Tímamót: Starfsfólk kirkjunnar

31. desember 2019

Tímamót: Starfsfólk kirkjunnar

Starfsfólk kirkjunnar - Ingunn Ólafsdóttir, mannauðstjóri Biskupsstofu, og Guðmundur Þór Guðmundsson, skrifstofurstjóri Biskupsstofu, takast í hendur eftir að hafa undirritað ráðningarsamninga sína

Þann 17. desember s.l., samþykkti Alþingi lög um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins - sjá hér. Þessar lagabreytingar þurftu að koma til svo að hægt yrði að uppfylla viðbótarsamninginn frá 6. september s.l., milli ríkis og kirkju – sjá hann hér.

Í starfmannalögunum (22. gr.) er farið yfir hverjir teljist embættismenn ríkisins samkvæmt lögunum. Biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar verða ekki í þeim hópi frá og með áramótunum heldur verða þau starfsfólk á almennum vinnumarkaði ásamt öðru starfsfólki þjóðkirkjunnar.

Það eru svo sannarlega tímamót þegar kennimenn íslensku þjókirkjunnar teljast ekki lengur til embættismanna lögum samkvæmt.

Í bréfi sem biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sendi nýverið til að kynna fyrirhugaðar breytingar, áréttaði hún að prestar sem skipaðir hefðu verið til fimm ára, héldu þeim réttindum sem af skipuninni leiddi, þar til skipunartíminn rynni út og æviráðnir embættismenn héldu þeirri skipan sinni til starfsloka.

Stefnt er að því að kirkjuþing setji á framhaldsfundi sínum í mars nýjar starfsreglur sem taki til þess sem nú er að finna í starfsmannalögum ríkisins. Meðan beðið er þessara reglna kirkjuþings munu sömu lög og reglur gilda um störfin fram til 31. mars 2020.

Með því að kirkjan tekur nú sjálf öll starfsmannamál í sínar hendur verður öllu starfsfólki hennar boðið sama starfið hjá henni en með nýjum ráðningarsamningi sem gildir frá og með 1. janúar 2020. Í þessu felst semsé að núverandi störf verða lögð niður þann 31. desember 2019 eða við lok skipunartíma embættismanna.

Biskup lýsti því jafnframt í bréfinu að það væri einlæg von hennar að viðkomandi sæju sér fært að taka þessu boði svo að þekking þeirra og starfsreynsla myndu nýtast kirkjunni áfram.

Á næstunni munu bréf verða send út til embættismanna og starfsfólks kirkjunnar þar sem greint verður frá því að núverandi starf viðkomandi sé lagt niður en honum eða henni boðið nýtt starf. Ráðningarsamningur í tvíriti mun fylgja. Annað eintakið verður eintak Þjóðkirkju-Biskupsstofu en hitt viðkomandi starfsmanns.

Allar nánari upplýsingar um þessar breytingar, réttindi og skyldur viðkomandi, lög og samninga sem að baki búa, er að finna á þjónustuvef kirkjunnar.

Öll þau sem þessar breytingar ná til eru hvött til að hafa samband við Biskupsstofu til að fá nánari upplýsingar telji þau þess þörf. Netfang mannauðsstjóra, Ingunnar Ólafsdóttur, er: ingunn@biskup.is og símanúmer 528-4000.

Gyða Marín Bjarnadóttir hefur verið ráðin tímabundið sem mannauðsfulltrúi til að hafa hönd í bagga með umræddum breytingum og veitir hún sömuleiðis upplýsingar um hvaðeina er að þeim lýtur. Netfang hennar er: gyda@biskup.is.

hsh






  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Menning

  • Samfélag

Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna
Árbæjarkirkja

Laust starf organista

02. jan. 2025
...við Árbæjarkirkju
Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar