Bæn og hreyfing á veirutímum ​

20. mars 2020

Bæn og hreyfing á veirutímum ​

Kristur í Emmaus - lágmynd úr gifsi, eftir Bertel Thorvaldsen (1770-1844). Í Akraneskirkju.

Á tímum kórónuveirunnar er fólki ráðlagt að halda sig heima við eftir því sem það hefur tækifæri til. Vera sem minnst á ferli og halda tveggja metra fjarlægð við fólk. Spritta sig um hendur eða þvo sér vandlega. Talið er inn í verslanir. Umferð fólks, gangandi og akandi, hefur dregist verulega saman. Skólar hafa lokað með öllu um tíma eða að einhverju leyti.

Samfélagið er komið í hægagang vegna veirufaraldursins.

Margir vinnustaðir hafa gripið til þess ráðs að leyfa starfsmönnum að vinna heima eftir því sem kostur er. Á tölvuöld geta býsna margir leyst verkefni vinnu sinnar hvar sem er í veröldinni ef út í það er farið.

Svo er það stór hópur fólks sem er heima hjá sér í sóttkví í tvær vikur – stundum lengur. Fólk sem er að koma að utan eða hefur verið í samskiptum við einstaklinga sem eru smitaðir.

Það eru nokkur viðbrigði að vera í þeirri stöðu á heimili sínu að mega ekki fara úr húsi.

Dvalar- og hjúkrunarheimili hafa lokað fyrir heimsóknir meðan veirufaraldurinn gengur yfir og er það gert til að vernda heimilisfólk frá veirunni.

Enda þótt hömlur séu settar á samskipti fólks vegna faraldursins þá er þar með sagt að það eigi að loka fyrir þau. Alls ekki. Samskipti er nefnilega hægt að hafa með ýmsu móti og það þekkir nútíminn býsna vel: Sími, Instagram, Messenger, twitter, Facebook... og þannig mætti lengi telja.

Samskipti fólks á þessum tíma eru aldrei mikilvægari sem nú. En þó eftir ákveðnum leiðum - fólk lærir þær.

Það eru til dæmis einstaklega falleg samskipti þegar fólk hefur safnast saman við stofnanir þær þar sem eldri borgarar búa og sungið fyrir þá af hjartans lyst. Bæn er ákveðið samskiptaform.

Kirkjan.is fékk þessa bæn senda sem getur komið sér vel fyrir fólk á tíma þegar faraldur geisar. Hún er gömul - ber þess merki - en er engu að síður góð.

Hvort tveggja í senn bæn til Guðs og hreyfing.

Almannavarnir og landlæknir hafa brýnt fyrir fólki sem er heima við, vinnandi, í sóttkví eða fyrir aldurs sakir, að hreyfa sig. Hreyfing er mikilvæg.

Þessi bæn er nefnilega hreyfibæn. Máttur orðs – og máttur hreyfingar. Hér er bænin:

Verndarbæn Kaim Verndarhjúpur-Verndarhjúpun
Staðið: Hendi lyft upp yfir höfuð og með vísifingri og löngutöng bent upp og snúið í hring þrisvar sinnum og sagt um leið:
Við fyrsta hring: Englar himins verndi mig í dag og umljúki mig friðar ylmi og angan.
Við annan hring: Kristur, Drottinn minn og elskandi vinur verndi mig í dag og umljúki mig með umhyggju og elsku.
Við þriðja hring: Sannleikans Andi. Ver í hjarta mér í dag og umljúk mig og fyll mig gleði þinni.
Staðið í kyrrð um stund og svo sagt: Himneski faðir. Ég er barn þitt og geng fram í þínu nafni. Varðveit mig og vernda í Jesú nafni. Amen.

Brjóstvörn/ Brynja Patreks
Bæn frá 8. öld, kennd við heilagan Patrek, postula Írlands

Ég rís upp í dag:
Styrktur mætti, ákalla þrenninguna,
trúi á þríeiningu og játa einingu
skapara sköpunarverksins.

Ég rís upp í mætti fæðingar Krists og skírnar,
í mætti krossfestingar hans og greftrunar,
í mætti upprisu hans og uppstigningar,
í krafti niðurstigningar hans og dóms.

Ég rís upp í dag,
í mætti elsku kerúba,
í hlýðni engla og þjónustu erkiengla,
í von upprisu til umbunar í ættfeðra bænum,
í forsögnum spámanna,
í prédikun postula,
í trú píslarvotta,
í sakleysi helgra meyja,
í dáðum réttlátra.

Ég rís upp í dag,
í himins mætti,
í sólarskini,
í mánabliki,
í loga dýrð,
í eldingarleiftri,
í vinds snerpu,
í sjávardýpi,
í jarðar trausti,
í bjargs festu.

Ég rís upp í dag:
með Guðs mátt að stýra mér,
Guðs styrk að viðhalda mér,
Guðs visku að leiða mig,
Guðs auga að horfa fram fyrir mig,
Guðs eyra að hlýða á mig,
Guðs orð að tala fyrir mig,
Guðs hönd að vernda mig,
Guðs veg fyrir framan mig,
Guðs skjöld að verja mig,
Guðs herskara að bjarga mér;
frá snörum djöfla,
frá illum freistingum,
frá eðlis ágöllum,
frá öllum sem vilja skaða mig,
fjær og nær,
einir og í fjölda.

Kringum mig safna ég í dag öllum þessum máttaröflum;
gegn hverjum þeim grimma og miskunnarlausa mætti
sem ræðst gegn líkama mínum og sálu,
gegn töfrum falsspámanna,
heiðnum svartagaldri,
villutrúar lognum lögum,
blekkingum hjáguðadýrkunar,
gegn álögum kvenna, kuklara og galdramanna
og allri ólögmætri þekkingu/kunnáttu
sem vegur að lífi og sál.

Kristur verndi mig í dag;
gegn eitri og bruna,
drukknun og sárum,
og veiti að mér vegni vel.
Kristur sé með mér,
Kristur fyrir framan mig,
Kristur fyrir aftan mig,
Kristur inni í mér,
Kristur fyrir neðan mig,
Kristur fyrir ofan mig.
Kristur hægra megin við mig,
Kristur vinstra megin við mig.
Kristur með mér þegar ég ligg,
Kristur með mér þegar ég sit,
Kristur þegar ég rís á fætur:

Kristur veri í hjarta allra sem hugsa um mig,
Kristur á tungu allra sem tala um mig,
Kristur í augum allra sem sjá mig,
Kristur í eyrum allra sem hlýða á mig.
Ég rís upp í dag;
styrktur mætti og ákalla þrenninguna,
trúi á þríeiningu og játa einingu skapara sköpunarverksins.
Því Drottins er hjálpræðið.
Og Drottins er hjálpræðið.
Og Krists er hjálpræðið.

Veri hjálpræðið þitt, Drottinn, með okkur ávallt.

(Ísl. þýð. sr. Gunnþór Þ. Ingason)

hsh


  • Alþjóðastarf

  • Forvarnir

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Kærleiksþjónusta

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju