Stutta viðtalið: Ein á vakt í útnorðri

26. mars 2020

Stutta viðtalið: Ein á vakt í útnorðri

Þórshafnarkirkja - vígð 1999

Hún heitir Jarþrúður Árnadóttir.

Séra Jarþrúður er prestur í Skinnastaða- og Langanesprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi. Óskaplega langt nafn, rétt er það. Í prestakallinu búa um sjöhundruð manns og kirkjurnar eru alls sjö. Hún starfar við hlið prófastsins sem býr á Skinnastað, sr. Jóns Ármanns Gíslasonar. Hann sinnir Garðs,- Skinnastaðar,- Snartarstaða- og Raufarhafnarsóknum – í hinu víðfeðma prestakalli. Enda þótt sr. Jarþrúður starfi við hlið hans er langt á milli þeirra.

Séra Jarþrúður býr á Þórshöfn og sinnir þar hátt í fjögur hundruð manns í tveimur sóknum, Þórshafnar og Svalbarðs. Kirkjurnar eru þrjár, Sauðanes, Svalbarð og Þórshöfn.

Sr. Jarþrúður hefur ekki verið prestur lengi enda er hún ung kona. Vígð um miðjan september á síðasta ári, 99da konan til að hljóta vígslu á Íslandi. Hún bjó á Þórshöfn til átta ára aldurs en þá flutti hún til Akureyrar en þar er hún fædd. Móðir hennar er ættuð frá Læknesstöðum á Langanesi og Eiðum úti á Nesi og faðir hennar frá Veðramótum við Bakkafjörð. Og sjálf var sr. Jarþrúður skírð á sínum tíma í Sauðaneskirkju af sóknarprestinum. Hún er því landsbyggðarkona í hjarta og sinni.

Og komin aftur til Þórshafnar.

Það er hin sígilda spurning sem alltaf er nauðsynlegt að spyrja og enn nauðsynlegra að svara: Hvernig er veðrið á Þórshöfn?

„Það er gott eins og er, sólin skín og það er dálítil gola. Hiti eitt stig,“ svarar sr. Jarþrúður og kirkjan.is kinkar kolli hinu megin lyklaborðsins. Fyrst veðrið er svo mjúkt og fallegt knýr veðursiðferðileg nauðsyn til að spyrja um veðrið í vetur:

„Það hefur verið brjálað síðan ég flutti hingað,“ svarar ungi presturinn. „Hvert óveðrið á fætur öðru, rafmagnsleysi í nokkra daga og mjög þungfært.“ Kirkjan.is hugsar til hvernig bílakostur sr. Jarþrúðar sé og hún svarar að bragði: „Chevrolet Captiva, keypti hann í haust.“ Hm, það er sjevrólettinn sem grípur allt föstum tökum, hugsar kirkjan.is. „Menn hér um slóðir segjast ekki hafa séð svona mikinn snjó í yfir tuttugu ár!“ segir presturinn.

Séra Jarþrúður hefur haft um hönd öll prestsverk eftir að hún vígðist nema fermingar – reyndar fermdi hún í Noregi þegar hún starfaði þar um skeið sem óvígður guðfræðingur.

Frá heimili hennar á Þórshöfn eru ekki nema fimmtíu metrar heiman frá henni og út í kirkju. Að Svalbarðskirkju og Sauðaneskirkju er um stundarfjórðungsakstur. Þórshöfn og Sauðanes eru ein sókn, með tvær kirkjur – svo er Svalbarðssókn. Einu sinni á ári er messað í Sauðanesi.

Samfélagið er við ysta haf ef svo má segja og nú um stundir er fremur rólegt yfir því. Sr. Jarþrúður er lítið á ferðinni eins og sakir standa vegna kórónafaraldursins sem geisar en hann hefur ekki knúið dyra í þessum landshluta – enda vilja læknarnir þar eystra loka honum.

En fólkið veit að ungi presturinn er á vaktinni og hún hefur látið sóknarbörnin vita af því á Facebókar-síðu sóknanna: Þórshafnar & Sauðanes & Svalbarðskirkja en þar mælir hún þessi uppörvandi orð til þeirra í ljósi þess að allt starf hefur verið sett til hliðar um stund:

Skilaboð „Ég mun samt sem áður verða til staðar fyrir ykkur ef þörf er á sálgæslu eða ráðgjöf þannig að ekki hika við að hafa samband við mig. Munum að þetta er aðeins tímabundið ástand sem mun ganga yfir og reynum að halda í bjartsýni og jákvæðni og sýna hvort öðru stuðning og náungakærleik.“

Sr. Jarþrúður er með plön um að hafa fjarhelgistundir eins og víða hafa verið – og þær vel þegnar.

En lífið gengur sinn vanagang hjá sr. Jarþrúði. Hún fer í Kjörbúðina – það var eitt sinn kaupfélag. „Góð búð,“ segir presturinn ungi, „gott verð og mikið vöruúrval.“ Hittir þar fólk og spjallar við sóknarbörnin. En Kjörbúðin hefur líka sérstakan opnunartíma fyrir þau sem eru viðkvæm gagnvart kórónusmiti.

„En ég hef áhyggjur af eldra fólkinu og einangrun þess,“ segir sr. Jarþrúður. Heimsóknir á elliheimilið voru bannaðar fyrir allnokkru – einnig á leikskólann – til að verja þau sem eru viðkvæmust fyrir veirunni. Einnig hefur heilsugæslan lokað almennri afgreiðslu en tekur vitaskuld við neyðartilvikum.

Sr. Jarþrúður býr ein í stórum prestsbústað.

„Hann er svona um 170 m², kyntur upp með rafmagni,“ segir hún og bætir því að hann sé náttúrlega alltof stór fyrir eina manneskju. „Jafnvel þótt hún hafi kött,“ segir hún hlæjandi. Þegar hún kom þangað norður tók hún að sér kött sem ber það virðulega nafn Frú Agnes.

Samtalinu lauk við sr. Jarþrúði með skemmtilegum hætti þegar hún sagði glöð í bragði: „Nú þarf ég að drífa mig upp í kirkju til að hringja kirkjuklukkunum í þrjár mínútur og hafa svo stutta bænastund.“

Nú óma bænaklukkur yfir Þórshöfn eins og svo víða á landinu meðan á samkomubanni stendur og minna á fagnaðarerindið.

Sr. Jarþrúður er í hópi fjölmargra ungra presta sem vígðir hafa verið á síðustu misserum og farið út á land. Kirkjan er heppin að eiga að skipa svo kröftugum prestum af báðum kynjum sem hafa þá köllun að þjóna kirkjunni hvort heldur í strjálbýli eða þéttbýli.

Kirkjan er svo sannarlega í sókn!

hsh


Sr. Jarþrúður og Frú Agnes


Frá vígsludegi sr. Jarþrúðar 15. september s.l. 
Vígsluþegar ganga úr kirkju, sr. Jarþrúður, sr. Dagur Fannar Magnússon,
sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson, sr. Alfreð Örn Finnsson,
þá Daníel Ágúst Gautason, djákni, og Steinunn Þorbergsdóttir, djákni.

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju