Hjálparstarf á fullu skriði

2. apríl 2020

Hjálparstarf á fullu skriði

Sjálfsbjargarviðleitni

Á þessum óvenjulegu tímum þegar margvísleg starfsemi samfélagsins raskast með ýmsum hætti er Hjálparstarf kirkjunnar á fullu skriði við að aðstoða fólk. Það er fólk sem býr við bágan efnahag, fátækt fólk.

Fátæktin fer ekki í sóttkví.

Fólk getur leitað sem fyrr til Hjálparstarfs kirkjunnar en þó með nýjum hætti í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu.

Fólk sem býr við fátækt getur óskað eftir aðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar að Háaleitisbraut 66, neðri hæð Grensáskirkju, 103 Reykjavík, virka daga klukkan 10.00 – 15.30.

Þar sem samkomubannið dregur ákveðin mörk í samskiptum er fólk beðið um að hringja fyrst í síma Hjálparstarfsins, 528-4400 eða senda tölvupóst á netfangið vilborg@help.is og bóka tíma hjá félagsráðgjafa. Sem fyrr eru það prestar þjóðkirkjunnar sem hafa milligöngu um aðstoð við fólk utan höfuðborgarsvæðis.

Aðstoðin er fyrst og fremst fólgin í inneignarkortum í matvöruverslanir og aðstoð við fólk til að leysa út lyf í neyðartilfellum.

Fatamiðstöð, mönnuð sjálfboðaliðum, hefur hins vegar verið lokað tímabundið.

Öflugt hjálparstarf „Við aðlögum starfið og þjónustuna eftir því sem aðstæður breytast í samfélaginu og undirbúum okkur fyrir aukinn fjölda umsókna um efnislega aðstoð á næstu vikum og mánuðum. Félagsráðgjafar okkar finna að fólk sem býr við efnislegan skort er nú kvíðið og veita því sálrænan stuðning í auknum mæli,“ segir Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar. „Við höldum að sjálfsögðu líka áfram öflugu starfi í þágu fólks sem býr við afar erfið skilyrði í einna fátækustu samfélögum heims.“

Kirkjan.is kannaði málin nánar hjá Hjálparstarfinu og spurði út í stöðu mála. Þær Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi, og Kristín Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi, urðu fyrir svörum.

Þær sögðu að þegar sviptingar yrðu í samfélaginu eins og hefðu verið undanfarnar vikur þá yrðu fleiri hjálparþurfi en áður. Fólk sem hefði unnið á tímakaupi og ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum bankaði nú upp á hjá þeim og eru það aðallega námsmenn og útlendingar í íhlaupastörfum.

Mikilvægt er að huga að fólki sem er eitt heima og hvernig samskiptum við það sé háttað. Einangrun til langs tíma er ekki farsæl.

Fólk er á vissan hátt varnarlausara í þessum undarlegu aðstæðum sem draga ýmsa dilka á eftir sér heldur en það var þegar hrunið gekk yfir. Þá var margur reiður, barði í borð og margt var látið fjúka. Sumt réttmætt og annað ekki – eins og gengur. En nú horfir öðruvísi við – það er við engan að sakast nema veiruskömmina (sem sést nú ekki einu sinni berum augum) sem setur samfélagið á hliðina um tíma. Vilborg telur að styðja þurfi sennilega við bakið á fólki í því hvernig það taki á þessum þætti þegar til lengri tíma er litið.

Kirkjan.is spyr hvort allir skjólstæðingarnir átti sig á tveggjametra-reglunnI:

„Tveggjametra-reglan er virt og hún auglýst – til dæmis með myndmáli á biðstofu Hjálparstarfsins svo útlent fólk átti sig á þessu en við forðumst þær aðstæður að fólk safnist saman,“ segir Hjálparstarfsfólkið.

Stundum ber á því að útlendingar fylgist ekki með hvernig mál standa hér vegna þess að þeir hafa aðrar fregnir úr heimalöndum sínum þar sem tekið er á veirusmiti með öðrum hætti en hér. En aðrir fylgjast mjög vel með málum hér heima. Kirkjan.is veit dæmi um útlent fólk sem hélt að grunnskólum hefði verið lokað alveg – og tók nokkurn tíma að útskýra það að óhætt væri að hleypa börnunum í skólann.

Hjálparstarfið hefur á að skipa sjálfboðaliðum sem fara með matarsendingar í heimahús þegar svo stendur á. Engum má gleyma.

Þess má geta að Hjálparstarf kirkjunnar hefur nú hafið fjársöfnun með því að senda landsmönnum valgreiðslu í heimabanka að upphæð 2400 krónum.

hsh

Hjálparstarf kirkjunnar - heimasíða


  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Hjálparstarf

  • Menning

  • Samfélag

Nemendur frá Egilsstöðum og Seyðisfirði í Farskóla leiðtogaefna
05
jún.

Stutta viðtalið: Áhugasöm ungmenni

Kirkjan þarf engu að kvíða
Hafnarfjarðarkirkja - frá uppskeruhátíð barnastarfsins í fyrra
04
jún.

Barnakirkja

Vegkirkjur, höfuðkirkjur, sjómannakirkjur, dómkirkjur...barnakirkjur?
Stafholtskirkja - mynd: Guðmundur Karl Einarsson
03
jún.

Þau sóttu um Stafholt

Umsóknarfrestur rann út 2. júní