópur að störfum í Grensáskirkju - ungir og aldnir

Kirkjan.is hitti áhugasamt fólk og drífandi fólk í morgun í einni kirkju borgarinnar. Safnaðarfólk sat og klippti út engla, límdi og þræddi spotta, – og hverjum skyldi ekki líða vel í návist engla?

Það var glatt á hjalla hjá mannskapnum og stigvaxandi stemning fyrir komandi aðventu sem lá í loftinu í Grensáskirkju. Ljúfur súkkulaðiilmur sveif yfir og kitlaði í nefið, yfirþyrmandi lúmskar og góðar smákökur í boði og ásamt freistandi jólaköku með hvítsykruðu snjóþaki. Allt nýbakað. En það sem er fyrir öllu: góður og hlýr félagsskapur. Hvað er betra?

Þetta er safnaðarstarf sem er til fyrirmyndar.

Í rúman áratug hefur Grensássöfnuður í Fossvogsprestakalli lagt lið verkefni sem felst í því að útvega jólagjafir til barna sem fangar eiga.

Á aðventunni hefur verið komið upp jólatré í kirkjunni og á því hangið spjöld sem fólk í söfnuðinum hefur tekið. Fólkið hefur síðan komið með litla og nytsama jólagjöf og lagt við tréð. Þetta hefur líka verið samvinnuverkefni inni á mörgum heimilinum, fermingarbörn og yngri börn hafa gengið saman í verkið til að gleðja þau sem minna mega sín. Á spjaldinu hefur oft bara staðið: Frá: Jólasveininum; eða vini eða vinkonu. Síðan hefur gjöfinni verið komið á áfangastað með aðstoð góðra manna.

Tréð hefur verið kallað Englatréð. 

Þetta er kærleiksverkefni og samfélagsverkefni sem söfnuðurinn hefur tekið að sér í samvinnu við fangaprest þjóðkirkjunnar og hann fleytt svo áfram með þeim er sjá um daglegan rekstur fangelsanna.

Þuríður Guðnadóttir, kirkjuvörður, hefur veitt þessu starfi lið undanfarin ár af miklum dugnaði og kallaði nú til safnaðarfólk ásamt prestunum sr. Maríu Guðrúnardóttur Ágústsdóttur, sr. Evu Björk Valdimarsdóttur og djáknanum Daníel Ágústi Gautasyni. Það var vænn hópur úr söfnuðinum sem kom til starfa og verkið gekk fljótt og örugglega fyrir sig. Þau eru nokkur handtökin. Klippa út engil, líma miða aftan á engilinn sem á stendur að skila eigi gjöf helst inn fyrir 15. desember. Loks þarf að setja þráð í svo hægt verði að hengja engilinn á Englatréð.

Verkefnið er gott dæmi um eitt af þeim mörgu sem margir söfnuðir vinna án þess að þeyta lúðra. Þetta er kærleiksrík grasrótarvinna í söfnuðinum. 

Verkefnið er nú með ögn breyttu sniði en áður hefur verið vegna þess að beðið er eftir að nýr fangaprestur verði ráðinn en það mun gerast á næstunni. Fyrrverandi fangaprestur hefur verið söfnuðinum til ráðuneytis um fyrirkomulagið að þessu sinni.

Börn fanga eru ósýnilegur hópur sem býr við margvísleg kjör og hefur tilgangur þessara gjafa ætíð verið sá að gleðja börn sem búa við aðrar aðstæður en venjuleg börn, sem og að vekja athygli á því að fangar eiga börn. Söfnuðurinn hefur svo komið að þessari kærleiksþjónustu með ómældri umhyggju sinni fyrir Englatrénu og séð til þess að allt fari það nú vel.

Á sunnudaginn 1. desember, fyrsta sunnudag í aðventu, verður guðsþjónusta í Grensáskirkju kl. 11.00 og þá verður búið að setja Englatréð upp með englaspjöldunum og það verður kynnt sérstaklega.

Aðventukvöld verður svo í Grensáskirkju annan sunnudag í aðventu, 8. desember kl. 17. 00. 

  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Hjálparstarf

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju