Rýnt í Gamla testamentið í Laugarnesinu: „Þú ert galinn!“

31. janúar 2020

Rýnt í Gamla testamentið í Laugarnesinu: „Þú ert galinn!“

Sr. Davíð Þór Jónsson

Laugarneskirkja efnir til sjö fræðslukvölda um Gamla testamentið undir yfirskriftinni: Gamla testamentið galopnað – Gluggað í misskildustu bók mannkynssögunnar.

Fyrsta fræðslukvöldið hefst 5. febrúar næstkomandi.

Kirkjan.is sló á tölvuþráðinn til þeirra í Laugarnesinu og spurði hvers vegna Gamla testamentið væri tekið til umfjöllunar. Ekki stóð á svari hjá hinum galsvaska sóknarpresti þeirra Laugnesinga, sr. Davíð Þór Jónssyni, enda þjóðkunnur fyrir að vera bæði lagið að svara ótrúlegustu spurningum og semja þær.

„Þetta er þrusudagskrá hjá ykkur,“ sagði kirkjan.is.

„Já, menn segja að þetta sé metnaðarfullt hjá okkur,“ segir sr. Davíð Þór léttur í lund, „og er mig farið að gruna að þetta sé kurteiska og merki einfaldlega: Þú ert galinn.

Hann segist hafa fundið fyrir áhuga á fræðslu í þessum dúr um Biblíuna og skyld efni. Þessi leið hafi verið farin, sjö fræðslukvöld með einvalaliði fólks í fræðunum.

„Ég hef sérstaklega orðið var við að fólki sé uppsigað við Gamla testamentið sem að mínum dómi byggir aðallega á því að þekking á eðli þess rits er í molum,“ segir sr. Davíð Þór. Hann segir fólk verða mikla jákvæðara gagnvart Gamla testamentinu þegar það áttar sig á því um hvers konar ritsafn sé að ræða. Það sé býsna aldið, textar úr ýmsum áttum og í margvíslegu formi. 

„Markmiðið með fræðslukvöldunum er að auka skilning fólks á þessu efni og hjálpa því til að meta hve merkilegt menningarsögulegt fyrirbæri þessi bók er og í raun heimild um kristna trú sem og forsaga samfélagsins og hugmyndaheimsins sem hún sprettur úr,“ segir sr. Davíð Þór.

Sr. Davíð Þór segir að ef vel takist til með þess röð fræðsluerinda þá sé aldrei að vita nema boðið verði upp á eitthvað sambærilegt um Nýja testamentið á næstu föstu.

Fræðslan er í höndum öflugs hóps. Þar er fyrst að nefna sóknarprestinn, sr. Davíð Þór Jónsson, þá dr. Gunnlaug A. Jónsson, prófessor, og dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson, báðir eru þeir hinir síðarnefndu sérfræðingar í Gamla testamentinu. Síðan mun sr. Ninna Sif Svavarsdóttir, sóknarprestur í Hveragerði, reka lestina.

Það eru engar smáræðisspurningar sem menn munu spyrja sig í Laugarnesinu á föstunni og kannski mun nesið nötra þegar umræðan hefst. Hver veit. En ekki er víst að öllu verði svarað eins og hendi sé veifað en eflaust mun ein spurning vekja aðra og síðan koll af kolli. Spurt er hverjir skrifuðu Gamla testamentið? Ekki amalegt að fá svör við því. Síðan verður fjallað um sköpunina og manninn. Sköpunarsagan hefur fylgt kristnum menningararfi og er sístætt umræðuefni. Einnig verður vikið að sögu og bókmenntum Hebreanna. Þá verður hugað að tilbeiðslusamfélaginu og áhrifasögu Davíðssálmanna. Rætt um spekirit og spámannshefð. Og síðast verður spurt og svarað um hlutverk kvenna í feðraveldinu – og ekki vanþörf á því.

Öll þessi umræðuefni eru rakin til hressilegrar umræðu og skoðanaskipta. Og að sjálfsögðu eru allir velkomnir. Sum verður nýtt í eyrum einhverra en hljómar kannski kunnuglega fyrir öðrum. En þegar nýtt og gamalt kemur saman getur eitthvað alveg splunkunýtt orðið til, eitthvað gott á gömlum grunni. Eins gott að vera á staðnum!

Þessi fræðslukvöld eru alls sjö og hefst það fyrsta 5. febrúar sem áður segir. Það síðasta verður 18. mars. Nöfn erindanna og þeirra sem stýra fræðslunni sjást á plakatinu hér fyrir neðan. Fræðslukvöldin hefjast kl. 20.00 og standa yfir í eina og hálfa klukkustund. Hvert erindi er um kennslustundarlangt, síðan er hvatt til samtals og spurninga – og kaffi verður veitt ómælt. Enginn aðgangseyrir.

Framtak Laugarneskirkju er til mikillar fyrirmyndar og spennandi verður að sjá hvort fræðslan falli í kramið hjá fólki.

Heimasíða Laugarneskirkju.

hsh










  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Námskeið

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

  • Námskeið

Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar
processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð