Bókarfregn: Jökla ber hlýjar kveðjur

29. nóvember 2019

Bókarfregn: Jökla ber hlýjar kveðjur

Jökla, afmælisrit handa sr. Þóri Jökli Þorsteinssyni

Þetta bókarform, heiðursbókaform, eða afmælisrit, hefur heldur sigið undan hin síðari ár af ýmsum ástæðum og þó síst þeirri að skortur sé í nútímanum á körlum og konum sem séu einhvers heiðurs verð. Þess vegna er það skemmtileg viðbót við bókaflóruna þegar slíku riti skýtur óvænt upp kolli í upphafi jólabókavertíðar. Það er á vissan hátt ögn brattgengur tími en þó ögrandi. En þeir sem heillast hafa af völundarhúsi guðfræðinnar kippa sér ekki upp við það.

Hér knýja fast níu karlar, góðir og gegnir, lyklaborðin, hver á sínum stað. Allt kunnir menn í sinni sveit sem heiðra vilja sextugt afmælisbarnið, sr. Þóri Jökul Þorsteinsson, með afmælisriti sem sækir nafn sitt til Jökulsins, og heitir Jökla. Vel við hæfi. Snæfellsjökull er enda skyldur afmælisbarninu með sínum hæti.

Greinarnir eru úr ýmsum áttum en allar vel læsilegar og hver þeirra vekur lesandann til umhugsunar og hvetur hann til að gefa efninu nánari gaum hafi hann tíma til þess. Og jafnvel þótt hann hafi ekki tíma þá hafa greinarnir svalað fræðaþörf á hraðfleygri stund. Það er vel og þakkarvert.

Átta þeirra er rita greinarnar eru guðfræðingar og einn er leikmaður samkvæmt skilgreiningu og grein hans sýnir hve fráleitt það orð er í raun og veru þegar ljóst er að hún er rituð af þekkingu og þrótti, innsæi og kærleika. Hann enda fjölmenntaður, hagfræðingur, menntunarfræðingur, sagnfræðingur og íslenskufræðingur.

Það er fyrrum vígslubiskup í Skálholti, sr. Kristján Valur Ingólfsson, sem skrifar inngangsorð og segir frá góðum kynnum sínum af afmælisbarninu. Sr. Þórir Jökull tók við af honum á Grenjaðarstað á sínum tíma og áhugamál þeirra hafa fallið eftir sama farvegi sem er guðfræði, kirkjufræði og helgisiðafræði. Hann lætur þess og getið að afmælisbarnið hafi í seinni tíð hugleitt hjónabandið, stöðu þess og gildi, og væntir þess að heyra frá honum um þau mál „þegar hann er kominn á efri ár sinnar þjónustu og þroska.“ (Bls. 10).

Þá tekur við prédikun eftir sr. Jan Otto Myrseth, biskup í Túnsbergsbiskupsdæmi í Noregi. Svona er veröldin skemmtileg. Prédikunin er „eftir bókinni“ eins og maður segir – hana hefðu þúsund aðrir geta skrifað en samt engir tveir eins, Kristsmiðlæg og mystisk  – hún er góð fyrir sinn biblíulega hatt og sérstaklega þegar maður kíkir á höfundinn á Facebook og sér hvað prófíllinn er úr annarri átt en þó efnislega skyldri (þar er Jan með hattinn í orðsins fyllstu merkingu). Það eitt og sér sýnir hve klassísk guðfræði getur klæðst hvort heldur kufli eða gallabuxum og hnýflóttur nútíminn hrín ekki á henni. – Prédikunin er þýdd af afmælisbarninu og skrifar hann einnig nokkrar neðanmálsskýringar.

Það er athyglisverð fyrirsögn sem fylgir grein dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar: Kirkjubyggingin sem texti. Bak flestum byggingum liggur hugsun sem segir til um til hvers viðkomandi hús er reist og fyrir hverja. Í sjálfu sér er ekki verið að ræða um hús samlit grundinni sem reist voru á hólum handa fólki svo það gæti lifa af; hús af torfi og grjóti sem var sá efniviður er nærtækastur var svo öldum skipti.

Eins og texti kallar fram ákveðin hughrif þá hefur byggingameisturum verið ljóst frá öndverðu að byggingar geta kallað fram djúp og mikil hughrif. Geta talað við manneskjuna sem ber hana augum og kemur þar inn fyrir dyr, hvort heldur til að sjá það sem hún má sjá og það sem hún má ekki sjá. Menn hafa jafnvel haldið því fram að guðdómurinn geti talað sterkar til manneskjunnar í gegnum form byggingalistar, fegurðar, en í gegnum texta.

Já, höll frímúrara er útspekúleruð með öðrum hætti en keiluhöll, það er sitt hvor táknfræðin. Reynt að kalla fram hugarástandað hætti hússins. Sé hús reist ræður miklu um útlit og skipulag sem því er ætlað að hýsa – ekki mikil speki í sjálfu sér. Saga menningarfyrirbæra eins og kirkju og skóla setja mark sitt á húsateikningar og hugmyndir. Frægt í þessu sambandi eru fangelsisbyggingar. Þau flest hús sem reist hafa verið til að loka fólk inni státa af lítilli fegurð. Þau eru „járngrimm“ að sjá og endurspegluðu fyrrum hefndarhug samfélagsins í garð brotamanna – enda gjarnan reist á jöðrum samfélagins. Það þótti því tíðindum sæta þegar Hólmsheiðarfangelsið fékk virt verðlaun arkitekta. Þar spilaði inn í – að mati þess sem hér leikur á lyklaborðið – sjálf náttúran þar í kring, umhverfið. Hún réði sennilega úrslitum.

Byggingar hvers tíma endurspegla hugmyndakerfi, mannskilning, hugmyndir um manngildi og notagildi, fegurð, skipulag og þannig mætti lengi telja. Þær segja sögu tímans.

Þórbergur Þórðarson talaði um að „lesa hús“ í Ofvitanum en það var nú reyndar meira að kunna sögu húsanna og örlög þeirra sem þar bjuggu eða höfðu búið. Sigurjón Árni rekur hér þræði úr grundvallarritum þar sem fjallað er um kirkjuhús. Og þar kennir að sönnu margra grasa. Spennandi verður að sjá verk hans um þetta efni sem ku ekki vera langt undan. Þessi grein er sennilega bara hlýr gustur frá stærra verki.

Stefán Karlsson, guðfræðingur, skrifar greinagóða yfirlitsgrein um þýðingu kristindómsins í afhelguðu samfélagi. Það eru skemmtileg og spámannleg orð í lok greinarinnar hjá honum: „Í kristindóminum býr sprengikraftur sem veröldin stenst ekki gagnvart án þess að verða fyrir áhrifum af honum.“ (Bls. 57). Hin félagslegi þáttur kristinnar trúar er veigamikill að áliti Stefáns þegar hið kröftuga minni trúarinnar, þjáning og dauði Krists, er hafður í huga andspænis öllu ranglæti veraldar sem viðgengst, mannréttindabrot, arðrán og óréttlæti hvers konar. Þetta minni kristninnar kallar háa sem lága til verka gegn öllu því sem sviptir menn mennskunni.

Frá hendi sr. Kristins Ólasonar er grein þétt sem berg og athyglisverð. Fjallar hann þar um þann þátt trúarbragða sem felst í gerð mynda og líkneskja af guðunum – og svo bann við því. Segir að hin fornu trúarbrögð Miðausturlanda hafi notast við einhvers konar myndir sem gæfu til kynna með einhverjum hætti hvernig viðkomandi guðavera liti út. Maðurinn býr náttúrlega í sínum heimi og hefur á öllum tímum leitast við að varpa upp mynd eða gera líkneskju af því sem hann kallar guð, höfund tilverunnar o.s.frv. Öllum er kunnugt um að í Gamla testamentinu er skaparinn ekki svo ólíkur manninum, í sinni mynd, Guðs mynd, svo sem frægt er (að minnsta kosti eins og þá Drottinn Guð gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum). Þó deila menn hart um hvort myndastytta af Jahve hafi verið í musterinu í Jerúsalem – en slík stytta er ekki nefnd í Gamla testamentinu né hún heldur fundist við fornleifauppgröft. Það er forvitnilegt að lesa að í musterum Mesópótamíu og Egyptalands hafi almennt verið gert ráð fyrir að „óskin um gerð helgimyndar kæmi frá guðunum sjálfum í formi opinberunar“. (Innan sviga og til gamans má skjóta því að hvort tilkoma þess sem kallast „selfie“ hafi ekki verið einhvers konar tegund opinberunar fyrir sjálflægan nútímamanninn – lesarinn athugi það.) En áfram: Hér gegndu handverksmennirnir, listamennirnir?, lykilhlutverki, voru kannski guðfræðingar, segir Kristinn, eða „andlegir tæknifræðingar.“ Sértækur guð, Maat, kom þeim til aðstoðar, þar hafi grúft sig yfir vinnuborðið menn og guð – ekki amalegt kompaní. Já, bara þokkalegt teymi! Eflaust hafa sumir listamenn fundið fyrir þessu sjálfir í fortíð sem nútíð án þess að geta um sérþjónustu viðkomandi goðs eða guðs, veru. Vangaveltur í kjölfarið um það hvenær helgimynd verður að guðsmynd er svo efni í firnagóðar pælingar. Hvenær menn fara að dýrka skepnuna í stað skaparans – hið gamla þrætuepli er aldrei jafn gljáandi og freistandi sem þá. Hversu miklu púðri er eytt í að dásama listaverkið per se en líta fram hjá boðskap þess – eða er ekki hægt að greina þar í milli?

Höfundur fjallar um myndbann Gamla testamentisins og þau miklu áhrif sem það hefur haft á menningu heimsins eins og hún birtist í gyðingdómi, kristni og íslam. Það var túlkað á ýmsa vegu í aldanna rás.

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson skrifar um 23. Davíðssálm og svarar þeirri spurningu játandi að hann sé þungamiðja Gamla testamentisins. Hann hafi rætur í allar áttir innan hinna hebresku ritninga, í sögurit, spekirit og spámannarit. Tengist helstu trúarstefjum innan heims Gamla testamentisins.

„Gamla testamentið er raunsætt rit,“ segir  Gunnlaugur. Líf hins trúaða er fráleitt einn sæludraumur. Þar eru dimmir dalir. Harmsálmarnir tjáðu það meðal annars. En huggunartextar í Gamla testamentinu eru líka fjölmargir og mjög svo sterkir. Fjallar Gunnlaugur í þessu sambandi um Jesajabók 40-55. Þar er hinn fræga texta að finna: „Huggið, huggið...“ sem tengist 23. Davíðssálmi og boðskap hans um óttaleysið.

Forveri Gunnlaugs og lærifaðir, dr. Þórir Kr. Þórðarson (1924-1995), sagði einhverju sinni í tíma um Gamla testamentið þegar fjallað var um raunsæi og hugsýnir: „Þið getið fundið allt þar vegna þess að Gamla testamentið er lífið og segir frá lífinu eins og það er...hinu fegursta og því hryllilegasta.“ Þessi orð eru geymd í minni þess sem slær hér inn á kirkjan.is og heyrði þessi orð falla – að minnsta kosti merkingu þeirra sem hér er komið til skila. Gunnlaugur er líka raunsær í allri umfjöllun sinni og traustur fræðimaður. Hann drepur á nokkur meginstef í guðfræði Gamla testamentisins og höfuðritum þess og það hressir hug og hjarta.

Gunnlaugur skrifar skýran texta, hógværan og metnaðarfullan – og er persónulegur. Hann hefur einkar gott lag á að fjalla um Saltarann frá ýmsum sjónarhornum og kveikir alltaf áhuga á því að lesa sér meira til. Þannig eiga fræðimenn að vera. Kannski eigum við von á bók frá honum sem geymir úrval af þáttum hans um Davíðssálmana – það væri gaman.

Grein Jóns Sigurðssonar, sem er mikill kirkjunnar maður og hefur komið víða við í íslensku samfélagi sem ritstjóri, skólastjóri, bankastjóri og ráðherra, er yfirgripsmikil og rituð af miklum þrótti og hugsjónaeldi eins og hans er von og vísa. Hann brýtur til mergjar hinn sögulega þátt kristninnar og trúarinnar. Kristinn siður er grundvöllur menningar en hún hefur látið á sjá fyrir samfélagsþróun þar sem eftirkristni er ráðandi. En trúin er vitund og skynjun. Hann kemst skemmtilega að orði í þessu samandi er hann segir: „Kristnir menn eru þá trúhneigðir og siðfylgnir, í mismunandi mæli.“ (Bls. 132). Hann brennur fyrir málstað kirkjunnar og þykir miður hvernig samfélagsþróun hefur þokað henni til hliðar: „Kristnin hefur glatað áhrifum á þjóðlíf og samtíðarmenningu Íslendinga. Opinbert líf, fjölmiðlun og félagsstörf og líka listir og menningarlíf virðast að langmestu leyti eftirkristin, vaxin upp úr kristninni. Kristnin skríður í feimnislegt skjól. Siðfrelsi og veraldarhyggja sækja á. Akkerið og áttavitinn týnast.“ (Bls. 167). Þetta eru umhugsunarverð orð og í hugum sumra þung – jafnvel óvægin og ósanngjörn. Guðfræðingar hafa vissulega glímt við veraldarhyggjuna og metið hana hvort tveggja með jákvæðum hætti og neikvæðum – skipst í fylkingar. Í þessu sambandi er skylt að benda á þýska guðfræðinginn Dietrich Bonhoeffer (1906-1945) sem reyndi að leysa þessa klemmu með þeim orðum að maðurinn hefði – eins og honum hafi verið ætlað – vaxið úr grasi – frá guðdóminum vegna þess að hann hefði fengið frelsi til þess. Hann ræddi um það í Fangelsisbréfunum að tími „hins trúlausa kristindóms“ myndi renna upp og talar auk þess um kristindóminn sem umgjörð utan um trúna. (Sjá Fangelsisbréfin, Dietrich Bonhoeffer, þýð. Gunnars Kristjánssonar, bls.  234-235 og 238, R. 2015).

Það er ekki öllum gefið að rökræða eða eiga í rimmu við þá sem aðhyllast guðleysi. Í slíkt tog þarf seiglu og rökvísi, kærleika og mannskilning. Sr. Gunnar Jóhannesson býr yfir þessum hæfileikum og þeir koma vel fram í grein hans: Af samtalinu við gagnrýndur og guðleysingja. Hann slær auk þess sterka tóna trúarheimspekinnar í samtali sínu við viðmælendur sína. Ummæli viðmælandans um að guð sé ekki til og ekkert bendi til þess verður til þess að Gunnar rekur fimm „góðar ástæður fyrir því að við getum trúað á tilvist Guðs.“ (Bls. 175). Hann gerir sér engu að síður ljósa grein fyrir því að þessar ástæður eru ekki „skotheldar sannanir“ (bls. 182) fyrir tilvist Guðs. Aftur á móti – og það er kannski einfaldlega kjarni málsins – er það hversdagsleg reynsla mjög margra (þó alls ekki allra) að tilvist Guðs varpi skýrara ljósi á lífið í hringiðu líðandi stundar, upphaf heims og manns, siðferðilega reynslu mannsins og hvernig hann skynjar lífið, og geti útskýrt það innan síns ramma heldur en guðleysið. Lífið hefur tilgang í trúnni andspænis tilgangsleysi trúleysisins.

Það er gott að því sé haldið til haga að guðlaus maður getur lifað vönduðu siðferðilegu lífi sá sama hátt og trúaður maður. Og báðir geta líka lifað óvönduðu og rustalegu lífi – ef veraldleg siðferðismið þeirra eru þess eðlis og trúarleg túlkun beygð undir annarleg sjónarmið.

Í lokin spyr höfundur grundvallarspurningar um það hvort sé líklegra til að efla manninn sem manneskju, þ.e. boðskapur Jesú frá Nasaret, eða boðskapur guðleysingjans um tilgangsleysi lífsins og „blint miskunnarlaust tómlæti.“ (Bls. 197). Lesandans er að svara með greinina í huga, það er ágæt æfing. 

Jón Pálsson, guðfræðingur og rithöfundur, og jafnframt ritstjóri bókarinnar, birtir smásögu sem segir frá Gabríel er fer með skilaboð til fólks. Þau skilaboð eru ekki alveg ljós en eru engu að síður mikilvæg þó misjafnlega sé við þeim tekið. Sögunni lýkur með þeim hætti að Gabríel sendir frá sér yfirlýsingu. Sagan kallar á vangaveltur - ekki er allt sem sýnist.

Síðasti efnisþáttur bókarinnar eru Krossvísur eftir afmælisbarnið. Þar kemur fram eins og margir vissu að hann er skáld gott.

Þá er að finna í lokin yfirlit yfir nám og störf sr. Þóris Jökuls.

Loks eru fáein orð um höfunda einstakra greina. Slíkar upplýsingar eru ætíð nauðsynlegar.

Kirkjan. is þakkar fyrir uppbyggilega lesningu umhugsunarverðrar bókar í sama mund og nýútkomnar bækur verða allar metsölubókarhugmyndinni að bráð en gleymast furðu skjótt eins og neistinn sem hrekkur örskotsstund út í myrkrið. Þessi mun lifa lengur. 

hsh

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Fræðsla

  • Menning

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju