Vísitasíu biskups frestað

17. mars 2020

Vísitasíu biskups frestað

Efri hluti altaristöflunnar í Hjarðarholtskirkju í Stafholtstungum sýnir himnaför Jesú - sjá neðri hlutann inni í fréttinni en hann sýnir kvöldmáltíðina. Taflan var gefin kirkjunni 1746

Um síðustu helgi ætlaði biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, að halda vísitasíu sinni um Vesturlandsprófastsdæmi áfram og þá í Stykkishólmsprestakall. Samkomubannið sem tók gildi á miðnætti s.l., sunnudags setti hins vegar strik í reikninginn og hefur vísitasíunni verið frestað um sinn. Vísitasíunni verður fundinn nýr tími þegar að því kemur og þá sem áður í samvinnu við heimamenn.

En biskup var á ferð í Stafholtsprestakalli fyrir rúmri viku eða nánar til tekið hinn 9. mars s.l. Með í för voru sem áður biskupsritari, sr. Þorvaldur Víðisson, og prófasturinn á Borg, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason.

Fyrst var förinni heitið í Hjarðarholtskirkju í Stafholtstungum, sem reist var árið 1895. Kirkjan er fallegur helgidómur og reisulegt hús í látleysi sínu; nýmáluð og mikil sveitarprýði. Hjónin Hrefna B. Jónsdóttir og Þorvaldur T. Jónsson tóku á móti biskupi og föruneyti.

Þá lá leiðin í Stafholtskirkju sem er önnur perla í prestakallinu og var reist 1875-1877. Erla Gunnlaugsdóttir, Brynjólfur Guðmundsson og Þorvaldur Tómas Jónsson sóknarnefndarfólk, tóku á móti biskupi í kirkjunni. Upp að kirkjunni eru brattar tröppur og hafa verið ræddar nokkrar leiðir til að bæta aðgengi og er málið í vinnslu. Ljósahjálmur frá um 1700 er kominn í kirkjuna að nýju frá Byggðasafninu í Borgarnesi.

Klukkur Stafholtskirkju hljóma með þessum hætti.

Eftir hádegið fór síðan fram kirkjuskoðun í Norðtungukirkju sem reist var árið 1953 en þar hefur kirkja staðið um aldir. Kirkjan er snotur helgidómur. Magnús Skúlason formaður sóknarnefndar tók á móti biskupi og föruneyti.

Að lokum fór fram kirkjuskoðun og fundur með sóknarnefnd í Hvammskirkju í Norðurárdal. Þar hefur kirkja staðið frá því á tólftu öld. Núverandi kirkja var reist árið 1880 og er fallegur helgidómur. Nýlega var skipt um ofna í kirkjunni og eitt og annað málað í henni. Næstu verkefni sóknarinnar er að huga að lagfæringum í kirkjugarðinum og koma upp upplýsingaskilti um kirkjuna og garðinn. Fulltrúar sóknarinnar sem tóku á móti biskupi voru Rósa Arilíusardóttir, Þórhildur Þorsteinsdóttir, Gróa Erla Ragnvaldsdóttir, Sigurjón Valdimarsson, Þórir Finnsson og Bergur Hauksson.

Mikil sjálfboðin vinna er unnin í kirkjunum, þá sérstaklega sem snýr að kirkjugörðunum. Reksturinn á hverjum stað er í öruggum og traustum höndum þrátt fyrir gríðarlega skerta tekjustofna, þ.e.a.s. niðurskurð á sóknargjöldunum. Þrátt fyrir það er mikil prýði af kirkjunum öllum í prestakallinu.

hsh/ÞV

Þorvaldur Víðisson tók myndir


Tvískipt altaristafla í Hjarðarholtskirkju


Neðri hluti altaristöflunnar - trélíkneskin af gamalli altaristöflu


Norðtungukirkja í Þverárhlíð


Í Norðtungukirkju: Frá vinstri: Elísabet Vilborg Jónsdóttir, Norðtungu,
sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, Borg, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, Magnús Skúlason, Norðtungu.


Kirkjufólk í Stafholtskirkju: Frá vinstri: Erla Gunnlaugsdóttir, Laugalandi,
sr. Agnes M. Sigurðardóttir, Þorvaldur T. Jónsson, Hjarðarholti,
Brynjólfur Guðmundsson, Hlöðutúni, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur Borg.


Í Hvammskirkju. Frá vinstri: Þórhildur Þorsteinsdóttir, Brekku, sr. Agnes M. Sigurðardóttir,
Gróa Ragnvaldsdóttir, Tröð.


Hvammskirkja


  • Biskup

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju