Saga konu sem ekki má týnast

11. desember 2019

Saga konu sem ekki má týnast

Góð bók um merka konu

Nýlega kom út ævisaga Guðrúnar Lárusdóttur, alþingismanns og rithöfundar, sem ber nafnið: En tíminn skundaði burt... Það er Málfríður Finnbogadóttir sem skráir sögu þessa og bókaútgáfan Grund sem gefur út. Þetta er allmikið bók, 367 bls.

Það er von að margur spyrji hver Guðrún þessi hafi verið og hvers vegna ævisaga hennar sé nú á ferð.

Bók Málfríðar svarar því og það er vel að sögu þessarar merku konu skuli gerð skil í einni bók.

Málfríður skráir sögu hennar með miklum sóma og hana ber að þakka. Hún velur sér þá aðferð ævisöguritarans að skrá sögu Guðrúnar í nákvæmri tímaröð, krónólógískt. Slík aðferð getur valdið stirðleika í frásögn og einkum ef mörgum orðréttum heimildainnskotum er til að dreifa – örlar ögn á því hjá Málfríði en hamlar þó ekki frásögn hennar af því hvernig lífi þessarar ötulu konu vindur fram. Lesandi sér að örugglega er að verki staðið. Það er vel til fundið hjá henni að hafa í upphafi hvers kafla, útdregið hægra megin við kaflaheiti, mannafjölda í Reykjavík og á landinu öllu á þeim tíma sem kaflinn rekur. Einnig helstu viðburði ársins eða tímabilsins. Það setur frásögnina í skemmtilegan sögulegan ramma – og varpar snöggu ljósi á það samfélag sem Guðrún Lárusdóttir lifði og hrærðist í. Hún var nefnilega svo sannarlega kona samfélagsins og málefni þess brunnu á henni og þá einkum kjör hinna er minna máttu sín. Einlæg og heit trú hennar var undirrót alls þess sem hún tók sér fyrir hendur í lífinu. Dagbók hennar geymir til dæmis þessa færslu frá aldamótaárinu 1900:

„En það eru svo margir sem eiga bágt, guð einn veit hvað þeir eru margir hér í bænum, sem líða skort og hann er þá líka nógu ríkur til að bæta úr þörfum þeirra vesalinganna.“ (Bls. 55).

Guðrún Lárusdóttir var prestsdóttir, fædd 1880. Skóli hennar var í foreldrahúsum og nam hún þar hjá föður sínum, prestinum séra Lárusi Halldórssyni – og móðurinni Kirstínu Katrínu Pétursdóttur. Ritstörf lágu snemma vel fyrir henni og var hún aðeins átján ára gömul er hún þýddi tvær bækur, Spádómar frelsarans og Tómas frænda. Mínerva – til skemmtunar og fróðleiks, var handskrifað blað af Guðrúnu sem hún gaf sjálf út í heimasveit sinni fimmtán ára gömul. Slík blöð voru gjarnan gefin út fyrr á tíð og fóru á milli bæja. Rithöfundarþráin braust fljótt út hjá henni. Hún sendi frá sér skáldsögur frá árinu 1913 og smásögur allt til ársins 1938. Ritsafn hennar, I-IV, kom út 1949.

Guðrún fluttist með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þegar hún var tvítug að aldri – árið 1899 en faðir hennar hafði verið valinn prestur fríkirkjusafnaðarins. Hún kynnist ungum manni, Sigurbirni Ástvaldi Gíslasyni, guðfræðingi, kennara og rithöfundi frá Ási í Hjaltadal í Skagafirði – hann var síðar heimilisprestur á elliheimilinu Grund en hann var einn helsti hvatamaður að stofnun þess. Þau ganga í hjónaband árið 1902, eignast tíu börn, búa að Ási á Sólvöllum í Reykjavík – Ásvallagatan og Sólvallagatan draga þaðan nöfn sín. Guðrún hellir sér út í félagsmálin – þau hjón voru á besta aldri og samstiga – bæði brunnu fyrir mannúðar- og líknarmálum.

Þau hjónin voru í framvarðasveit þeirra er létu sér málefni fátækra einhverju máli skipta og þeirra er höllum fæti stóðu. Hún var fátækrafulltrúi í bænum allt til dauðadags, félagið Samverjann spratt upp úr góðtemplarastúku sem Sigurbjörn átti sæti í og það tók að sér að gefa fátækum börnum og gamalmennum miðdegiskaffi – úthlutað var á þriðja hundrað máltíðum daglega köldustu mánuðina, janúar til loka mars árið 1913. Félagið Samverjinn kom síðar að stofnun elliheimilisins Grundar.

Árið 1912 voru tólf listar í framboði til bæjarstjórnar. Þar var Kvennalistinn eða Kvennaframboð og skipaði Guðrún fyrsta sæti hans – sá listi fékk einn fulltrúa kjörinn og það var Guðrún. Hún sat í bæjarstjórn til ársins 1918. „Kjör í bæjarstjórn þýddi talsverð umskipti fyrir Guðrúnu og ögrun að taka að sér þessi nýju verkefni. Verkefnin heima við fór ekkert, hún sinnit þeim eftir sem áður.“ (Bls. 113).

Skemmtilega lýsingu af bæjarstjórnarfundi árið 1913 er að finna á bls. 119 sem Guðrún ritar. Lýsir hún þar nokkrum fulltrúum og hvað þeir hafa fyrir stafni á fundi – sumir myndu eflaust hafa ríslað við snjallsíma sinn hefðu þeir verið komnir þá til sögunnar. Guðrún sat í skólanefnd og lengst í fátækranefnd.

Guðrún var framsýn kona og var sennilega með þeim fyrstu hér á landi sem vöktu athygli á umhverfismálum og þá mismun á loftgæðum. Hún bauð bæjarbúum í gönguferð í Grænuborgartúninu árið 1927 til að benda á hve loftgæði voru þar mikil miðað við rykugan bæinn. Túnið var líkara himnesku valllendi miðað við þröngar og óhreinar götur bæjarins. Gönguferðin var og liður í að kynna Barnavinafélagið Sumargjöf. (Bls. 206).

Sigurbjörn Ástvaldur heimsótti iðulega fanga í Hegningarhúsinu í Reykjavík og fór kona hans stundum með honum. Föngum var boðið í jólamat heim að Ási, segir á bls. 70. Sigurbjörn Ástvaldur ritaði í febrúar og mars 1928 nokkrar harðorðar greinar í Vísi um slæman aðbúnað fanga og fangavarða í Hegningarhúsinu.

Hún var fátækrafulltrúi í Reykjavík frá 1930 og til dauðadags, 1938.

Landskjörinn þingmaður 1930-1934, skipaði þar baráttusæti Sjálfstæðisflokksins, og landskjörinn alþingismaður Reykvíkinga 1934-1938 – fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Um þingstörf hennar og fleiri mál má sjá hér.

Guðrún var önnur konan á Íslandi til að gegna þingmennsku. Ingibjörg H. Bjarnason var sú fyrsta árið 1922. Guðrún setti fram stefnu og öllum var ljóst hvaða málaflokkar yrðu á þingdagskrá hennar - skrifaði hún kjósendum bréf og sagði hver sín áherslumál yrðu: Kristindómsmálin, fátækramálin, raforkumálin, tollamálin og kvenréttindamál. (Bls. 227). Á Alþingi bar hún upp margvísleg mál er snertu kjör fátækra og þroskahamlaðra; drykkjumannahæli og fl. mannúðarmál. Vissulega voru félög sem létu þessi mál til sín taka eins og Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið, Hjálpræðisherinn o.fl.

Dugnaðarforkur, hamhleypa til vinnu, skýr og glögg kona, málsnjöll og fylgin sér. Allt orð sem fljúga í hugann þegar saga hennar er lesin. Það er alveg ótrúleg orka sem hefur búið í þessari konu. Hún eignast tug barna, það fyrsta árið 1903, og svo: 1905, 1906, 1907, 1909, 1911, 1913, 1915, 1920 og 1924. Situr í stjórnum félaga, ýmist í forystu eða þátttakandi, stofnar félög, flytur mál, fer fyrir málaflokkum, skrifar sögur, heldur ræður og flytur ávörp. Hún leggur einkum kristilegu starfi lið, bindindismálum og öðrum samfélagsmálum. Það reyndar kemur ekki alveg nógu vel fram í sögu hennar hvernig heimilið var rekið, allur þessi barnafjöldi, félagsstörf hennar og þá einkum á tíma bæjarstjórnaára hennar. Sigurbjörn Ástvaldur vann við kennslu og fékkst við margvísleg félagsmálastörf; hann gaf út tímaritið Bjarma frá árinu 1916 og ritstýrði því. En allt virðist hafa gengið ljómandi vel upp – eflaust hafa verið ýmsar hjálparhellur á heimilinu þó ekki komi það fram.

Guðrún var kjörin til forystu vegna hæfileika sinna og hefur sennilega haft einhvers konar drífandi karisma sem hefur hrifið aðra. Hluti af því er samfélagsdirfska, að þora að stíga fram í karlasamfélaginu og láta að sér kveða. Trúin var henni samofin og drifkraftur í ritstörfum og störfum fyrir samfélagið. Orð úr Kristnisögu Íslands um hana eru því sannarlega réttilega mælt:

„Snemma á öldinni voru kvenréttindi oft borin fram af miklum trúkonum og má sem dæmi nefnda Guðrúnu Lárusdóttur, eina af fyrstu þingkonunum.“ (Kristni á Íslandi, IV, Þórunn Valdimarsdóttir, Pétur Pétursson: Inga Huld Hákonardóttir: Kirkjustarf kvenna um miðja öldina, bls. 319, R. 2000).

Sem dæmi um skörungsskap hennar og feminisma mótmælti hún harðlega árið 1926 því þegar skipverjar danska varðskipsins, Fylla, buðu til dansleiks „med gratis Adgang for Damer.“ (Bls. 203). Taldi hún þetta vera virðingarleysi gagnvart íslenskum konum.

Í bókinni segir frá því að eiginmaður Guðrúnar, sonur og tengdasonur hafi keypt bíl árið 1938. Hún segir í bréfi:

„Og er nú ekki um að tala annað en drífa mann í ferðalög í þessum bíl. Hann er nokkuð mikið notaður, og ég er hrædd um að hann sé ekki til stórræða, en ágætur í smærri ferðir, og er nú ætlað að fara austur ..., kannski lengra, svo sem í Þjórsárdal...“ (Bls. 310).

Þessi bílferð varð afdrifarík og lauk með hörmungum. Í bílnum voru þau hjónin Sigurbjörn Ástvaldur og Guðrún, ásamt tveimur dætrum þeirra, Guðrúnu Valgerði (f. 1915), og Sigrúnu Kristínu (f. 1920) þegar hann hafnaði í Tungufljóti. Guðrún og dætur hennar drukknuðu en eiginmaðurinn og bílstjórinn komust lífs af. Þetta var 20. ágúst 1938. (Bls. 312).

Fréttin um þennan sorglega atburð barst fljótt út um allt samfélagið sem varð slegið. Svo hörmulegt bílslys hafði ekki orðið hér fyrr.

Útför þeirra fór fram viku síðar og var ein sú fjölmennasta sem hafði verið í bænum. Eftir því var tekið hve Sigurbjörn Ástvaldur, ekkillinn, hélt ró sinni og talaði meðal annars yfir gröf konu sinnar og dætra.

Fjöldi minningargreina var ritaður um Guðrúnu og dætur hennar. Þar kom fram um Guðrúnu hve víða hún hafði komið við í samfélaginu og lagt fram krafta sína fyrir þau sem minna máttu sín í samfélaginu. Ólafur Thors sagði meðal annars í minningargrein í Morgunblaðinu 27. ágúst 1938:

 

Hér má sjá fréttina  um slysið í Morgunblaðinu 21. ágúst 1938.
Athyglisvert  er að sjá að fyrir framan nafn Sigurbjörns Ástvalds undir myndunum þremur stendur séra en hann var ekki vígður fyrr en 1942. Þetta er ekki villa heldur kom til vegna þess að einstaka menn fóru að ávarpa hann með þessum titli þar sem hann fór víða um land og prédikaði af miklu kappi og þótti góður prédikari. „Þótt hann væri óvígður, var hann samt í hugum margra prestur.“ (Afkastamikill mannvinur, starfssaga séra Sigurbjörns Á. Gíslasonar, Jón Skagan, bls.115, R. 1976).


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Menning

  • Samfélag

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði