Stutta viðtalið: Sungið í sjötíu ár við ysta haf

8. mars 2020

Stutta viðtalið: Sungið í sjötíu ár við ysta haf

Una Hólmfríður Kristjánsdóttir flutti snjallt ávarp í Hallgrímskirkju

Una Hólmfríður Kristjánsdóttir er fædd og uppalin á Raufarhöfn.

Kirkjan.is gekk inn í Sóltún í Reykjavík til að ræða við Unu Hólmfríði en þar var hún gestkomandi hjá ætttingjum sínum. Komin suður til að taka á móti viðurkenningingu sem fulltrúi allra þeirra sem leggja sitt af mörkum í kirkjustarfi með því að syngja í kirkjukórum vítt og breitt um landið. 

Sóltún á enda vel við þessa sólríku sál, hana Unu, sem rís smám saman upp í samtalinu. Auk þess sem sólin bröltir um í skýjunum í rysjóttu sunnlensku veðri - henni til heiðurs?

Hún er hógvær kona, fjallhress og glögg. Lífsreynd og yfirlætislaus en hefur sögu að segja. Sögu konunnar, íslenskrar konu í þorpi við sjó þar sem kirkjan er samgróin hinum heilaga hversdagsleika. 

Samgróin landinu og sál þorpsins.

Hún var ung að árum þegar haldið var suður í vist - það var ákveðinn skóli fyrir sveitastúlkur á sínum tíma - þær áttu helst að koma aftur eftir þá forfrömun. Og hún þá rúmlega sextán ára gömul. Vinnukona hjá betri borgurum í Reykjavík. Það var góð reynsla fyrir hana og hún kunni vel við fólkið. Vinnukonan þurrkaði af, þvoði gólf og ryksugaði, þvoði upp leirtau og gætti barna. Á einu heimilinu voru leikföngin mjög falleg, hún hafði aldrei séð eins falleg leikföng og hafði jafn gaman af því að leika með þau eins og börnin sem hún gætti í vinnumennsku sinni enda þótt hún væri sextán ára. Stúlkan frá Raufarhöfn var vön leggjum og skeljum - útlendu leikföngin báru mjúkan ilm frá fjarlægum ströndum.

Já, þetta voru sannarlega öðruvísi heimili en norður á Raufarhöfn. En þau voru góð hvort með sínum hætti í huga Unu Hólmfríðar. Vistin í Reykjavík stóð yfir í tvo vetur - á sumrin fór hún heim, norður.

Norður - þar átti hún heima. Enda kom hún heim eftir vistina syðra. Síðan kynntist hún mannsefni sínu fyrir norðan og átti börn með honum, tvo drengi, annar þeirra dó níu ára gamall. Eiginmaðurinn var útgerðarstjóri og vann síðan á pósthúsinu á Raufarhöfn. Hún missti mann sinn Pál Hjaltalín Árnason árið 1999. Sonur hennar sem lifir er að verða sjötugur og segist Una kalla hann nú í glensi gamalmenni en segist sjálf vera fullorðin - og svo hlær hún björtum hlátri.

Lífið í þorpinu Raufarhöfn gekk sinn vanagang. Síld og aftur síld. Una var húsmóðir en vann líka sem fiskverkunarkona alla tíð.

Dag einn þegar hún og vinkona hennar voru á gangi í þorpinu með barnavagna, kornungar mæður, er kallað á þær úr húsi einu og spurt hvort þær vilji ekki kaffi. Það var söngstýran og organistnn Hólmfríður Árnadóttir frá Kópaskeri á staðnum og þær stöllur fóru inn, börnin sváfu í vögnunum fyrir utan. Þar inni var kirkjukórinn að æfa fyrir hvítasunnuna. Þær hlýddu á sönginn og biðu eftir kaffinu. Tóku undir lögin - voru farnar að syngja í kórnum án þess að vita það. Og biðu eftir kaffinu. Í lokin sagði söngstýran við þær: „Þið mætið svo elskurnar á hvítasunnudag í messuna.“

En kaffið?

Þær bíða enn eftir kaffinu.

Kaffið fáum við aldrei,“ segir Una og hlær við, „söngstýran ágæta er dáin – blessuð veri minning hennar.“

En þannig gekk hún í kór Raufarhafnarkirkju rétt um tvítugt. Og enn syngur hún í kórnum. Fyrst söng hún sópran og nú altrödd. Árin eru orðin sjötíu á komandi hvítasunnu.

Hún segir kórinn lifa enn góðu lífi. „Þegar sjónvarpið kom á sínum tíma hingað dró úr heimsóknum fólks á milli heimila í þorpinu – og ögn dofnaði yfir félagslífi,“ segir Una en bætir við sigri hrósandi, „en kórinn lifði af og mun lifa.“ Hún bætir því við að sönghefðin sé býsna sterk í Þingeyarsýslum. 

Hún segir kórsönginn vera líf sitt og yndi. Ekkert komi í staðinn fyrir hann. Og þegar hún er spurð hvert sé eftirlætislagið svarar hún eftir dálitla umhugsun með bros á vör: „Bjargið alda, borgin mín...“ – og bætir við að hún hafa að minnsta kosti óskað því að það verði flutt yfir henni þegar hún er horfin af heimi þessum.

En kirkjukórar úti á landsbyggðinni syngja fleira en sálmalög. Þeir eru alhliða kórar og verða fyrir vikið enn meiri máttarstólpar í menningarlífi allra staða en ella. Þeir syngja hin og þessi lög sem flutt eru á sveita- og innanhéraðsmótum. 

Á þetta mörgum árum í söngstarfi hefur Una séð marga kórstjóra við ysta haf. Allir hafa þeir verið konur nema einn. Og prestarnir hafa líka komið og farið. Sumir staldrað við lengur en aðrir – eins söngstjórarnir, organistarnir. Allt hið besta fólk, segir Una. En kórinn hefur staðið sína vakt – og enn stendur Una Hólmfríður Kristjánsdóttir þessa vakt. Sönglistin deyr síðast í litlu þorpi eins og eitt sinn var sagt, eining sálnanna.

En mannlifið er breytt á Raufarhöfn frá því Una var ung kona. „Það fór allt með síldinni,“ segir hún. Og auðvitað er gróið yfir mörg spor fólksins sem þar var. En á Raufarhöfn búa hátt í tvö hundruð manns, segir hún. Fimm börn eru í skólanum - og það er framtíð út af fyrir sig.“ 

Hjól atvinnulífsins snúast áfram á Raufarhöfn enda þótt marrið í þeim heyrist ekki alltaf suður. Fiskvinnsla og ferðaþjónusta.

Samgöngur eru greiðar og Una ók galvösk til Húsavíkur og fór með flugvél suður eins og svo oft áður. 

Raufarhafnarkirkju er þjónað nú frá Skinnastað.

Tónmenntasjóður kirkjunnar lagði til að hinni traustu kirkjukonu sem sprottin er úr kviku landsins yrði veitt tónlistarviðurkenning kirkjunnar, Liljuna, fyrir þessa tryggu varðstöðu. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, afhenti henni þessa viðurkenningu í gær í Hallgrímskirkju við hátíðlega athöfn – það er heiðursviðurkenning fyrir framlag til kirkjutónlistar –  þar stóð hin einlæga kórsöngkona og fiskverkunarkona frá Raufarhöfn við kórþrep Hallgrímskirkju í Reykjavík, hógvær og af hjarta lítillát, og þakkaði fyrir sig – sannur fulltrúi allra þeirra sem sungið hafa í kirkjukórum landins. Því hvað væru söfnuðir án kóra?

Kirkjukórar eru margir sem hjartað í söfnuðum. Þegar þeir hætta að syngja, taktur þeirra fer að hökta og hjartað hættir á slá, er mál að huga betur en oft áður að starfinu. Kórarnir eru sterkasta og langlífasta grasrót kirkjunnar sem verður að hlúa að. Þess vegna er þessi viðurkenning til Unu Hólmfríðar Kristjánsdóttur ekki eingöngu verðug viðurkenning til hennar sem hefur sungið í kirkjukór í sjötíu ár við ysta haf heldur og líka sterk áminning til alls kirkjufólks um að missa ekki takið á grunnstoðum safnaðarlífs.

hsh


Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, afhendir Unu Hólmfríði blóm og viðurkenningu


  • Frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Starf

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju