Biskup á Vesturlandi: Gefandi samtal við sóknarfólk

3. febrúar 2020

Biskup á Vesturlandi: Gefandi samtal við sóknarfólk

Biskup prédikar í Akraneskirkju, sóknarpresturinn hlýðir á

Það var margt um manninn í Akraneskirkju í gærmorgun þegar biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, steig þar í stólinn og prédikaði. Það er enda alltaf stórviðburður í sóknum landsins þegar biskupinn yfir Íslandi vísiterar söfnuðina og heimafólki gefst tækifæri til að hlýða á biskup prédika í sóknarkirkju sinni.

Sóknarpresturinn, sr. Þráinn Haraldsson þjónaði fyrir altari ásamt sr. Jóni Ragnarssyni. Prófasturinn sr. Þorbjörn Hlynur Árnason las guðspjall, og Ragnheiður Guðmundsdóttir, djákni, las ritningarlestra. Kór Akraneskirkju söng undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar, organista. Meðhjálpari var Helga Sesselja Ásgeirsdóttir.

Sunnudagaskóli var í safnaðarheimilinu Vinaminni á meðan guðsþjónustan fór fram.

Sóknarnefnd bauð öllum að þiggja veglegar veitingar í safnaðarheimilinu að lokinni guðsþjónustu og gafst þá mörgum tækifæri að ræða við biskup og föruneyti hans. Það er mikilvægur þáttur í visitasíum að sóknarfólk ræði við biskupinn milliliðalaust um kirkjumálin og hvaðeina.

Í hátíðarkaffinu var Indriða Valdimarssyni fyrrverandi skrifstofustjóra þökkuð áratuga trú þjónusta á vettvangi safnaðarins, en hann lét af störfum um áramótin, sökum aldurs.

Biskup fundaði síðan með sóknarnefnd og starfsfólki safnaðarins, og fór sá fundur fram í Vinaminni.

Á fundinum með biskupi voru þau Sveinn Arnar Sæmundsson, organisti, Ragnheiður Grímsdóttir, sóknarnefndarkona, Ingþór Bergmann Þórhallsson, sóknarnefndarmaður, Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir, sóknarnefndarkona, Guðmundur Páll Jónsson, sóknarnefndarmaður, Fjóla Lúðvíksdóttir, umsjónarmaður safnaðarheimilis, Sigríður K. Valdimarsdóttir, sóknarnefndarkona, Gylfi Þórðarson, formaður sóknarnefndar, Jóhanna Einarsdóttir, sóknarnefndarkona, Anna Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri, útfararstjóri og kirkjugarðsvörður, sr. Þráinn Haraldsson, sóknarprestur, sr. Jón Ragnarsson, afleysingarprestur, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur, og sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari.

Akraneskirkja er smíðuð úr timbri og var reist á árunum 1895-1896. Hún var lengd til austurst á níunda áratug síðustu aldar. Fleiri breytingar hafa verið gerðar á kirkjunni frá því hún var reist og allar til hins betra – og henni hefur verið vel við haldið.

Akranes er vaxandi staður og þar er kirkjustarfið öflugt. Innan tíðar verða ráðnir tveir prestar við hlið sóknarprestsins í Garða- og Saurbæjarprestakalli.

Leirárkirkja og Hallgrímskirkja

Eftir að fundi lauk með sóknarnefnd og starfsfólki Akraneskirkju var haldið að Leirárkirkju.

Leirárkirkja var reist árið 1914 og hefur verið mikið endurbætt frá þeim tíma og vel um hana hugsað. Haldinn var fundur með sóknarnefndarkonunum Maríu Ragnarsdóttur og Kolbrúnu Sigurðardóttur. Kirkjan var skoðuð og munaskrá yfirfarin. Þar var allt í prýðilegu standi.

Þá var haldið út á Hvalfjarðaströnd og Hallgrímskirkja í Saurbæ skoðuð. Biskup fundaði með fulltrúum sóknarnefndar þeim Ástu Jennýju Magnúsdóttur, Jóni Valgarðssyni og Guðjóni Jónassyni. Munaskrá var yfirfarin.

Hallgrímskirkja í Saurbæ hefur mikla sérstöðu í Vesturlandsprófastsdæmi þar sem staðurinn er tengdur nafni sr. Hallgríms Péturssonar en þar orti hann Passíusálmana á árunum 1656-1659. Staðurinn er því bæði kirkju- og menningarsögulegur staður.

Hallgrímskirkja í Saurbæ var vígð 1957 til minningar um sr. Hallgrím Pétursson. Hún var friðlýst 2014 (ytra borð og kirkjuskip).

Hallgrímskirkja hefur einnig þá sérstöðu að hún er í hópi fimm höfuðkirkna landsins.

Allar eru kirkjurnar í Garða -og Saurbæjarprestakalli fallegir helgidómar og öll umgjörð starfsins til fyrirmyndar – og það kraftmikið.

Þess er einnig vert að geta að kirkjugarðarnir eru í góðri umsjá og vel hirtir.

Það kom skýrt fram í vísitasíunni að hugur er í fólki, jákvæðni og ríkur metnaður þegar horft er til framtíðar fyrir hönd kirkju og safnaðarstarfs.

Sóknarfólki er ljóst að hlúa þarf að starfinu og kirkjuhúsunum og eru áætlanir um hvernig skuli staðið að því verki.

Vísitasíu haldið áfram í dag

Í dag mun biskup Íslands heimsækja hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfða. Þar mun biskup heilsa upp á heimilisfólk og starfsfólk og taka átt í bænastund, ásamt prestum kirkjunnar og Ragnheiði Guðmundsdóttur djákna og fleirum. Jafnframt mun biskup heimsækja Fjöliðjuna á Akranesi og taka þátt í 6-9 ára starfi safnaðarins í Akraneskirkju.

Biskup mun svo ljúka vísitasíu sinni í prestakallið með kirkjuskoðun og fundi með sóknarnefnd í Innra-Hólmskirkju.

hsh/þv

Heimasíða Akraneskirkju.

Myndir tók sr. Þorvaldur Víðisson

Haldið til hátíðarmessu á Akranesi



Sóknarnefnd Akraneskirkju, starfsfólk, prestar og biskup.
Frá vinstri: Fjóla Lúðvíksdóttir, umsjónarmaður safnaðarheimilis, sr. Jón Ragnarsson,
Guðmundur Páll Jónsson, sóknarnefndarmaður, Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir, sóknarnefndarkona, Anna Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri,
sr. Agnes M. Sigurðardóttir, Ingþór Bergmann Þórhallsson, sóknarnefndarmaður,
Ragnheiður Grímsdóttir, sóknarnefndarkona, Gylfi Þórðarson, formaður sóknarnefndar,
Jóhanna Einarsdóttir, sóknarnefndarkona, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason,
og Sigríður K. Valdimarsdóttir, sóknarnefndarkona.
Sr. Þráinn brá sér frá til að gefa fólk saman en gærdagurinn var vinsæll til brúðkaupa: 02.02. 2020.



Í Leirárkirkju.
Frá vinstri: Sr. Jón Ragnarsson, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sr. Þráinn Haraldsson, María Ragnarsdóttir, sóknarnefndarkona, og Kolbrún Sigurðardóttir, sóknarnefndarkona



Í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Frá vinstri: Sr. Jón Ragnarsson, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sr. Þráinn Haraldsson, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason. Aftari röð: Ásta Jenný Magnúsdóttir, sóknarnefndarkona, Jón Valgarðsson, sóknanefndarmaður og Guðjón Jónasson, sóknarnefndarmaður.


  • Biskup

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

  • Menning

  • Samfélag

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar