Kirkjuklukkur hljóma

22. mars 2020

Kirkjuklukkur hljóma

Ein klukkna Háteigskirkju í Reykjavík

Á dögum samkomubanns leitar kirkjan ýmissa leiða til að koma boðskap sínum til fólksins.

Í gær ritaði biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, samstarfsfólki sínu bréf þar sem hún kynnti verkefni sem nokkrir prestar hafa undirbúið. Það kallast: Hádegishljómur í kirkjuklukkum landsins og sameiginleg bænastund hvern dag. Um er að ræða bænastund í kirkjum landsins kl. 12.00 á hádegi hvern dag meðan á samkomubanni stendur. Kirkjuklukkum verður hringt á hádegi í þrjár mínútur - klukkum verður samhringt. Síðan hefst bænastund. 

Ýmsir geta leitt bænastund af þessu tagi, prestar, djáknar, safnaðarfólk. Allt fólk er bænafólk og ekki síst þegar aðstæður allar eru óvenjulegar og það gefur á bátinn. Öllum þykir sömuleiðis gott að vita af því að fyrir þeim sé beðið, sem og fyrir landi og þjóð, á erfiðum tímum í lífi fólksins í landinu – og heiminum. Vitneskjan ein og sér um að einn eða tveir séu að biðja fyrir fólki í kirkjunum getur verið styrkjandi og hvetjandi til bæna heima eða hvar sem er.

Biskup sendi jafnframt með í bréfi sínu helgihaldsform fyrir þessa bænastund sem má notast við í heild eða að hluta - sjá neðar. Hvatti biskup presta landsins til að taka þátt í þessu helgihaldi eftir því sem hægt væri á hverjum stað.

Þessar bænastundir hefjast nú í dag þar sem þvi verður við komið. Engan skyldi því undra þegar kirkjuklukkur fara að óma í bæjum og þorpum sem og dreifbýli klukkan tólf á hádegi í dag og næstu vikurnar. 

Úr bréfi biskups: En við viljum að bænin seytli inn í þeirri hógværð sem er eðli bænarinnar til að gefa fólki tækifæri til þátttöku sem á ekki kost á því að koma til kirkjunnar. Þess vegna er líka gott að hafa ritningartexta og bænir á heimasíðu til að þau sem vilja geti verið með í bæn hvar sem þau eru í hverju hádegi.

Kirkjuklukkurnar kalla fólk til samlíðunar og ábyrgðar. Þær kalla okkur inn til guðsþjónustu og senda okkur út til guðsþjónustu. Á tímum þegar ekki er hægt að fjölmenna í kirkjum landsins, þá er boðskapur klukknanna enn sá sami að við erum bræður og systur og tilheyrum sömu fjölskyldu og berum ábyrgð sem slík.

Verkefni kirkjunnar er að bera hvern einstakling og þjóðina alla á bænarörmum. Við skulum sameinast í því, eins og ávallt, og nú einnig með þessum hætti.

Kirkjan.is hafði samband við sr. Jónu Hrönn Bolladóttur til að spyrja hana um hvernig þessi hugmynd hefði komið til.

„Ég var á leiðinni heim til mín úr vinnunni um daginn,“ segir hún glöð og einbeitt í bragði, „bænahópur kvenna í kirkjunni hafði verið færður til í stærra rými út af tveggja metra fjarlægðarkröfunni.“ Sr. Jóna Hrönn segir að þetta hafi verið yndisleg bænastund og konurnar hafi farið út með þá vissu í hjarta að þær mættu aldrei hætta að biðja og allra síst í þessum samfélagslegu aðstæðum. Í huga hennar hafi komið sú hugmynd hvað það gæti orðið öflugt og dýrmætt ef fleiri væru með þeim – það þyrfti að kalla fólk til bæna. Og hún spurði sig: „Hvernig væri nú að nota kirkjuklukkurnar í þessum óvenjulegu aðstæðum?“

Klukkur kalla til kirkju, og klukkur eru í öllum kirkjum og búa yfir fallegum hljómum. Auðvitað ætti að hringja þeim á undan hverri bænastund. Svo er hljómur kirkjuklukknanna jákvæður, kallar fólk til fagnaðarerindisins – minnir á upprisuboðskap trúarinnar.

Sr. Jóna Hrönn kynnti þetta fyrir ýmsum og hugmyndin féll í góðan jarðveg og var rædd og mótuð af nokkrum prestum, allir lögðu sinn skerf fram. Og hér fyrir neðan er form bænastundarinnar eins og áður sagði.

Allir sem vilja geta tekið þátt í þessum bænastundum, hver á sínum stað og sinni stund, hvort heldur fólk er heima hjá sér, í sóttkví, á vinnustöðum eða úti við. Það veit að á hádegi hvers dags er fólk að biðjast fyrir í kirkjum landsins vítt og breitt. Það sameinast í bæn – og allir eru í einum anda. Svo sannarlega Dagleg bæn um landið allt.

hsh


Margar kirkjuklukkur eru lífsseigar og hafa sögur að segja.
Þessi er á kirkjuvegg Mosfellskirkju í Mosfellsdal.

 

                                           Dagleg bæn um landið allt 

Klukknahringing og fyrirbæn Form fyrir sameiginlegar bænastundir í sóknarkirkjum á Íslandi

Kirkjuklukkurnar hringja til bænar, samlíðunar og samábyrgðar á Íslandi.

Kirkjuklukkurnar hringja og minna okkur á að jörðin er heimili okkar. 

Kirkjuklukkurnar hringja til varnar lífinu. Jörðin er í háska stödd. Allt sem við viljum af henni njóta skulum við henni gjöra. 

Kirkjuklukkurnar hringja til iðrunar og yfirbótar, til nýrra lífshátta, til persónulegrar ábyrgðar og virðingar fyrir lífinu. 

Kirkjuklukkurnar hringja í þökk fyrir lífið, því fögur er foldin, heimili okkar, góð er hún börnum sínum og takmarkalaus er útsýnin mót ómælisdjúpum himingeimsins. 

Kirkjuklukkurnar hringja í bæn fyrir lífi jarðar: Mannkyn megi vaxa í samlíðun, jöfnuði, heilbrigði og samábyrgð. Hreinn sjór vefji landið okkar örmum, tær vötn renni til hreinna stranda, hreinir vindar blási um jarðalendur og vitur hjörtu styrki hlýjar hendur (úr bænabók). 

Signing 

Ritningarlestrar: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ (Jóh. 14.27) 

„Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni. Því að ég, Drottinn er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“ (Jes. 41.10,13) 

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig, hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Eigi er það orð á tungu minni að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst og hönd þína hefur þú lagt á mig.
Sú þekking er undursamlegri en svo að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
Hvert get ég farið frá anda þínum, hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. (Sálmur 139) 

„Því að ég, Drottinn er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“ (Jes. 41.13) 

„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt.11.28) 

„En ég hrópa til Guðs og Drottinn mun hjálpa mér.

Morgun, kvöld og miðjan dag kveina ég og styn og hann bænheyrir mig. (Sálmur 55. 17-18) 

„Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 

Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Fil. 4.6) 

„Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. 
Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. 
Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.“ (Sálmur 90)

„Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn.“ (Jes. 29.11-14a) 

Bænir 

Guð allrar huggunar. Við biðjum fyrir sjúkum og sorgmæddum, öllum sem skortir heilsu og styrk og þeim sem áhyggjur þjaka. Við biðjum sérstaklega fyrir þeim sem veikst hafa af völdum Covid-19 veirunnar. Vertu með þeim öllum. Hjálpaðu og líknaðu þeim sem þjást og syrgja. Styrktu þau í trúnni og vektu hjá þeim von og traust. 

Við biðjum fyrir heilbrigðisstarfsfólki og öllum sem búa við mikið álag um þessar mundir við að fyrirbyggja vá og vakta stöðuna almenningi til heilla. Vertu með þeim öllum og hjálpaðu þeim og okkur að takast á við þessa vá af yfirvegun og skynsemi, minnug þess að í samfélagi okkar eru aldraðir ástvinir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem okkur ber að vernda með því að sýna ábyrgð. Gefðu okkur styrkt til að láta óttann ekki ná tökum á okkur, minnug þess að meðal okkar eru ungar og viðkvæmar sálir sem óttinn getur líka leikið grátt. 

Við biðjum þess, góði Guð, að þegar þetta allt er yfirstaðið höfum við lært að vera þakklát fyrir eitt og annað sem okkur hættir til að ganga að sem vísu, svo sem innilegum samskiptum við vini og vandamenn, mannfagnaði og samfélagi við aðra, ferðafrelsi og óttaleysi. Hjálpaðu okkur að muna að ekkert af þessu er sjálfsagt, að þetta eru lífsgæði sem okkur ber að vera þakklát fyrir. 

Miskunnsami Guð. Við biðjum þig að gera okkur ævinlega minnug þess, þegar þetta allt er yfirstaðið, að þau sem björguðu okkur voru heilbrigðisstarfsfólk, ræstitæknar og umönnunarstéttir. Við þökkum þér fyrir dugnað og elju þeirra og biðjum þig að vaka yfir þeim og blessa störf þeirra. Opnaðu augu okkar, góði Guð, fyrir því hver þau eru meðal okkar sem gegna raunverulegum ábyrgðarstörfum í almannaþágu. 

Við þökkum þér, Guð almáttugur, að við getum komið fram fyrir þig og lotið höfði í bæn, fullviss þess að þú heyrir bænir okkar. Ekkert er þér hulið. Þú þekkir hugrenningar okkar álengdar og veist hvað okkur býr í brjósti á hverri stundu betur en við sjálf erum fær um að færa í orð. Amen 

Þögn til hljóðrar bænar. 

Heimsfaraldursbæn

Mættum við sem verðum fyrir minni háttar óþægindum vegna veirunnar minnast þeirra sem eru í lífshættu.

Mættum við sem höfum engan undirliggjandi vanda minnast þeirra viðkvæmustu.

Mættum við sem búum við þau þægindi að geta sinnt vinnu okkar heima minnast þeirra sem þurfa að velja á milli þess að halda heilsu eða eiga fyrir leigunni.

Mættum við hafa nægan sveigjanleika til að annast börnin okkar þegar skólastarf er takmarkað og minnast þeirra sem hafa ekkert val.

Mættum við sem þurfum að hætta við ferðalagið okkar minnast þeirra sem eiga sér engan áfangastað.

Mættum við sem verðum af hagnaði í umróti fjármálamarkaðarins minnast þeirra sem alls engan hagnað hafa.

Mættum við sem komum okkur notalega fyrir í sóttkví heima minnast þeirra sem eiga í engin hús að venda. Þegar óttinn grípur um sig skulum við velja kærleikann.

Á meðan við getum ekki vafið hvert annað örmum bókstaflega skulum við finna leiðir til að vera kærleiksríkt faðmlag Guðs til náunga okkar. Amen.
(Af fasbókarsíðunni The Celtic Christian Tradition eftir Cameron Bellm. Íslensk þýðing: María Guðrúnar. Ágústsdóttir ).

Þögn til hljóðrar bænar 

Skapari, frelsari, heilagur andi, þú mætir okkur í samferðafólki okkar. Þökk sé þér fyrir manneskjurnar sem þjóna samfélaginu af hugsjón, einurð, kærleika og spara hvergi krafta sína á krefjandi tímum. Við nefnum sérstaklega hér heilbrigðisstarfsfólk, Almannavarnir og Landlæknisembættið, þau sem standa í stafni og stýra ráðum svo heilsa okkar til líkama og sálar megi varðveitast sem best. Vertu þeim sú uppspretta visku, æðruleysis og auðmýktar sem andi þinn einn fær ráðið og stýrt. Gefðu okkur sem þjóð einn hug eitt hjarta og eyra til að heyra andvörp náungans, einsemd og kvíða. Gefðu okkur kjark til að elska og annast hvert annað elsku Jesús Kristur. Amen.

Þögn til hljóðrar bænar

Ástríki Guð. Þú þekkir líf okkar allra og umhverfi, fjölskyldu, störf, áhugamál og framtíðarplön. Það sem meira er, þú veist hvernig okkur líður og af hverju okkur líður eins og okkur líður. Þú þekkir gleði okkar og tilhlökkunarefni, þú þekkir væntingar okkar og sjálfstraust, draumana okkar en þú þekki líka óttann okkar, áhyggjurnar, efann, kvíða, depurðina og sorgina, reiðina, sektarkenndina, skömmina, gremjuna, öfundsýkina, afbrýðisemina, óöryggið. Þú lest okkur eins og opna bók og þekkir okkar dýpstu hugsanir og samt, þrátt fyrir allt og allt þá elskarðu okkur og gengur með okkur. Þrátt fyrir allt gafstu son þinn svo við mættum lifa. Hjálpa okkur Guð að horfast í augu við þessa undursamlegu staðreynd að þú ætlar aldrei að yfirgefa okkur og jafnvel þótt við missum trúna á þig, hættir þú aldrei að trúa á okkur. Amen.

Þögn til hljóðrar bænar

Lifandi, eilífi Guð.
Þegar þetta ástand er yfirstaðið,
gef að við munum aldrei taka neinu í lífinu sem sjálfsögðu; handabandi við ókunnuga, fulla búð matar, samtali við nágranna, sneisafull samkomuhús, föstudagskvöldi með vinafólki, bragði og áhrifum altarissakramentisins, árvissri læknisheimsókn, örtröð við barnaskóla, kaffisopa með félaga, ys og þys á vellinum, hvern andardrátt, dauflegan þriðjudag, lífinu sjálfu.
Þegar þessu lýkur,
gef að við upplifum að við séum orðin líkari þeim sem við vildum líkjast, þeim sem við vonuðumst til að verða, og við biðjum þess að við megum varðveita áunna eiginleika til þess að við getum staðið með þeim sem minna mega sín á erfiðum tímum.
(Laura Kelly Fanucci/Þýðing Ása Björk Ólafsdóttir)

Þögn til hljóðrar bænar

Lifandi Guð, takk fyrir íslenska vorið og sumarið sem óðum þokast nær, fyrir fuglasöng dags og nætur, ilm af nýslegnu grasi og gróðurskúr, fyrir frí frá vinnu og fyrir samveru með fjölskyldu, fyrir náttúruna sem umlykur okkur með krafti sínum og óumræðilegri fegurð, fyrir göngu, hjól og reiðtúra, fyrir grillaðar pylsur og börn með grasgrænku í fötum, fyrir unglingana með orkudrykkina og Snapchattið sem spretta fram úr hýði sínu og sjá til sólar. Fyrir gamla fólkið sem getur loks gengið óstutt um auðar götur og tyllt sér á bekki, andað að sér sumrinu og yljað sér við geisla sólar og minninga. Umfram allt Drottinn þökkum við þér sumarið sem þú hefur boðið okkar að meðtaka allan ársins hring, sumar upprisunnar þar sem vonin er alltaf til staðar, líka þegar við erum veik, hrædd, sorgmædd og buguð en sjáum glitta í páskasól bak við ský og svo dregur frá af því að þannig er lífið góði Guð, þökk sé þér, að enginn þjáning er endalaus, að sumarið þitt, lífið með þér er sterkara en óttinn, græðgin og skeytingarleysið. Við þökkum fyrir allar manneskjur sem feta þinn veg og kenna okkur sem erum þeim samferða að lifa fallega og fara fallega með lífið, taka því sem gjöf og ávaxta það öðrum til blessunar og þér til dýrðar. Við þökkum fyrir allt hugsjónafólk sem gefst aldrei upp þótt móti blási, fólk sem finnur nýjar leiðir til að hjálpa öðrum, fólk sem hefur alltaf trú á manneskjunni og getu hennar til að vera heilbrigð, gefandi og sátt. Hjálpaðu okkur góði Guð til að byggja upp réttlátt samfélag í þessu landi, þar sem velferð manneskjunnar, heilsa hennar og andleg líðan er sett í forgrunn, þar sem börnum er sinnt af natni, á þau hlustað og við þau talað, þar sem hælisleitendur eiga skjól og að þeim hlúð, þar sem konur og karlar eru jöfn í orði sem á borði, þar sem kynbundin mismunun er ekki liðin, ofbeldi eða áreitni. Gefðu okkur Drottinn augu þín að við sjáum hvert annað í birtu kærleika og miskunnsemi. Amen.

Við þökkum þessa stund og felum allar okkar bænir í bæninni sem þú kenndir okkur.

Faðir vor...

Kristur, lát kirkju þína hringja helgi og frið inn í hjarta mitt.

 

 

 
  • Biskup

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

  • Menning

  • Samfélag

Vetrarmynd af Hallgrímskirkju í Reykjavík

Myrkir músikdagar

24. jan. 2025
...í Hallgrímskirkju
Skrifstofa_nordurland.jpg - mynd

Skrifstofa biskups Íslands verður á Norðurlandi í vikunni

22. jan. 2025
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, flytur skrifstofu sína á Norðurland. Boðið verður upp á opna viðtalstíma á Húsavík og súpufund á Akureyri.
Kristján Björnsson vígslubiskup

Vígslubiskup prédikar í Eyjamessu

22. jan. 2025
...í Bústaðakirkju