Kirkjan hugsar um fólkið

30. mars 2020

Kirkjan hugsar um fólkið

Öflug kirkja í þjónustu fólksins

Þegar samkomubann stendur yfir og almennur samgangur milli fólks verður minni en áður er mikilvægt að grípa til nýrra og gamalla leiða til að hafa samband. Maður er jú manns gaman.

Kirkjan er samfélag fólks og þess vegna raskar samkomubannið öllu starfi hennar gífurlega mikið. Þá er að finna leiðir og aðlaga sig að tímabundnum aðstæðum. Og það gerir kirkjan.

Síminn er eitt af lykiltækjunum á veirutímum þegar hversdagslegt líf borgaranna raskast með þeim hætti sem engan gat órað fyrir.

Glerárkirkja auglýsti nýlega sérstakan samtals-og sálgæslusíma, númerið er 464-8801. Það er nýjung. Á milli klukkan 10.00 að morgni og til klukkan 13.00 er opin lína hjá prestum og djákna kirkjunnar. Fólki er boðið að ræða hvað sem er, um hinn fræga dag og veg, áhyggjur sínar og vanlíðan, vonir og þrár.

„Þessi hugmynd kviknaði hjá mér þegar við vorum að skipuleggja viðveru starfsfólks í kirkjunni meðan þessi faraldur gengur yfir,“ sagði sóknarpresturinn sr. Sindri Geir Óskarsson, þegar kirkjan.is hafði samband við hann og spurði ögn út í þetta tiltæki þeirra norðanmanna. 

Hann segir að þau, sr. Stefanía Guðlaug Steinsdóttir og djákninn Sunna Gunnlaugsdóttir, reyni að vinna mikið heima og skipta því á milli sín að vera í Glerárkirkju.

„Það er símatími alla daga og alltaf eitthvað um sálgæslusímtöl og Hjálparstarfsbeiðnir sem koma símleiðis,“ segir sr. Sindri Geir, „og til þess að við næðum að dekka símann þrátt fyrir minni viðveru ákváðum við að fá bara beint númer og skiptumst á að svara því ef fólk vill spjalla eða hefur þörf á sálgæslu.“ Hann segir að eftir kl. 13.00 fari símsvari í gang sem beini fólki á hjálparsíma RKÍ 1717, eða inn á heimasíðu kirkjunnar þar sem eru bein númer til prestanna ef þörf er á.

Sr. Sindri Geir segir að það sé mikil þörf fyrir samtal.

„Ég hef fengist við það undanfarna daga að hringja í íbúa í blokkum eldri borgara sem eru við hlið kirkjunnar,“ segir sr. Sindri Geir. Margir finna þar fyrir einangrun og ótta að sögn hans, jafnvel depurð og þunglyndi. „Þess vegna stökk ég líka í það með organistanum og barnakórsstjóranum okkar - sem er mögnuð söngkona - að skipuleggja örtónleika í blokkunum næstu föstudaga.“

Sr. Sindri Geir segir að Glerárkirkja sé eina kirkjan sem hafi farið af stað með þessum hætti. „Við ræddum það á fjarfundi prestarnir á svæðinu að þau hin bendi fólki á þetta númer“, segir sr. Sindri Geir. Númerið hefur verið virkt í þrjá daga og nokkuð hefur verið hringt. Hann segir það vera gott ef fólk nýtir sér þessa þjónustu og það eigi eftir að koma í ljós hversu mikið það verði.

Glerárkirkjufólk hefur gert ýmsar tilraunir með streymi frá barnastarfi, helgistundum og fyrirbænastundum. „Það kemur okkur á óvart hvað þetta fær mörg áhorf og hvað fólk er þakklátt fyrir þetta,“ segir sr. Sindri Geir.

Hann telur að kirkjan muni læri mikið af þessum faraldri og hvernig eigi að bregðast við aðstæðum sem þessum. Fyrirbænabeiðnum hefur fjölgað að sögn hans. „Fólk er að skjóta að okkur nöfnum og fyrirbænaefnum“ bætir hann við. „Kirkjan á að styðja fólk í þessari krísu, fólk þarf von og það sækir í trúna.“

Kirkjan.is þakkar sr. Sindra Geir fyrir samtalið og óskar þeim í Glerárkirkju alls hins besta í þessari mikilvægu þjónustu sem þau hafa ýtt úr vör þar sem samtals- og sálgæslusíminn er annars vegar.

Í lokin má ítreka að prestar og djáknar standa vaktir í sínum kirkjum sem eru jafnan höfuðstöðvar safnanna. Þeir eru við símann og eru boðnir og tilbúnir til að rétta fólki hjálparhönd og sálusorga. Þau eru semsé sem fyrr til staðar fyrir öll þau sem þess óska.

Kirkjan hugsar um fólkið! Í kirkjunni er starfandi á annað hundrað prestar og rúmlega tveir tugir djákna: Sóknarprestar, prestar, sérþjónustuprestar og héraðsprestar – og djáknar í margvíslegri þjónustu.

Á heimasíðum margra kirkna er að finna upplýsingar um prestsþjónustu og sálgæslu. Fólk er hvatt til að skoða heimasíður og Facebókarsíður sóknarkirkna sinna þurfi það á kirkjulegri þjónustu á að halda, sálgæslu og aðstoð, samtali um líðan sína, áhyggjur og allt sem liggur því á hjarta.

hsh

Facebókarsíða Glerárkirkju


Heimasíða Glerárkirkju






  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Nýjung

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna
Árbæjarkirkja

Laust starf organista

02. jan. 2025
...við Árbæjarkirkju
Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar