Stutta viðtalið: Guðsorðabókahornið

30. janúar 2020

Stutta viðtalið: Guðsorðabókahornið

Fornbóksalinn í guðsorðabókahorninu

Bókin við Klappastíg í Reykjavík er ævintýraheimur. Þar er sannkallað bókaflóð um öll gólf. Sjaldséðar ljósmyndir prýða veggi sem og plaköt. Eins hangir margt úr lofti – þar má sjá fallega kvenskó sveiflast í loftinu í takt við gustinn sem skýst inn um leið og dyr eru opnaðar.

Þar kippa menn sér ekki upp við neitt enda stendur tíminn næstum því kyrr þar. Einhvers konar tegund af eilífð.

Eiríkur Ágúst Guðjónsson, fornbóksali, er hress maður í tali, stór um sig og skeggið mikilfenglegt. Ekki svo óprestslegur upp á gamla móðinn. Hann segir að einhverju sinni hafi hann verið að fletta guðfræðibókum í fornbókabúðinni á Vesturgötu og þá hafi þar verið staddur herra Sigurbjörn Einarsson, biskup. Þeir tóku tal saman og Eiríkur Ágúst sem gat ekki leynt grallarasvip sínum sagði við biskupinn: „Ég er að hugsa um að skella mér í guðfræðina.“ Séra Sigurbjörn sneri sér að honum og horfði djúpt í augu hans og sagði: „Það þýðir ekkert blessaður minn, þig skortir allan heilagleika.“

Auðvitað varð ekkert úr guðfræðináminu og Eiríkur Ágúst sneri sér að ýmsum störfum þessa heims.

Í einu horni fornbókaverslunarinnar er að finna guðsorðabækur – eða bækur um andleg mál. Þar kennir margra grasa – og guðfræðin þar af ýmsum toga. Mest eru þó áberandi sálmabækur, hugleiðingar, Biblíur. Og svosem allt þar á milli.

Bækurnar seljast að sögn Eiríks Ágústs Guðjónssonar, fornbóksala með meiru.

„Og hverjir kaupa?“ spyr kirkjan.is.

Hann hugsar sig um andartak og í gegnum mikilúðlegt skeggið má greina glott á vör þegar hann segir: „Það eru guðfræðinemar sem hafa enn smá trú.“

Hann bætir svo við að öllu gamni slepptu að það sé alls konar fólk sem kaupi guðsorðabækurnar: „Erlendir ferðamenn kaupa Biblíur, íslenskar. Eru kannski að safna Biblíum á ýmsum tungumálum. Nú menn sem eru að koma úr meðferð eða fangelsum kaupa Nýja testamentið, vilja eiga sitt eigið.“

„Gamlar sálmabækur seljast ágætlega,“ segir hann, „Vestur-Íslendingarnir vilja eignast sálmabókina á íslensku eins og „ammi og afi áttu,“ segir Eiríkur og hlær. „Nú og Marteinn kallinn Lúther selst vel. Lúthersárið hafði góð áhrif.“

Eiríkur handleikur bækurnar af með taminni hönd fornbókasalans, lipurð, virðingu og snerpu.

„Við erum með til sölu ýmsar Biblíuútgáfur, á góðu verði og vel með farnar,“ segir hann, „svo er stöðug sala í Passíusálmunum, frá öllum árum, alls konar útgáfum, og erlendum – eigum þá líka á kínversku.“

Hann segir að það komi fyrir að fólk spyrji þá um sálmabækur og Passíusálma til að leggja í kistu hjá einhverjum nánum ástvini og sé hagur viðkomandi bágur þá sé bókin gefin.

„Tónlistarmenn kaupa Grallarann hjá okkur í ýmsum útgáfum,“ segir Eiríkur Ágúst. „Allt selst hægt og bítandi, líka það sem lítil eftirspurn er eftir eins og Mynsters-hugleiðingar og Emanuel gamli Swedenborg.“

Fjöldinn allur af guðsorðabæklingum er til – og guðsboðunarbæklingum af ýmsu tagi, gömlum og nýjum.

„Einn bæklingurinn selst alltaf umsvifalaust og það er bæklingurinn Vottar Jehóva – Aðvörun, eftir Sigurbjörn Einarsson og kom út 1962,“ segir fornbókasalinn. Augljóst er að séra Sigurbjörn er í góðum metum hjá þeim Bókarmönnum því að uppi á einum bókaskápnum er mynd af honum.

Kirkjan.is tekur sér í hönd fallega græna og netta bók eftir Einar H. Kvaran: Trú og sannanir: „Falleg er þessi, þeir kunnu að gefa út hér fyrrum,“ segir kirkjan.is full aðdáunar og Eiríkur Ágúst svarar að bragði: „Þetta er rétt stærð og fer vel í frakkavasa.“

Fornbókabúðin rekur öflugan vef og vandaðan, bokin.is. Einn flokkurinn þar er Kristur og kirkja og má sjá: hér.

Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að líta þar við. Sá vefur svíkur engan frekar en hinn einstaki og skemmtilegi andi sem svífur yfir fornbókabúðinni á horni Klapparstígs og Hverfisgötu.

hsh

Þrír merkismenn á hillu í Bókinni, séra Sigurbjörn, Haraldur kóngur, og Lúther

Skórnir dularfullu sem svífa í lofti fornbókaverslunarinnar


  • Frétt

  • Menning

  • Samstarf

  • Menning

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði