Fólkið í kirkjunni: „Ég hef engan titil...“

2. desember 2019

Fólkið í kirkjunni: „Ég hef engan titil...“

Hólmfríður Ingólfsdóttir á skrifstofu Skálholts

Stundum blása sterkir vindar um Skálholt og menn hafa sterkar skoðanir á staðnum og hvernig allt eigi þar að vera.

Þjóðkirkjan á Skálholtsstað og hefur miklar skyldur gagnvart honum sem mikilvægt er að gleyma ekki.

Skálholt er og verður meðan kristni stendur á Íslandi.

Þeir koma og fara biskuparnir í Skálholti. Og líka prestarnir. Það er lífsins saga, að koma og fara.

En ein er sú kona sem hefur staðið í stafni Skálholtsstaðar um langa hríð, unnið með prestum,  rektorum og biskupum og öðru kirkjunnar fólki.

Það er hún Hólmfríður Ingólfsdóttir.

Menn eru ekki búnir að vera lengi á staðnum þegar nafn hennar heyrist óma sem lausn allra mála, lykill og hjálparhella, hollráð og traust staðarprýði.

Hólmfríður kom til starfa í Skálholti árið 1993 til að sinna bókhaldi og skrifstofustörfum. Hún hafði áður unnið á hreppsskrifstofunni um tíma og það var dýrmætur skóli í öllu því er viðkom rekstri.

Annars lauk Hólmfríður prófi frá Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi árið 1974 á ylræktarbraut og fór að því búni til Hollands, vann þar við pottablómarækt. Og síðan þegar hún kom heim bætti hún við sig í námi í skrúðgarðayrkju. Hún var ráðin sem garðyrkjustjóri Selfossbæjar og var það í ellefu ár. En sveitin togaði í ungu konuna og þangað fluttist hún aftur. 

Kona með græna fingur sem heldur utan um alla þræði á sögu- og menningarstaðnum Skálholti. Það er ekki lítill happafengur fyrir staðinn. Hógvær kona, ekki hávaðasöm en hefur þá festu til að bera sem þarf þegar aðra skortir yfirsýn og jarðtengingu.

Hólmfríður Ingólfsdóttir er fædd og uppalin á Iðu í Biskupstungum. Ólst upp í sveitinni við kýr og kindur, heyskap og útistörf og hestamennsku. Móðir hennar, Margrét Guðmundsdóttir, var mikil hestakona og segja má að hestamennskan sé Hólmfríði í blóð borin. En faðir hennar, bóndinn Ingólfur Jóhannsson á Iðu, átti vörubíl og var oft kallaður til starfa fyrir Skálholt þegar byggingaframkvæmdir stóðu fyrir dyrum eða önnur verk. Auk þess var mikill vinskapur milli foreldra hennar og prestanna sem þjónuðu Skálholti og biskupanna sem þar voru. Hólmfríður var iðulega á ferð með foreldrum sínum í kirkjulegum erindum.

„Ég á góðar bernskuminningar frá þessum dögum og þær bestu þegar ég var að  þrífa Skálholtsdómkirkju með mömmu,“ segir hún með hlýju brosi.

Það mótar hana frá bernsku að Skálholtsstaður er kirkjustaðurinn hennar og þar er hún fermd. Hún er kirkjukona sem gengur í öll störf á staðnum eftir því sem þar.

Kirkjan. is spyr hana hvort hún sé staðarhaldari eða rekstrarstjóri, skrifstofustjóri, eða hótelstjóri, og fleiri mögulegir og ómögulegir starfstitlar fylgja.

„Ég hef engan titil, held að það sé best,“ segir hún. „Ég sinni staðnum og sé um það sem þarf að sjá um.“

Víst er að þær manneskjur sem ganga að því sem gera þarf án þess að veifa titlum eru bakverðir og hryggjastykkið í öllum rekstri.

Fólk kemur víða að í Skálholt. Ekki bara Íslendingar.

„Ég var að taka saman skýrslu um gistingar í október,“ segir Hólmfríður við tíðindamann „og gestirnir  þann mánuðinn voru af þrjátíu þjóðernum.“

Í Skálholti eru mikil húsakynni – um 20% allra fasteigna kirkjunnar er að finna þar.

„Nóvember er rólegur tími í veitinga-og gistirekstrinum,“ segir Hólmfríður. „En þó er hér drjúg umferð – kórar koma hingað í æfingabúðir – síðast var hér kór Menntaskólans á Laugavatni með æfingar og hélt tvenna vel sótta tónleika í kirkjunni.“

Hún segir að það sé alltaf von á einhverjum í Skálholt og hverjum og einum verði að þjóna eins og fjöldanum.

Aðstaða fyrir kórabúðir er góð en Skálholtsbúðir eru gjarnan notaðar sem gististaður fyrir þátttakendur. Sungið er í kirkjunni enda hljómburður þar einn sá besti á landinu.

Kyrrðar- og íhugunardagar hafa fest sig í sessi í Skálholti en þrátt fyrir það þarf alltaf að fylgja þeim vel eftir. Asinn er mikill í nútímanum og mörgum finnst um langan veg að fara í Skálholt – aðallega þeim sem búa í bænum, styttra er hins vegar í bæinn úr Skálholti – eða þannig.

„Helgi staðarins og kyrrðin nær tökum á fólki,“ segir Hólmfríður, „og sérstaklega á dögum eins og þessum þegar sól er lágt á lofti.“

Hólmfríður sinnir nánast öllum störfum í Skálholti og leggur mikla alúð við þau og natni.

„Allt þarf sitt viðhald hér,“ segir hún, „það getur tekið langan tíma að ná í iðnaðarmenn.“ Stundum getur heill dagur farið í að eltast við þá enda þeir umsetnir. „En þeir koma á endanum,“ segir Hólmfríður hvergi bangin.

Enda þótt Skálholtsstaður eigi hug hennar og hjarta þá er margt annað sem kallar á hana eins og fjölskylda og tómstundir. Hún syngur í Vörðukórnum og fer á hestbak.

Og svo er það lokaspurningin um það hvað hafi komið henni mest á óvart í starfinu og hún svarar því að bragði með kímnissvip að hún hafi nú lært það á staðnum að láta ekkert koma sér á óvart.

Hólmfríður Ingólfsdóttir, Skálholtskona, er útvörður kirkjunnar á mögnuðum sögustað, og er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

 

 

 

 

 

 

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Menning

  • Samfélag

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði