Kirkjan að störfum: Augu mætast

2. janúar 2020

Kirkjan að störfum: Augu mætast

Jökull Sindri syngur fyrir heimilisfólkið á Grund á nýársdag

Jökull Sindri Gunnarsson Breiðfjörð söng í guðsþjónustu í gær, nýársdegi, á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Kannski ekki í frásögur færandi en kirkjan. is hnaut um nafn hans þegar rýnt var í messuauglýsingar Morgunblaðsins. Þó ekki væri nema vegna nafnsins fallega og umfangsmikla væri gaman að hlýða á hann syngja, flaug um huga tíðindamanns. Líkt því sem fór um huga bankastjórans forðum daga sem vildi veita Dósóþeusi Tímótheusarsyni víxillán bara til að eiga hið skemmtilega nafn hans skjalfest í gögnum bankans. Lífið er nefnilega fullt af óvæntum glaðningum ef fólk hefur augun opin.

Salurinn á Grund er bjartur og rúmgóður og fyrir enda hans er altari og það prýðir fögur mynd eftir Jóhann Briem. Í miðjum salnum var myndarlegt jólatré sem náði frá gólfi og hátt til lofts. Salurinn var þétt setinn umkringis tréð og til hliðar við það. Heimilisfólk og ættingjar.

Kirkjan. is skaust inn fyrir dyr eftir að hafa heilsað heimilisprestinum, sr. Auði Ingu Einarsdóttur. Hún sagðist hafa verið prestur á heimilinu í tíu ár og kynni vel við það.

Síðan hófst guðsþjónustan og sr. Auður Inga bauð fólk velkomið og óskaði öllum gleðilegs árs og friðar. Hún kynnti til leiks organistann, Kristínu Waage, og Grundarkórinn en sá kór er skipaður heimilismönnum og velunnurum. Hún hvatti fólk til að taka undir með kórnum eftir efni og getu.

Og guðsþjónustan rak sig áfram eins og lög gerðu ráð fyrir. Snilldarsálmur sr. Matthíasar hljómaði, Hvað boðar nýárs blessuð sól? Og síðan reis í tign sinni sálmurinn Fögur er foldin: þar sem segir að kynslóðir komi og kynslóðir fari.

Prédikun prestsins var snjöll og temað var myndaalbúm lífsins. Þær myndir sem við höfum tekið með hönd eða huga, og skoðum, horfum aftur til þess sem er liðið. Og hún minnti á að það væru nánast alltaf gleðilegir atburðir í lífinu sem hefðu kallað á myndatöku í lífi fólks og það eitt væri góð ástæða fyrir því að renna í gegnum myndaalbúmin.

Hvert annað á gömul manneskja svo sem að horfa ef ekki yfir þetta jarðneska líf þar sem hún sigldi forðum daga þöndum seglum? Það var nú eflaust ævintýri hjá öllu þessu gamla og prúðbúna fólki – hugsaði kirkjan. is og horfði yfir salinn. 

Presturinn kynnti svo söngvarann sem var nú óbeint tilefni þess að kirkjan. is var á staðnum. Sr. Auður Inga sagði að hann hefði sungið hjá þeim í jólamessu. Hvatlegur maður, svartklæddur með brúnt hrokkið hár spratt á fætur.

Hann söng af krafti og vel, ungur maður sem hefur sennilega alla burði til að verða stórsöngvari.

Fagur söngur hans, góð rödd og ung augu hans ljómuðu í gleði söngsins. 

Ung augu og gömul mættust á fyrsta degi nýs árs. Og hann söng um engil Guðs og frið.

Það eru tímamót – augnamót.

Þegar fólkið tók að tínast úr hátíðarsalnum gripu margir í söngvarann og sögðu eitthvað við hann, sumir föðmuðu hann. Og nokkur gáfu honum merki og hann skaust til viðkomandi og faðmaði.

Kirkjan. is snaraði sér að einsöngvaranum og þakkaði honum fyrir sönginn. Spurði hann ögn eins og hæfir stuttu ávarpi.

„Ég búinn að æfa söng lengi,“ sagði Jökull Sindri, „lærði til dæmis hjá Gunnari Guðbjörnssyni, sem er pabbi minn.“ Hann sagðist vera að læra sálarfræði en hygðist síðar stunda nám í læknisfræði.

„Ég vinn hérna við umönnun og margt fleira,“ sagði hann og svipurinn var furðu drengjalegur, „búinn að vinna hér í tvö og hálft ár,“ bætti hann við. Rödd úr hópnum smeygði sér inn í samtalið og sagði: „Hann er líka bestur.“

Gamla fólkið brosti til hans, strauk hendur hans blíðlega og faðmaði. Hér var ungur maður og vaskur sem uppskar augljóslega eins og hann hafði sáð til enda skein góðvildin og ljúfmennskan af honum. Og söngbrautin virðist liggja fyrir honum slétt og björt sem og annað er hugur hans kýs að starfa við.

Guðsþjónustan á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund á nýársdegi 2020 sýndi kirkjuna að störfum í aðstæðum sem eru vandasamar. Starfið nýtur þess að vera borið uppi af traustri hefð Grundar og einstakri velvild þeirra sem þar stjórna málum.

Hér má sjá vef hjúkrunar- og dvalarheimilisins Grundar.

hsh

 

Sr. Auður Inga Einarsdóttir, heimilisprestur á Grund

 

Heimilismaður flettir í sálmabókinni á Grund 


  • Frétt

  • Heimsókn

  • Menning

  • Messa

  • Öldrunarþjónusta

  • Samfélag

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna
Árbæjarkirkja

Laust starf organista

02. jan. 2025
...við Árbæjarkirkju
Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar