Stutta viðtalið: Kennt af kærleika

21. janúar 2020

Stutta viðtalið: Kennt af kærleika

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir er kennari af lífi og sál

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir er lifandi kona, rösk, skipulögð og fylgin sér. Og kannski umfram allt: hún brennur í andanum.

Hver vill kenna fólki íslensku sem kemur héðan og þaðan úr veröldinni og margt af því er með börnin með sér?

Trufla þau ekki?

Kunna þau öll stafrófið?

Eru þau læs á eigið mál?

Vita þau hvað þolfall er?

Eða nafnorð?

Helga Vilborg er kennari og tónmenntakennari, var kristniboði í Eþíópíu og starfsmaður Kristniboðssambandsins þar.

Hún kennir núna útlendingum íslensku á vegum Kristniboðssambandsins og heldur utan um skipulagið – segja má að hún sé skólastýra í skóla sem er öðru vísi en allir aðrir skólar á landinu.

Helga Vilborg vann um árabil í Hallgrímskirkju og var þar með foreldramorgna. Samtímis vann hún í Bústaðakirkju og konurnar sem sóttu foreldramorgnana komu iðulega í báðar kirkjurnar. Margt af því fólki sem sótti þá var útlent.

Merkileg handleiðsla – köllun

Helga Vilborg segir að hún og frönsk vinkona hennar hafi fengið fyrir rúmum fimm árum um svipað leyti þá hugsjón að íslenskukennsla fyrir erlenda foreldra með ung börn væri verkefni sem Kristniboðssambandið ætti að gefa gaum að. Þessu höfðu þær báðar verið að velta fyrir sér í sitthvoru lagi.

Franska vinkonan hennar, hún Agnes, var að vinna hjá Kristniboðssambandinu en Helga Vilborg var heimavinnandi með fullt hús af börnum og hafði ekki tök á því að kenna. Enda þótt Agnes hin franska hafi talað þessa fínu íslensku þá var það ekki á færi hennar að sjá um kennsluna og þá kom Kristín Bjarnadóttir, kristniboði, til skjalanna en hún var líka starfskona hjá Kristniboðssambandinu. Þær Agnes og Kristín ýttu þessu úr vör fyrir fimm árum. Kristín kenndi og Agnes sinnti börnunum og flutti kristilegar hugleiðingar.

Smátt og smátt vatt starfið upp á sig og hópurinn breyttist. Strax á öðru árinu spurðist þetta út meðal hælisleitenda og flóttamana sem fóru að sækja námskeiðin í stórum stíl og er nú svo komið að meirihluti nemenda tilheyrir þeim hópi.

Svo fór að Agnes fluttist heim til Frakklands og Kristín hætti störfum hjá Kristniboðssambandinu síðastliðið vor. Helga Vilborg hóf svo störf hjá Kristniboðssambandinu síðastliðið haust.

„Þar sem þessi kennsla hafði verið mér svo hugleikin frá byrjun lá beinast við að ég tæki við henni af Kristínu,“ segir Helga Vilborg glöð í bragði.

Þegar upp er staðið segist Helga Vilborg vera sannfærð um það að handleiðsla Guðs hafi verið að baki þessari kennslu.

Nemendur úr ýmsum áttum

„Við sáum að það vantaði einhvern vettvang fyrir þessar konur til að læra íslensku og vera með börnin með sér,“ segir Helga Vilborg full af umhyggju. „Börnin eiga ekki að trufla.“ Hún segir að þær hafi alltaf lagt mikla áherslu á að þjóna börnunum – börnin ættu ekki að vera fólkinu fótakefli sem vildi læra íslensku. Kennslan hafi verið löguð að þeim með því að útbúa barnahorn í salnum þar sem íslenskukennslan fer fram.

„Börn eru alltaf hjartanlega velkomin með foreldrum sínum í tímana og við höfum einn talþjálfunarhóp fyrir foreldrana í leikhorninu þar sem börnin leika sér á meðan foreldrarnir læra,“ segir Helga Vilborg.

Helga Vilborg segir að með því að kenna tvisvar í viku að morgni dagsins, á þriðjudögum og föstudögum 9.30-11.30, hafi náðst að rétta út hönd til þessa hóps.
Hún segir að þau viti aldrei nákvæmlega hvað margir komi hverju sinni. Nýtt fólk kemur – og fer.

„Við auglýsum kennsluna á Facebook, Instagram og í kirkjunum. Og víðar – svo fréttist af þessu,“ segir Helga Vilborg glöð á svipinn. Hún segir að í haust hafi til dæmis skráð sig rúmlega hundrað manns og svo mæti kannski í hvern tíma um fjörutíu til fimmtíu og börn að auki. Þetta sé stór hópur sem verði að huga vel að. Getustigið sé óljóst í byrjun og hún reyni að átta sig á hópnum.

Söngur og kærleiksrík kennsla

„Kennslan hefst á innlögn sem er meira á talmálsgrunni en málfræðilegum,“ segir Helga Vilborg. Hún segir kennsluna miða að því að fólk geti bjargað sér, geti talað málið og gert sig sæmilega skiljanlegt.

„Hópurinn er mjög blandaður, konur eru miklu fleiri en karlar,“ segir Helga Vilborg, „og meirihlutinn er hælisleitendur, múslimar.“

Ýmsar kennsluaðferðir eru notaðar, tal, söngur, myndir og leikir. Helga Vilborg leggur líka áherslu á að fólk hlusti til dæmis á útvarp.

„Við syngjum svo með fólkinu, kennum íslenska söngva til að styðja við kennsluna,“ segir tónlistarkennarinn Helga Vilborg með bros á vör. Það sé á vissan hátt stuðst við hugmyndafræði krílasálmanna:

„Samtímis og foreldrarnir eiga gæðastund með börnunum þá kennum við þeim íslensku með því að syngja alls konar lög,“ segir Helga Vilborg enda séu í mörgum lögum góðar endurtekningar sem styðja kennsluna. „Svo útskýrum við merkingu orða og hugmynda,“ segir hún og bætir við stolt á svip og brosir um leið í kampinn: „Já, svo höfum við kveðið rímur.“

Upplagðir söngvar eru hreyfisöngvar. Höfuð, herðar hné og tær. Einn lítill fingur...

„Já, og sunnudagaskólasöngvarnir,“ segir Helga Vilborg, „og við byrjum alltaf á því að syngja Daginn í dag gerði drottinn Guð.“

Sjálfboðaliðar

Helga Vilborg segir að sjálfboðaliðar gegni lykilstarfi hjá þeim. Starf þeirra sé ómetanlegt.

„Eftir almenna kennslu skiptum við fólkinu niður í smærri hópa,“ segir Helga Vilborg, „og þá stíga sjálfboðaliðar inn á sviðið og setjast niður með fólkinu og ræða við það, þjálfa það í talmálinu.“ Hún segir að oft myndist gott samband sjálfboðaliðanna við fólkið í hópunum. Það er raðað niður í hópana eftir getu.

„Við erum oft með fólk sem kann ekki neitt og svo annað sem getur haldið uppi samræðum,“ segir Helga Vilborg kappsfull á svip. „Já, og stundum kemur hingað fólk sem er að læra íslensku í háskólanum og er bara að ná sér í talþjálfun.“ Hóparnir eru semsé mjög svo blandaðir og sjálfboðaliðarnir sem eru nú sjö eru flestir fyrrum kennarar – og reyndar konur – glíma því oft við mikil og krefjandi verkefni. „Í vetur hefur einn karlmaður verið sjálfboðaliði,“ segir hún, „gott væri að hafa fleiri til að koma til móts við múslimska karlasamfélagið.“

Helga Vilborg segir að í hverjum tíma þá séu þau með einhvers konar hugleiðingu eða hvatningu – eða einhver segir Biblíusögu. Hún hefur til dæmis sagt þeim frá störfum sínum sem kristniboði í Eþíópíu. Stundum koma gestir eins og frá Hjálpræðishernum og Hjálparstarfi kirkjunnar og segja frá starfi sínu. „Það er mikilvægt að tengja fólkið við samfélagið“, segir Helga Vilborg.

Það er meira en kennsla sem lögð er til þessa hóps að sögn Helgu Vilborgar. Reynt sé að styðja við fólkið félagslega og þá komi þar að hópar og sjálfboðaliðar innan Kristniboðssambandsins. Á sunnudögum er til dæmis Salt, kristið samfélag, með samkomur og fólkinu stendur til boða að sækja þær. Eins hefur þeim verið boðið í ferðalög, boðið á aðventukvöld og í íslenskan jólamat. „Þannig reynum við að hlúa að fólkinu og mæta því í kærleika,“ segir hún. „Mikilvægt er að því líði vel og finnist gott að koma hingað.“

Helga Vilborg leggur mikla áherslu á að kennslan standi og falli í raun og veru með sjálfboðaliðum. Öllum nýjum sjálfboðaliðum er tekið fagnandi. Þau sem vilji rétta fram sjálfboðaliðahönd geta haft samband við hana hjá Kristniboðssambandinu.

Heimasíða Kristniboðssambandsins er hér.

Salt, kristið samfélag.

hsh



  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Námskeið

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Námskeið

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju