Margt bralla börnin í kirkjunni

12. febrúar 2020

Margt bralla börnin í kirkjunni

Altarisdúkur barnanna er fjörlegur

Sunnudagaskólinn í Eydala- og Stöðvarfjarðarsóknum er sameiginlegur og þar er margt brallað. Kirkjan.is rak augun í myndir þar sem börnin voru í óða önn að mála á dúk í sameiningu.

Sóknarpresturinn ungi, sr. Dagur Fannar Magnússon, sagði þá kirkjan.is forvitnaðist um þetta, að hugmyndin væri komin frá Daníel Ágústi Gautasyni, djákna í Fossvogsprestakalli, í Reykjavík. Daníel Ágúst er ötull í æskulýðsstarfi og mjög hugmyndaríkur. 

Tilgangurinn er sá að leyfa börnum og ungmennum að taka þátt í safnaðarstarfinu með áþreifanlegum hætti í orðsins fyllstu merkingu. Þau búa eitthvað til, skapa, og það verður fyrir augum allra í kirkjunni og er notað við helgihald þegar við á. Þau sem skapa eiga hlut í kirkjunni sinni. Og finnst það vera heimilislegt. 

Sunnudagaskólabörnin þar eystra tóku sig sumsé til og bjuggu til altarisdúk, máluðu hann sjálf og ákváðu hvaða tákn skyldu vera á honum. Auk þess merktu þau sér hann. Síðar meir geta þau bent á það að þarna hafi þau komið að verki. Kannski einn góðan veðurdag þegar þau verða orðið gamalt fólk og koma við í kirkjunni sinni og sjá dúkinn og nafn sitt, segja þau með sjálfum sér: „Þarna var ég, barn Guðs. Og er enn.“

„Þar sem sunnudagaskólinn er sameiginlegur fyrir Eydala - og Stöðvarfjarðarsóknir getur hann einnig verið tákn um að þrátt fyrir sóknarmörk, landamæri og annað sem aðskilur okkur, erum við alltaf eitt í Kristi,“ segir sr. Dagur Fannar.

Þemað var sígilt, sköpunin. Þess vegna fékk sköpunargleðin að njóta sín að sögn sr. Dags Fannars. Áherslan var á að öll væru börnin - og reyndar allt mannfólkið - skapað af Guði eins og hann vill að við séum.

„Guð gerir ekki mistök og hefur hlutverk fyrir okkur öll í þessu góða sköpunarverki“, segir sr. Dagur Fannar.

Svo sannarlega ljómar sköpunargleðin yfir kirkjustarfinu á Austfjörðum.

hsh

 


Altarisdúkurinn kemur vel út - litríkur eins og mannlífið sjálft 
Myndin er tekin í Stöðvarfjarðarkirkju - dúkurinn verður líka notaður í Heydalakirkju


  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar
processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð