Ánægjuleg og fróðleg vísitasía

4. febrúar 2020

Ánægjuleg og fróðleg vísitasía

Biskup flutti hugvekju á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Höfða

Vísitasíu biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, um Garða- og Saurbæjarprestakalla lauk í gær.

„Vísatasían var mjög ánægjuleg og fróðleg,“ sagði sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, þegar kirkjan.is innti hana eftir því hvernig hefði gengið, og biskup bætti við: „og ákaflega vel heppnuð og móttökur frábærar.“

Biskup heimsótti hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfða og kynnti sér starfsemi þess. Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir, hjúkrunarforstjóri, tók á móti biskupi og föruneyti og kynnti starfsemi heimilisins. Biskup ræddi við heimilisfólk og starfsfólk og fór vel á með öllum.

Ragnheiður Guðmundsdóttir, djákni, leiddi fjölmenna helgistund á Höfða þar sem biskup flutti hugvekju og lýsti blessun. Sr. Þráinn Haraldsson, sóknarprestur, las guðspjall. Sveinn Arnar Sæmundsson, organisti, lék á píanó.

Á dvalarheimilinu Höfða hitti biskup frænku sína, Sigrúnu Clausen, og var hún í sveit hjá móðurafa og ömmu sr. Agnesar á Höfðaströnd í Jökulfjörðum. Faðir sr. Agnesar, sr. Sigurður Kristjánsson, fermdi hana. Það var svo sannarlega fagnaðarfundur þeirra frænkna á Höfða.

Þá heimsótti biskup jafnframt Fjöliðjuna á Akranesi. Guðmundur Páll Jónsson, forstöðumaður, kynnti biskupi starfsemina. Fjöliðjufólkið tók vel á móti biskupi og vildu margir fá selfie með sér og biskupi. Segja má að þar hafi verið glatt á hjalla og einlæg ánægja meðal allra með heimsókn biskups.

Vísitasíunni lauk með kirkjuskoðun í Innra-Hólmskirkju og fundi með sóknarnefnd. Fulltrúar sóknarnefndar á fundinum með biskupi voru Ragnheiður Guðmundsdóttir, Ingileif Daníelsdóttir og Lára Ottesen.

Ljóst er að gera þarf átak í viðhaldi á Innra-Hólmskirkju - kirkjan var reist úr timbri 1891 og steypt utan um hana 1952 og forkirkja byggð í leiðinni. Almennt viðhald á kirkjum er stöðugt verkefni og fjárfrekt. Þörf er á hærri sóknargjöldum og líður húsnæðið víða vegna fjárskorts. Innra-Hólmskirkja, er þar enginn undantekning.

Gestrisni og glaðværð hefur verið einkenni á samfélaginu sem mætt hefur biskupi, bjartsýni og jákvæðni meðal fólks.

Auglýst hefur verið eftir tveimur prestum til þjónustu í hið nýja prestakall (Garða- og Saurbæjarprestakall) og mun niðurstaða að líkindum liggja fyrir undir lok mánaðarins, hverjir verða ráðnir til þeirrar þjónustu.

Biskup mun næst vísitera Hvanneyrarprestakall, 6. -7. febrúar, og Reykholtsprestakall 9. -10. febrúar.

hsh/þv

Myndir tók sr. Þorvaldur Víðisson - mynd af altaristöflu tók hsh


Sr. Agnes biskup hitti frænku sína, Sigrúnu Clausen, í vísitasíunni 
og varð með þeim fagnaðarfundur


Ragnheiður Guðmundsdóttir, djákni, leiddi helgistundina á Höfða 
en biskup Íslands flutti hugleiðingu


Altaristaflan í Inrra-Hólmskirkju er eftir Jóhannes Kjarval. Hún er með þeim sérstakari í kirkjum landsins. Myndin kom í kirkjuna 1931. Ástæða þess að mynd Kjarvals er í kirkjunni er sú að maður nokkur, bóndi á Eystra-Krossi, veiktist og var honum vísað til Reykjavíkur til lækninga. Þar dvaldist hann vetrarlangt og hét á kirkjuna að næði hann heilsu myndi hann biðja Jóhannes Kjarval sem hann hafði kynnst í suðurför sinni, að mála altaristöflu. Þetta gekk eftir, hann náði heilsu og Kjarval málaði mynd, setti reyndar ekki stafi sína við hana. - Altarismyndin sýnir trékross rekinn niður í íslenskan svörð, annar armurinn ögn klofinn í endann sem og efst á hinum lóðrétta ási, krossinn er skorðaður af með grjóti, ekkert fólk sjáanlegt. Sterkt tákn í einfaldri boðun sinni. Altaristaflan stendur á litlum stalli sem á er letrað: Það er fullkomnað. (Jóhannesarguðspjall 19. 30; sjötta orð Krists á krossinum). (Sjá nánar: Kirkjur Íslands, 13. bindi, bls. 191).


Prestar, biskup Íslands og sóknarnefndarfólk í Innra-Hólmskirkju


  • Biskup

  • Frétt

  • Fundur

  • Heimsókn

  • Menning

  • Öldrunarþjónusta

  • Samstarf

  • Biskup

  • Menning

Framtíðar kirkjuleiðtogar

Leiklistarkennarinn lærði mikið af krökkunum

21. jan. 2025
...á Janúarnámskeiði ÆSKR
Seljakirkja í Breiðholti

Laust starf prests

21. jan. 2025
...við Seljaprestakall