Undir stúkunni í Laugardalnum

2. mars 2020

Undir stúkunni í Laugardalnum

Margt góðra bóka á góðu verði

Kirkjan.is brá sér í morgun á hinn árlega bókamarkað en hann er að finna í húsnæði undir stúkunni í Laugardal – og hefur verið þar í nokkur ár. Það er Félags íslenskra bókaútgefenda sem stendur að skipulagningu markaðarins.

Markaðurinn hófst fyrir viku og stendur fram til 15. mars. Hann er opinn frá kl. 10.00 að morgni til kl. 21.00 að kvöldi.

Kirkjan.is gekk um hina löngu ræmu sem húsnæðið er þar sem hvert borðið á fætur öðru svignar undan bókum um allt milli himins og jarðar. Alls konar bókaflokka og skráningu er hægt að lesa á vegg við flest borðanna.

Tíðindamaður spurði hvort eitthvert guðsorð væri þarna á boðstólum. „Jú, örugglega, bíddu við,“ sagði lipur starfsmaðurinn og gekk inn ræmuna og að borði einu á giska þriggja metra breiðu við inniglugga. Þakkað var fyrir þessa leiðsögn og spurt áður en starfsmaðurinn gekk í braut hröðum skrefum hvort Biblían væri fáanleg. „Nei, ekki þessi venjulega, en þessi sem tekur aðeins hundrað mínútur að lesa – og svo er hún líka á geisladiski,“ svaraði starfmaðurinn. Kannski fannst honum svipurinn á komumanni ekki vera nógu ánægður við þessi orð og bætti því við til að kæta lund hans að þeir hefðu „fullt af bókum um dulræn efni þarna hinumegin“ – gott að það er hinumegin en ekki hérnamegin hugsaði komumaður. Nóg væri nú samt á sveimi hérnamegin.

Bækur sem fjalla um kristna trú á bókamarkaðnum eru flestar útgefnar af Skálholtsútgáfunni – útgáfufélagi þjóðkirkjunnar. Þetta eru margs konar bækur, góðar bækur og á hóflegu verði. Sýnir býsna mikla breidd í útgáfunni og óbilandi kraft á þessum litla markaði fyrir trúarlegt efni.

Auk bóka um kristna trú er að finna þó nokkuð margar ævisögur kunnra kennimanna. Þær eru á góðu verði – sú ódýrasta var sjálfur séra Haraldur Níelsson, 300 kr., eftir dr. Pétur Pétursson. Skemmtileg bók og ágætlega skrifuð.

Kirkjan.is mælir með því við lesendur sína að líta við á bókamarkaðinum – það er í hugum margra árviss stemning eins og sú sem fylgir þorra og góu sem nú líður hratt á braut. Þar er margan fjársjóðinn að finna fyrir lítið fé. 

Meðan bókamarkaðurinn er haldinn stendur þjóðin sennilega enn undir því nafni að vera bókaþjóð. Að minnsta kosti streymdi fólk á markaðinn þá stuttu stund sem kirkjan.is stóð þar við. Það var góðs viti.

Facebókarsíða bókamarkaðarins í Laugardal

hsh


Gott úrval af bókum frá Skálholtsútgáfunni á góðu verði


Hinn sígildi bókaálfur vísar veginn


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði