Hlaupið á aðventu

7. desember 2019

Hlaupið á aðventu

Vasklegur aðventuhlaupa- og gönguhópur - Steinþóra tekur sjálfu

Það var eldhress hópur sem kom saman í morgun rétt fyrir klukkan níu í Kópavogskirkju. Sóknarpresturinn, sr. Sigurður Arnarson, tók glaðbeittur á móti fólki í kirkjudyrum ásamt kirkjuverðinum, Hannesi Sigurgeirssyni.

Presturinn var í svörtum rennilegum hlaupaklæðum, sagðist ekki hafa hlaupið í fyrra en þá var hann á sjúkrahúsi í gallsteinaaðgerð. Nú var hann brattur og tilbúinn til átaka.

Fólk streymd í Kópavogskirkju í hið árlega kirknahlaup á aðventu. Þetta er í sjötta sinn sem það fer fram og nú verður um að ræða samskokk - og þau sem vilja geta gengið. 

„Þú verður að tala við hana Steinþóru,“ sagði sr. Sigurður, „ég bað hana á sínum tíma að skipuleggja þetta með mér ásamt hlaupahópi Breiðabliks.“

Hún var ekki langt undan: „Ég hef hlaupið þrjú maraþon,“ svaraði hún brosandi þegar kirkjan.is spurði hvort hún væri hlaupakona. „Það er hlaupið á milli kirkna," sagði hún og hélt áfram: „og þegar komið er að hverri kirkju er bankað á dyr hennar og svo haldið áfram.“ Hún sagði að fólk gæti líka gengið á milli kirknanna og nokkrir voru í þeim hópi. Annars var megnið af fólkinu sem komið var í frostköldu morgunsárinu klætt að hætti hlaupara og sumir voru með mæla á upphandlegg sem mæla eitt og annað í líkamanum, musteri Guðs, svo notað sé biblíulegt málfar. Margir voru með öflug ennisljós til að lýsa sér veg og kannski ekki vanþörf á í þéttu morgunmyrkrinu og hálkunni enda þótt hið innra ljós skini bjart í sinni.

Þetta er aðventuhringurinn, eða kirkjurnar sem farið er á milli: Kópavogskirkja – Hjallakirkja – Lindakirkja – Digraneskirkja – Sunnuhlíðarkapella – Kapellan líknardeildinni – Kópavogskirkja.

Sr. Sigurður sagði að það hefði fjölgað ár frá ári í hópnum sem kæmi í kirknahlaupið á aðventu. Nú var ekki annað að sjá en að hátt í hundrað manns væru komin.

Stundin hófst á því að sr. Sigurður og Steinþóra fóru nokkrum orðum um fyrirkomulag hlaupsins - samskokksins. Endastöð þess var safnaðarheimilið Borgir og þar fengi fólk þegar það kæmi í „mark“ heitt súkkulaði og piparkökur. Síðan söng mannskapurinn hressilega Bjart er yfir Betlehem. Að því búnu var fór hópurinn út úr kirkjunni undir klukknaslætti og nam staðar við safnaðarheimilið og þar var hópmynd tekin. Síðan hélt hver hópur af stóra hópnum af stað á sínum hraða.

Aðventuhlaupið 2019 var hafið.

Aðventuhlaupið - samskokkið - í Kópavogskirkju er dæmi um vel heppnað samspil kirkju og samfélags. Almenningshlaup eru snar þáttur í útivist fólks og auka lífsgæði og heilbrigði. Mikilvægt er að kirkjan spyrji sig með hvaða hætti hún geti opnað dyr sínar fyrir því sem almenningur fæst við í frístundum sínum og tengt það ef hægt er við hinn kirkjulega vettvang. Kirkjan getur verið eðlilegur upphafsreitur og lokapunktur slíkrar starfsemi. Það verður ein leið af mörgum til að ganga við hlið fólksins í hversdeginum. Kirkjan er nefnilega líka fólk á göngu – og hlaupum ef svo ber undir!

Heimasíða Kópavogskirkju er hér.



Steinþóra Þórisdóttir fer yfir málin með fólkinu skömmu fyrir hlaupið


Kirkjuvörður og klerkur, Hannes og sr. Sigurður, tóku vel á móti fólki í forkirkjunni


Minnisskjöldur í forkirkju Kópavogskirkju

 

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði