Þjónusta á sjúkrahúsum

28. mars 2020

Þjónusta á sjúkrahúsum

Sr. Díana Ósk við guðsþjónustu á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi

Á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi starfa prestar og einn djákni eins og kunnugt er. Þegar alvarlegur faraldur geisar þyngist álagið til muna á öll þau sem sinna hinum sjúku inni á sjúkrastofnunum. Þar eru vitaskuld læknar, hjúkrunarfólk og sjúkraliðar, í fremstu víglínu ásamt öðru starfsfólki

Þar eru og sjúkrahúsprestarnir og sjúkrahúsdjáknarnir.

Þau sinna hinum sjúku og deyjandi með sérstökum hætti. Sinna aðstandendum og vinum. Þar hefur nándin skipt miklu máli. Þétt handaband. Faðmlag. Létt og mjúk snerting á axlir. Grátið við öxl. Þögn í nálægð. Finna aðra manneskju og heyra andardrátt hennar sér við hlið. Manneskju sem lætur sér annt um aðra.

En nú eru þeir tímar að slíkt nánd er úr leik – henni hefur verið vísað af velli, fengið rautt spjald. Já, er í raun bönnuð. Það er sem stórt stykki hafi verið numið úr mennskunni um stund. Tveggja metra fjarlægðarregla milli fólks er orðin að gullinni reglu – til verndar.

En hvað er þá til ráða?

Starfsfólk sem sinnir sjúklingum sem smitaðir eru af kórónaveirunni klæðist sérstökum hlífðarfötum. Það kannast allir við af myndum úr fjölmiðlum. Sá klæðnaður segir einn og sér að tímarnir eru breyttir og undarlegir.

Kirkjan.is hafði samband við einn sjúkrahúsprestinn, hana sr. Díönu Ósk Óskarsdóttur, en hún starfar á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Prestarnir þar eru sjö og einn djákni sem stýrir hinum geistlega hópi, er deildarstjóri, – og sex þeirra skipta með sér vöktum.

„Jú, við klæðumst hlífðarfatnaði þegar við sinnum þeim sem sýkt eru af covid19-veirunni,“ segir sr. Díana Ósk.

Hún segir að sjúkrahúsið geri að sjálfsögðu allt sem í valdi þess stendur til að halda allri umgengni við hina sjúku í lágmarki. Það eru auðvitað margir á sjúkrahúsunum sem ekki eru smitaðir af veirunni og það verði að vernda þá sjúklinga sérstaklega – og sumir þeirra eru það veikburða að kórónuveirusmit gæti orðið þeim að aldurtila.

„Við göngum vaktir eins og sagt er hér á sjúkrahúsinu,“ segir sr. Díana Ósk, „erum stoðstétt sem hittir covidsmitaða sjúklinga.“ Hún segir að covidsmitaðir sjúklingar geti óskað eftir samtali við sjúkrahúsprestana og djáknann. Þá geti starfsfólk sjúkrahússins, læknar og hjúkrunarfólk, vakið athygli á þessari þjónustu telji þau að viðkomandi þurfi á henni að halda. Og það sé iðulega gert.

En það þarf líka að hugsa um starfsfólkið á þessum válegu tímum. Við sjúkrahúsið er Stuðnings- og ráðgjafateymi sem sinnir starfsfólki og er sr. Díana Ósk hluti af því teymi.

Hlutverk sálusorgara í þessum aðstæðum er mikilvægt. Enda þótt trúin gefi ekki mörg svör við því hvers vegna slík heilsuógn sæki suma heim og aðra ekki. Sálusorgarinn er umfram allt með og hjá fólki í slíkum sálar- og lífsháska, biður með því og fyrir því, finnur til með viðkomandi og reynir að uppörva með skynsamlegum og trúverðugum hætti. Þá er og mikilvægt að sjúklingurinn sé aldrei einn og allra síst þegar lífið stendur tæpt. 

En svo má ekki heldur gleyma því að mörg endurheimta heilsu sína – og það ber að þakka. Á sama hátt og þakkarvert er að eiga gott heilbrigðiskerfi sem sinnir öllum óháð efnahag. Heilbrigðisstarfsfólk – hvar í hópi og teymi sem það stendur innan kerfisins - leggur dag við nótt við að þjóna öðrum. Það er fagurt og gott enda einn sterkasti þátturinn í kristinni trú: að þjóna öðrum.

Landspítali - Sálgæsla presta og djákna

hsh


  • Forvarnir

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju