Kirkjan að störfum: Loftslagsmál

12. janúar 2020

Kirkjan að störfum: Loftslagsmál

Aðalbjörg Egilsdóttir flytur ræðu í Lágafellsskirkju

Kirkjan hefur látið loftslagsmál til sín taka með ýmsum hætti. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, hefur verið óþreytandi að ræða þau í prédikunum sínum. Þá hefur kirkjan umhverfisstefnu sem sjá má hér.

Það var vel mætt í Lágafellskirkju í morgun þegar kirkjan.is kom þar á vettvang enda þótt napur vindur blési fyrir utan. Heitt og notalegt var í kirkjunni og mörg fermingarbörnin sátu þar á bekk ásamt vinum og vandamönnum.

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir kynnti til sögunnar ræðukonu dagsins Aðalbjörgu Egilsdóttur. Hún er Mosfellingur og var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum til að fara á loftslagsráðstefnuna sem haldin var í Madrid í desember s.l. Aðalbjörg er líffræðingur og starfar hjá Náttúrustofu Vesturlands. Hún hefur víða flutt erindi um loftslagsmál og gert það með eftirtektarverðum hætti, einlægum, markvissum og skýrum. Hún ræddi loftslagsvandann af skörungsskap og umbúðalaust.

Aðalbjörg sagði meðal annars að áhrif gróðurhúsalofttegunda á borð við koltvísýring og metan hefðu verið þekkt síðastliðin 150 ár. Miklar framfarir hefðu orðið í hvers kyns rannsóknum innan fræðigreina á sviði læknisfræði, jarðfræði, líffræði, sálarfræði o.s. frv. og hefðu þær skilað niðurstöðum sem hefðu bein eða óbein áhrif á daglegt líf fólks auk þess að bæta lífsgæði og fólk tæki þeim sem sjálfsögðum hlut. Og fagnandi. Hún sagði rannsóknir innan loftslagsfræða hins vegar vera sér á báti og þær segðu að ekki mætti halda áfram að losa gróðurhúsaloftegundir – og þar með að við getum ekki gert allt.

Þá vék hún að græðginni sem hefði mikil áhrif í sambandi við hlýnun jarðar – menn velja styttri leiðir í hagnaðarskyni heldur en þær sem eru lengri og gefa minna af sér. Hún sagði loftslagsvísindin hafa bent stjórnvöldum og stórfyrirtækjum á vandann hvað eftir annað en þegar þau hunsa vandann sé erfitt að koma loftslagskilaboðum til almennings.

Af hverju gera stjórnvöld ekkert í málinu? Hún sagði þetta vera spurningu sem hún spyrði sig á hverjum einasta degi – og bætti við: sennilega alla ævi. Sagðist ekki skilja hvernig græðgin hefði alltaf haft vinninginn. Hún sagði að nú væri græðgin byrjuð að stinga fólk í bakið, á Vesturlöndum og sérstaklega íbúa þróunarríkjanna. Fellibyljir eru fleiri, þurrkar, úrkoma, og á röngum tíma árs – og skógareldar. Meiri öfgar í veðri en áður – það eru skýr skilaboð. Hún sagði að jörðin myndi alltaf svara fyrir sig fyrir gerðir mannfólksins. Ef ekkert verður að gert mun meðalhiti jarðar aukast um 4 gráður við lok þessara aldar að mati sérfræðinga hjá Sameinuðu þjóðunum.

Aðalbjörg spurði hvort það væri ekki bara gott ef hitinn hækkaði hér á landi. Málið er ekki svo auðvelt því að afleiðingar eru með ýmsum hætti, sums staðar gæti hlýnað, annars staðar kólnað – og hitinn svo staðið í stað. Ójafnvægið getur valdið hamförum í þessu sambandi. Íslendingar hafa ekki orðið varir við loftslagsvána í sínu landi (þó þurr sumur hafi komið, blautviðrasöm, og ofviðri) en Golfstraumurinn gæti breyst vegna bráðnunar jökla og hafið súrnað – það hefði mikil áhrif á ýmsar lífverur í sjónum sem gætu tæplega myndað kalkskel utan um sig. Þó eru til líkön sem segja að Íslendingar gætu sloppið bara vel frá loftslagshamförum miðað við aðrar þjóðir – og verstu spár.

Aðalbjörg sagði að mikil vitundarvakning hefði orðið um loftlagsmál meðal almennings og sérstaklega ungs fólks – markmið stjórnvalda samkvæmt Parísarsamkomulaginu frá 2015 er að halda hlýnun jarðar innan við 1.5° gráðu á selsíus. Hún sagði að ráðast þyrfti í aðgerðir strax í dag. Engin ein stór lausn dugar en hver og einn getur haft sín áhrif í daglegu lífi. Neyslu er hægt að breyta svo hún krefjist minna kolefnis, við getum styrkt félög og fyrirtæki sem vinna að breyttu orkukerfi í heiminum. Aðalbjörg sagði að við gætum haft áhrif á fólk í nánasta umhverfi okkar, vinnufélaga og fyrirtæki.

Aðalbjörg lauk máli sínu með þeim orðum að mikilvægt væri kjósa stjórnmálafólk sem setti umhverfismál í forgang. Ekki stjórnmálafólk sem gerir lítið úr vandanum og ekki heldur þau sem segjast vera að gera eitthvað en gera svo ekki neitt. Velja hugsjónafólk sem áttar sig á umfangi vandans og vill leggja sig allt fram um að leysa hann, sagði Aðalbjörg.

En umfram allt þurfum við öll að vinna að þessu saman – hvert framlag skiptir máli – sagði hún. Minnkum græðgina í heiminum, minnkum neysluna.

Söfnuðurinn klappaði innilega í lokin fyrir ræðu Aðalbjargar.

Aðalbjörg er öflug ung kona og þess má geta að hún var í hópi þeirra er fengu samfélagsstyrk Landsbanka Íslands í desember s.l. Fékk hún styrk til að geta boðið upp á umhverfisfræðslu í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að því að sú fræðsla verði fjölbreytt og valdeflandi þar sem nemendur verða hvattir til lífsstílsbreytinga og leitast við að sýna fram á hvernig þeir geta haft áhrif í umhverfismálum.

Í guðsþjónustunni söng kirkjukór Lágafellssóknar og organisti var Þórður Sigurðarson.

hsh

Aðalbjörg Egilsdóttir og sr. Ragnheiður Jónsdóttir kvöddu kirkjugesti við kirkjudyr


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samstarf

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Menning

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju