Fólkið í kirkjunni: Organsláttur og flugstjórn

8. janúar 2020

Fólkið í kirkjunni: Organsláttur og flugstjórn

Ólafur W. Finnsson við orgel Hafnarfjarðarkirkju

Bakgrunnur organista er misjafn eins og þeir eru margir. Braut sumra að orgelinu hefur verið bein og greið, aðrir hafa menntað sig á öðrum sviðum áður en þeir ljúka organista- eða kantorsprófi eins og í kennslu, trésmíðum, lækningum, búfræði, viðskiptafræði, verkfræði og þannig mætti lengi telja. Tónlistin hefur um síðir og meðfram togað í menn í hinum ólíklegustu stéttum og margir þeirra leikið á orgel í kirkjum landsins.

En sennilega eru fáir organistar sem hafa setið við stjórnvöl þotu í rúm þrjátíu ár og flogið um öll heimsins höf.

En það gerði Ólafur W. Finnsson.

Það er kirkjufólk í kringum hann. Faðir hans var Sveinbjörn Finnsson, staðarráðsmaður í Skálholti 1964-1990, og einn af þeim sem lagði gjörva hönd á endurreisn staðarins en hann var í hópi þeirra sem stofnuðu Skálholtsfélagsið hið eldra. Og föðurbróðir Ólafs var Gunnlaugur Finnsson sem lengi sat á kirkjuþingi og í kirkjuráði – ötull og tillögugóður kirkjunnar maður. Ólafur er skráður Finnsson að ættarnafni því að móðir hans var dönsk, Thyra Finnsson.

En Ólafur var á unglingsaldri kirkjuvörður í Skálholti árið eftir að hún var vígð, eða 1964. Og mörg sumur eftir það. Fylgdist vel með kirkjulífinu á því forna höfuðbóli og drakk það í sig. Og þar náði hann að kynnast þeim stórmerka manni dr. Róbert Abraham Ottóssyni sem var kirkjutónlistarfrumkvöðull hér á landi. Það voru ógleymanleg kynni og drjúg lexía í tónlistarmenntun.

Tónlistin blundaði í honum og hann var nítján ára gamall þegar hann lék á orgel Skálholtskirkju við hátíðarguðsþjónustu á Skálholtshátíð 1971.

„Þá átti ég nokkuð langt í land í orgelinu,“ segir hann með vingjarnlegu brosi. „Tónlistin var í kringum mig og í Menntaskólanum við Hamrahlíð skrifaði ég einhverju sinni ritgerð um tónlist á tímum forn Grikkja að hvatningu hins ágæta kennara, Björns Þorsteinssonar, síðar prófessors í sagnfræði, sem var alltaf glúrinn að tengja áhugasvið nemenda við námsefnið. Undir hans leiðsögn skrifaði ég líka ritgerð um það þegar orgelin komu til Íslands. Í báðum tilfellum naut ég mikillar aðstoðar dr. Róberts."

Hann segir að Björn hafi iðulega beðið hann um að leika á orgelið í Skálholti þegar þeir urðu þar á vegi hvors annars en hann var fararstjóri á sumrin. Ólafur varð að sjálfsögðu við þeirri ósk kennara síns. Þetta átti reyndar við um marga aðra leiðsögumenn sem þarna komu með hópa ár eftir ár.

Eftir stúdentsprófið fór Ólafur í viðskiptafræði við Háskólann og að loknu prófi þar fékk hann starf á skrifstofu Flugleiða og var þar í fjögur ár – í flugdeild og tölvudeild.

„Flugið hafði alltaf kallað á mig og ég hóf nám í því“, segir hann hægur og hógvær, og bætir við að eftir það hafi verið ljóst að það yrði starfsvettvangur hans. Hann var flugmaður og flugstjóri hjá Icelandair frá 1982.

En tónlistin var ekki flogin úr hugskoti hans þó hann flygi um loftin blá. Hann var fastráðinn organisti hjá Seljasókn á fyrstu árum þess safnaðar á níunda áratug síðustu aldar og vann þar brautryðjendastarf að áliti sóknarprestsins þar, sr. Valgeirs Ástráðssonar.

Árið 2009 tekur Ólafur ákvörðun um að fara í Tónskóla þjóðkirkjunnar í orgelnám. Hann tók það með fluginu og lauk kantorsprófi.

Það var árið 2016 sem hann varð að hætta flugi hjá Icelandair vegna aldurs.

„Það flýgur enginn þotu í farþegaflugi fram yfir 65 ára afmælisdaginn sinn,“ segir hann. Eftirlaunaaldurinn gefi nýtt svigrúm sem eigi auðvitað að nýta sem best.

„Já, já, það er stundum hóað í mig og ég beðinn um að spila,“ segir hann kankvís á svip og ljúfmannlegur en kirkjan.is hitti hann að máli í Hafnarfjarðarkirkju þar sem hann lék undir við helgistund á kyrrlátum sunnudegi milli nýárs og þrettánda, 5. janúar s.l.

Og það hefur auðvitað verið sjálfgefið að Ólafur flugstjóri og organisti léki undir í svokölluðum flugguðsþjónustum sem haldnar hafa verið í Grafarvogskirkju.

Það krefst mikillar einbeitingar að stjórna flugvél og ábyrgðin er mikil. Orgelleikur krefst líka einbeitingar þó með öðrum hætti sé - og innlifunar. Það er verið að þjóna fólki með sitt hvorum hættinum, flytja fólk milli staða – og flytja tónlist fyrir fólk.

Kannski má segja að það sé líkt með þessu tvennu að verið sé að flytja fólk í hæðir?

„Þú ert einn við orgelið og það er gott,“ segir Ólafur og bætir við, „og það er líka gott að við erum alltaf tveir - eða tvö - í flugstjórnarklefanum.“ Og alls staðar er fólk ekki langt í burtu, hvorki frá organistanum í kirkjunni eða flugstjóranum í flugvélinni.

Ólafur William Finnsson, kantor og fyrrverandi flugstjóri, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh

Ólafur leikur á orgel Hafnarfjarðarkirkju 5. janúar s.l. 


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju