Hjálparstarf á aðventu

4. desember 2019

Hjálparstarf á aðventu

Mjöll og Þórey Inga, öflugir sjálfboðaliðar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar

Það voru margir sjálfboðaliðar að störfum í miðstöð Hjálparstarfs kirkjunnar í Grensáskirkju þegar kirkjan.is kom þar við í dag.

Fjöldi fólks á öllum aldri var þangað kominn til að leita sér aðstoðar. Svo allt gengi nú snurðulaust fyrir sig tók fólk númer og beið rólegt uns það var kallað upp. Starfsfólk Hjálparstarfsins var á þönum enda hafði það í mörg horn að líta.

Aðstoð sjálfboðaliða er af ýmsu tagi. Þrír ungir lögfræðingar sátu við borð og reyndu að greiða úr málum fólks sem leitaði til þeirra. Þeir voru líka í fyrra að störfum. Konur leiddu fólk á milli fatasláa og borða. Föt, skór og skart var valið af kostgæfni sem hentaði hverjum og einum, hvort heldur fyrir fullorðna eða börn. Við úthlutun fata er farið eftir vissum reglum.

Kirkjan.is ræddi við tvo sjálfboðaliða í fataúthlutuninni. Önnur þeirra var að störfum nú öðru sinni og hin hafði verið sjálfboðaliði fyrir nokkur jól. Þær gefa vinnu sína og tíma og eru ánægðar að geta lagt fram sinn skerf við að hjálpa þeim sem minna mega sín. Þetta voru þær Anna Solotova, sem er rússnesk, og Sigrún Jónsdóttir, sem er íslensk. Anna talaði ótrúlega góða íslensku miðað við að hún er búin að vera hér á landi í fjóra mánuði.

Kirkjan. is tók líka tali tvær aðrar konur og ögn yngri en þær hinir fyrri. Önnur þeirra, Mjöll Þórarinsdóttir, hafði unnið við sjálfboðavinnu hjá Hjálparstarfinu í tólf ár og sagðist finna sig vel í þessu – hún vær i sjálfstæð hvað vinnu snertir og gæti gefið þennan tíma. Hin, Þórey Inga Helgadóttir, hefur lagt sjálfboðastarfinu lið í tíu ár en hún starfar við bókhald.

Hjálparstarf kirkjunnar vinnur fyrir jólin í samvinnu við Hjálpræðisherinn, mæðrastyrksnefndir og Rauða krossinn. 

Þessi tími er mikill álagstími að sögn starfsfólks Hjálparstarfsins. En með samstilltu átaki og skipulagi tekst að koma öllu í höfn á endanum.

Störf sjálfboðaliða fyrir Hjálparstarf kirkjunnar eru ómetanleg og er fólk þar á bæ ákaflega þakklátt öllum þeim sem leggja starfinu lið með þessum hætti eða öðrum.

Á næsta ári verður Hjálparstarf kirkjunnar fimmtíu ára og verður þess minnst með ýmsum hætti.

Um jólaaðstoð má sjá hér.

Heimasíðu Hjálparstarfs kirkjunnar má sjá hér.


Anna Solotova og Sigrún Jónsdóttir, umhyggjusamir
sjálfboðaliðar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar


Galsi kominn í starfsfólk Hjálparstarfsins. Frá vinstri: Bjarni,
Kristín, Áslaug og Vilborg


Auglýsing um úthlutun



 


  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Hjálparstarf

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju