Austurland: „Nú verður útvarpað guðsþjónustu frá...“

10. febrúar 2020

Austurland: „Nú verður útvarpað guðsþjónustu frá...“

Prestar, organistar, kóraformenn og söngmálastjóri á Egilsstöðum

Útvarpsmessur eru einstakur vettvangur sem kirkjan hefur til að koma á framfæri boðskap sínum við alla landsmenn. Langflestar útvarpsmessur eru á vegum þjóðkirkjunnar og söfnuðir leggja sig mjög svo fram um að þær séu þeim til sóma. Oftast er tjaldað til öllu því besta sem hver söfnuður hefur upp á að bjóða eða þá að hlustendum er boðið að hlýða á vandaða og hefðbundna messu í viðkomandi söfnuði. Hver hefur sitt lag, eins og sagt er, enda þótt allir séu vitaskuld samhljóma í helgihaldinu.

Útvarpsmessur eiga sér dygga hlustendur vítt og breitt um landið. Það fólk er ákaflega þakklátt fyrir messurnar og þykir gaman að heyra hvernig kórarnir syngja og hvernig þessi eða hinn presturinn prédikar. Auk þess sem útvarpsmessur eru ein leið fólks til að rækta með sér trúna þar sem það getur ekki sótt kirkju af einhverjum ástæðum - eða velur kannski einfaldlega „útvarpskirkjuna“ - það er hið besta mál.  Fólkið hlustar - og margir taka undir sálmasönginn.  

Í síðustu viku var haldinn fundur presta og organista í hinu víðfeðma Austurlandsprófastsdæmi en í því eru þrjú prestaköll: Hofsprestakall, Egilsstaðaprestakall og Austfjarðaprestakall. Til þessa fundar var boðað af þeim sr. Sigríði Rún Tryggvadóttur, prófasti, og Margréti Bóasdóttur, söngmálastjóra.

Fundarstaður var Egilsstaðakirkja og var mæting feikna góð úr öllum prestaköllunum. Umræðuefnið var hvort unnt væri að ná saman um skipulag um að taka upp útvarpsmessur í vor sem útvarpað yrði venju samkvæmt á Rás 1, næsta sumar eða á „rás hins hugsandi manns“ eins og stundum er sagt.

Niðurstaðan var mjög svo ánægjuleg: allir tilbúnir til að leggja þessu máli lið og stilla saman hina margfrægu strengi. Hvað annað!

Egilsstaðakirkja mun bera hitann og þungann af þessu messuhaldi, hún verður í raun stúdíóið en messurnar verða teknar þar upp.

Upptökur fara fram helgina eftir páska og standa yfir í tvo daga, alls tíu guðsþjónustur verða teknar upp. 

Egilsstaðakirkja verður að sjálfsögðu opin öllum þeim er vilja hlýða á messurnar og sjá hvernig þær eru teknar upp - það getur verið áhugavert fyrir þau sem aldrei hafa séð upptökumenn að störfum. 

Spennandi verður að hlýða á messurnar, kóra og organista, og presta þegar sumarið gengur í garð. 

Nú, í lokin minnir kirkjan.is á útvarpsmessu næsta sunnudags, 16. febrúar, sjá hér: Rás 1,sem verður í Grafarvogskirkju. Séra Arna Ýrr Sigurðardóttir þjónar fyrir altari og sr. Grétar Halldór Gunnarsson prédikar. Organisti: Hákon Leifsson.

hsh
  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar
processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð