Breytir veiran kirkjunni?

6. apríl 2020

Breytir veiran kirkjunni?

Kórónaveriran verður sigruð - en hvenær?

Guðfræðiprófessorinn Friedrich Wilhelm Graf var í viðtali við þýska ríkisútvarpið í síðustu viku. Kirkjan.is fékk ábendingu um þetta athyglisverða viðtal og fleytir helstu atriðum þess hér sem eflaust vekja áhuga lesenda á þessum sveiflukenndu tímum þar sem óvissa svífur yfir vötnum.

Hvernig tekst kirkjan á við margarvíslegar vangaveltur sem skjóta upp kolli í huga almennings á veirutíma? Hefur hún einhver svör við spurningum og getur hún leiðbeint þar sem óreiðukenndar tilfinningar sækja á? Það eru stórar og smáar spurningar sem þyrlast upp í hversdeginum sem hefur verið umbylt. Er ekki búið að skáka hefðbundinni trú og kirkju til hliðar – söfnuðir orðnir rafrænir?

Friedrich Wilhelm Graf hefur verið áberandi í þýskri þjóðfélagsumræðu á síðustu áratugum og hefur oft vakið athygli fyrir bækur sínar og greinar. Í síðustu viku var hann spurður um mál málanna, veiruna, og viðbrögð þýskra kirkna.

Eru veirufræðingar nýju prestarnir? Graf er fyrst spurður að því hvort náttúruvísindin hafi tekið við sem trúarbrögð nútímans og hvort veirufræðingar séu prestarnir. Hann svarar neitandi en bendir þó á að nú séu uppi aðstæður þar sem náttúruvísindin hafi fyrsta orðið og þjóni mikilvægu hlutverki í pólitísku ráðgjafarhlutverki sínu. Kirkjurnar geri vel í því að samþykkja forystu vísindanna að þessu leyti og minnir á að það væri ekki gott ef þær myndu síðan eftir á eigna handanverulegum kröftum heiðurinn af því að tekið hefði verið á krísunni með uppbyggilegum hætti.

Aðspurður um hlutverk kirknanna og hvernig þær ættu að hvetja fólk áfram segir Graf: „Þetta snýst ekki um hvatningar til að halda ástandið út heldur að taka á móti harðneskju þess og óbilgirni með viðeigandi hætti og að miðla því. Á undanförnum vikum hefur orðið vart við tilraunir til að fegra ástandið og ef maður tekur grunnhugmyndir trúarlegrar miðlunar alvarlega þá verður að segjast: það þarf að horfast í augu við vægðarleysi ástandsins, það þarf að horfast í augu við áskoranir þess. Nú er þetta nauðsynlegt.“

Graf bendir á að kirkjur hafi brugðist við með mismunandi hætti. „Það verður að greina á milli sviða. Margir söfnuðir standa sig frábærlega, bæði prestar og safnaðarmeðlimir; hér í München veit ég um presta sem á hverjum degi taka upp hlaðvarp, setja upp youtube-rás þar sem þeir fjalla um ástandið. Ég veit um söfnuði þar sem yngri safnaðarmeðlimir hringir í þá eldri eru til þess að þeir einangrist ekki. En svo er það hitt sviðið, og þar á ég við opinberan málflutning áhrifamikilla kirkjuleiðtoga, og þar hefur gætt mjög margvíslegra grasa og sumt er hreinlega vandræðalegt.“

Þegar Graf er spurður nánar út í hvað hann sé að gagnrýna svarar hann því til að í Þýskalandi standi nú umræða yfir um kerfismikilvæg störf og að nauðsynlegt sé að hækka laun þeirra stétta sem mikið mæðir nú á. Allir séu sammála um mikilvægi umönnunar- og hjúkrunarstarfa og að heilbrigðiskerfið virki sem skyldi en engu að síður eru laun margra innan kerfisins lág. Frá forystumönnum kirkjunnar hefur þó ekki mikið heyrst og Graf spyr hvort kirkjurnar hafi eitthvað um það mál að segja? Að hans mati sé þess vegna hið almenna safnaðarstarf sterkara en forystan.

Kirkjan stafræn Graf vekur athygli á því að þegar kirkjustarf hefur nú færst mikið yfir á stafrænt form að þá verði til nýir möguleikar sem geta bæði opnað en líka útilokað. Hann ítrekar að krísur afhjúpi þætti í samfélaginu sem oft eru huldir, t.a.m. stéttaskiptingu og útilokandi misskiptingu, og að þess sjái einnig stað nú. „Í samfélaginu er margt fólk sem hefur ekki sama aðgengi að stafrænum miðlum og flest yngra fólk sem taka þeim sem sjálfsögðum. Að því leyti verður að huga að skuggahliðum þessarar þróunar.“ Mikilvægt sé að eldra fólk sem ekki hafi tæknilega kunnáttu eða aðgengi upplifi sig ekki skilið eftir því það sé einmitt þetta fólk sem tilheyrir þeim hópi sem er í sérstakri áhættu
Að mati Graf standa kirkjur frammi fyrir grundvallaráskorun í trúarlegri miðlun því þau samkomuform sem við höfum gengið út frá eru ekki möguleg. „Við erum andspænis mjög þversagnakenndu ástandi. Við höfum alltaf kennt að hlýhugur gagnvart öðru fólki sé ætíð einhverjum þræði líkamlegur, þ.e.a.s við tökumst í hendur, föðmumst o.s.frv. Og nú erum við í slíkri aðstöðu að samkennd og samúð er ekki miðlað með líkamlegri nálægð heldur einmitt með félagslegri fjarlægð. Þetta er mjög erfitt. Og þetta beinist að grunnstoðum kirknanna. Þær geta ekki haldið úti venjulegum útförum sem skipta gífurlega miklu máli þegar um trúarlega miðlun er að ræða.“ Að hans mati var það jákvætt framtak að þýska mótmælendakirkjan stóð fyrir stafrænum útsendingum fyrir þau sem ekki gátu verið viðstödd útfarir.

Graf er spurður um þann tilvistarótta og mögulega trúarkrísu sem slíkar aðstæður kunni að kalla fram og hann svarar:

Hugrekkið „Þegar við tölum um tilvistarótta er fyrsta boðorðið alltaf hið sama: maður má ekki tala slíkan ótta burt frá sér. Ótta verður að taka alvarlega. Guðfræðingurinn Paul Tillich, einn áhrifamesti guðfræðingur mótmælenda á 20. öld, sem var útlegð í Bandaríkjunum, hann bjó til hugtakið „hugrekki til að vera“ (the courage to be) og það er einmitt í óttanum sem við verðum að efla hugrekki fólks svo það sjái það sem er raunverulega mikilvægt. En það þýðir líka að við verðum að taka óttann alvarlega.“ Að mati Graf mun fólk bregðast á mismunandi hátt við þeim aðstæðum sem upp eru komnar, sumir með bæn og hugleiðslu, aðrir ekki - um það er ekki hægt að alhæfa.„Sannarlega munu þó margir spyrja um merkingu hlutanna og hvað sé eiginlega að gerast. Við upplifum öll nú um stundir hversu brotthættur grundvöllur lífs okkar er: allt samfélagið, stofnanir þess og pólitíkin, og hin hversdagslegu samskipti, eru viðkvæm sem opin kvika. Nú gildir hinn forni trúarlærdómur: Herra, kenndu mér að íhuga að ég mun deyja, kenndu mér líka að lifa. Sannarlega eru þetta slíkir tímar að fólk styrkist af því að horfast í augu við tilvistarlegar grundvallarspurningar á borð við þessar."

hsh


Dr. Friedrich Wilhelm Graf - fæddur 1948 - prófessor
í trúfræði og siðfræði við háskólann í München


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju