Hvað skal gera?

31. janúar 2020

Hvað skal gera?

Þjóðskrá Íslands er til húsa í Borgartúni 21

Um áramótin varð sú breyting hjá Þjóðskrá Íslands að hún hætti að taka við beiðnum um skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög sem berast á pappír fyrir milligöngu trú- og lífsskoðunarfélaga. Nú fer sú skráning aðeins fram með rafrænum hætti og hið rafræna eyðublað má sjá á vef Þjóðskrár, hér. Þetta þýðir jafnframt að einstaklingarnir sjálfir þurfa að óska eftir skráningu í trú-og lífsskoðunarfélag með því að senda inn rafræna beiðni um slíkt.

Þessi ákvörðun Þjóðskrár Íslands byggir á 4. gr. laga nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu, nánar tiltekið 2. og 6. lið 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar.

Af þessu tilefni rýndi kirkjan.is í slóð Þjóðskrár sem áhugasamir lesendur geta séð hér.

Ljóst er að skráning í trúfélag (eða lífsskoðunarfélag) eða ósk um breytingu á skráningu fer ekki lengur fram fyrir milligöngu presta eða forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga. Einstaklingarnir sjálfir sjá um það eða foreldrar þeirra og forráðamenn þegar um börn er að ræða – og það með rafrænum hætti. Fólk getur líka sjálft komið í afgreiðslu Þjóðskrár og tilkynnt um skráninguna og framvísað þá löggiltu skilríki.

Skráð á sama hátt og foreldrar

Þegar foreldar barns eru giftir eða skráðir í sambúð við fæðingu barns og eru í sama trúfélagi (eða lífskoðunarfélagi) eða utan trúfélaga, er barnið skráð með sama hætti og foreldrarnir. Séu foreldrarnir í sitthvoru félaginu eða bæði utan trúfélaga, er barnið skráð í það sem heitir ótilgreint trúfélag.

Hvað ef foreldrar barns eru ekki giftir eða í skráðri sambúð þegar barn fæðist? Þá er barnið skráð í sama trúfélag (eða lífsskoðunarfélag) og móðirin á meðan hún fer ein með forsjá barnsins.

Á að skrá barnið í þjóðkirkjuna?

Kirkjan.is vill vekja athygli starfsmanna kirkjunnar á þessum breytingum. Vert er að velta fyrir sér hvaða fyrirkomulag verðir á því þegar prestur skírir barn og vill athuga hvort það verði skráð í þjóðkirkjuna þegar til dæmis annað foreldri er í þjóðkirkjunni en ekki hitt. Telur presturinn það vera nauðsynlegt eða lætur hann það afskiptalaust? Þessi breyting hefur það í för með sér að presturinn getur ekki skráð barnið í kirkjuna heldur verða foreldrar/forsjáraðilar barnsins að sjá um það.

Börn eru skráð í eða utan trú- eða lífsskoðunarfélaga við nýskráningu í þjóðskrá þ.e. við fæðingu.

Þá má minna á að sé barn á aldrinum 12-15 ára ekki skráð í þjóðkirkjuna þarf að leita álits þess á því áður en til skráningar kemur. Þetta kemur eflaust upp hjá einhverjum fermingarbörnum á komandi vori því að þau þurfa að vera skírð - og helst skráð í þjóðkirkjuna áður en til fermingar kemur.

Þá kemur skýrt fram hjá Þjóðskrá Íslands að hún haldi ekki sérstakt félagatal trú- eða lífsskoðunarfélaga heldur sé aðeins um að ræða skráningu af hennar hálfu á því hvert sóknargjöldin skuli renna lögum samkvæmt.

hsh



  • Frétt

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju