Biskup sækir Snæfellinga heim

17. febrúar 2020

Biskup sækir Snæfellinga heim

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, prédikaði að kvöldi dags í Grundarfjarðarkirkju

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, hélt vísitasíu sinni áfram um Vesturlandsprófastsdæmi í síðustu viku. Með í för hennar var prófasturinn, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, og sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari. 

Vísitasían í Setbergsprestakalli (Grundarfjörður) hófst 13. febrúar s.l., með því að sr. Agnes heilsaði upp á börnin í Grunnskóla Grundarfjarðar. Sigurður Guðjónssonar, skólastjóri, tók á móti biskupi og föruneyti, kynnti starfsemi skólans. Ræddi biskup við á nemendur, kennara og starfsfólk skólans um skólahald og mannlífið.

Að því loknu lá leið biskups í ráðhúsið þar sem Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri, og starfsfólk tóku á móti biskupi. Þá var haldið í útgerðarfyrirtækið G.Run., þar sem Runólfur Guðmundsson, stjórnarformaður, kynnti biskupi starfsemina, ásamt systkinum sínum og samstarfsfólki.

Tekið var á móti biskupi í Fellaskjóli, dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra, þar sem boðið var upp á kaffiveitingar og biskupi var kynnt starfsemin.

Setbergskirkja í Eyrarsveit var því næst skoðuð, en kirkjan er fallegt og látlaust guðshús úr timbri, reist árið 1892, vel við haldið. Kirkjugarðurinn er jafnframt vel hirtur, þar sem nýtt sáluhlið hefur verið sett upp.

Biskup hélt svo fund með sóknarnefnd Setbergssóknar í safnaðarheimili kirkjunnar. Barna- og æskulýðsstarf er í miklum blóma í söfnuðinum.

Á fundinum kom fram að viðhaldsverkefnin eru mörg, en sóknargjöldin hafa verið skert hvað eftir annað undanfarin ár. Fulltrúar sóknarnefndar á fundinum með biskupi voru þau Guðrún M. Hjaltadóttir, Runólfur Guðmundsson, Lilja Magnúsdóttir og Sunna Njálsdóttir.

Um kvöldið fór fram guðsþjónusta í Grundarfjarðarkirkju þar sem sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, sóknaprestur, þjónaði fyrir altari. Biskup Íslands prédikaði og lýsti blessun. Organisti kirkjunnar lék á orgel og kórstjórinn stjórnaði kór kirkjunnar. Sóknarnefndin bauð í kirkjukaffi í safnaðarheimilinu að athöfn lokinni. Grundarfjarðarkirkja var vígð árið 1966.

Í gær hélt vísitasía sr. Agnes M. Sigurðardóttur áfram og þá var haldið í Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall.

Guðþjónusta var í Ólafsvíkurkirkju þar sem sr. Óskar Ingi Ingason, sóknarprestur, þjónaði fyrir altari og biskup Íslands prédikaði og lýsti blessun í lok athafnarinnar. Guðríður Þórðardóttir, meðhjálpari, aðstoðaði við útdeilingu og las lokabæn. Fermingardrengur las ritningarlestur. Elena Makeeva lék á orgel og sameinaður kór prestakallsins söng undir stjórn Veronicu Osterhammer. Að lokinni messu buðu sóknarnefndirnar og kórarnir í kirkjukaffi í safnaðaheimilinu.

Ólafsvíkurkirkja var skoðuð eftir kirkjukaffið með fulltrúum sóknarnefndar. Kirkjan er fallegur helgidómur og sérstakur. Aðgengismál eru til athugunar, en bæta þarf aðgengi svo það henti öllum. Kirkjan var vígð árið 1967.

Síðdegis var farið í Brimilsvallakirkju og hún skoðuð ásamt fulltrúum sóknarnefndar. Kirkjan er hefðbundin íslensk sveitakirkja, svipsterk í einfaldleika sínum eins og umhverfi hennar hæfir, reist árið 1923 og var þá fyrsta kirkjan þar en áður var bænhús á Brimilsvöllum.

Um kvöldið fór fram fundur biskups Íslands með fulltrúum sóknarnefnda Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakalls í safnaðarheimili Ingjaldshólskirkju. Samstarf sóknanna er þó nokkurt, sóknarsamlag virkt, hvað snertir barnastarf og fleira.

Í vísitasíunni kom fram mikill velvilji sóknarbarna til kirknanna í prestakallinu. Barnastarfið gengur vel og með er það er mikil ánægja, sunnudagaskólinn er vel sóttur og æskulýðsstarfið blómlegt.

Eftir fundinn var Ingjaldshólskirkja skoðuð, en kirkjan er traustbyggður helgidómur. Hún var reist árið 1903, er elsta steinsteypta kirkjan á landinu. Safnaðarheimili var byggt 1994-1997, tengt kirkjunni neðanjarðar, vestanmegin.

Biskup leiddi helgistund við lok samverunnar. Fulltrúar sóknarnefnda á fundinum með biskupi voru þau Gunnsteinn Sigurðsson, Ari Bent Ómarsson, Þorsteinn Jakobsson, Elena Makeeva, Ragnheiður Víglundsdóttir, Rebekka Unnarsdóttir, Dagný Þórðardóttir, Kristinn J. Friðþjófsson og Hafþór S. Svansson.

Í dag, 17. febrúar, er fyrirhuguð heimsókn í grunnskólann á Hellissandi, dvalarheimilið Jaðar og grunnskólann í Ólafsvík. Jafnframt verður kapellan í Ólafsvík og kirkjugarðurinn skoðaður. Vísitasíu biskups í prestakallið mun ljúka með heimsókn til bæjarstjórnar á Hellissandi.

ÞV/hsh

Myndir tók Þorvaldur Víðisson


Biskup og kvenfélagskonur í Grundarfirði


Sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, sóknarprestur í Setbergsprestakalli


Brimilsvallakirkja í Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestkalli


Biskup með kirkjufólki og sóknarpresti í Brimisvallakirkju


Sr. Agnes og sr. Óskar Ingi Ingason, sóknarprestur í Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakalli

Sjá nánar: 

Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall

Kirkjuklukkur Ólafsvíkurkirkju óma hér.

Setbergsprestakall.


  • Biskup

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju