Allt er öðruvísi

9. apríl 2020

Allt er öðruvísi

Rósa Kristjánsdóttir, deildarstjóri sálgæslu djákna og presta, fyrir altari, sr. Vigfús Bjarni Albertsson, og fjær sr. Ingólfur Hartvigsson

Kórónuveirufaraldurinn sem hefur geisað og er ögn farinn að láta undan hefur breytt ýmsu í starfi kirkjunnar.

Þjónusta sjúkrahúspresta og djákna á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi um þessa páska er með öðrum hætti en áður. Venja er að hafa guðsþjónustur á öllum stærri starfsstöðvum sjúkrahússins á páskum og öðrum stórhátíðum kirkjunnar fyrir utan hefðbundið helgihald á sunnudögum.

En þessir páskar eru öðruvísi en aðrir páskar.

Já, margt er svo sannarlega með öðrum brag en áður og það hefur ekki farið fram hjá neinum.

Ein guðsþjónusta fyrir Landspítala-Háskólasjúkrahús var tekin upp fyrir nokkru og verður hún sýnd á páskadag kl. 9.00 og kl. 15.00 í sjónvarpskerfi sjúkrahússins á rás 53. Hana verður einnig að finna á vef spítalans, þeim innri sem og hinum ytri, og í samskiptamiðlum hans: Workplace og Facebook.

Kirkjan.is ræddi við sr. Ingólf Hartvigsson, sjúkrahúsprest. Hann sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem guðsþjónustuhaldið væri með þessu sniði á spítalanum. „Við höfum reynt eftir fremsta megni að auglýsa þetta sem víðast og sett upp veggspjöld svo enginn missi nú af þessu. Einnig höfum við beðið þau sem sinna fólki í einangrun að láta vita af guðsþjónustunni,“ segir sr. Ingólfur. „Vonandi man starfsfólkið eftir þessu á páskadag!“

Guðsþjónustan er ólík hefðbundnu helgihaldi sjúkrahússins þar sem að flestir prestanna á sjúkrahúsinu og djákninn koma að undirbúningi og eru þátttakendur í einni og sömu guðsþjónustunni. Sr. Vigfús Bjarni Albertsson flytur hugleiðingu og þau hin ganga í ýmis hlutverk þjónustunnar: Sr. Eysteinn Orri Gunnarsson, sr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, sr. Gunnar Rúnar Matthíasson, sr. Ingólfur Hartvigsson, Rósa Kristjánsdóttir djákni og sr. Sveinbjörg Katrín Pálsdóttir.

Organisti við guðsþjónustuna er Helgi Bragason og Ingunn Hildur Hauksdóttir er forsöngvari.

Engir prestar? Þegar fólk sér guðsþjónustuna á páskadag getur verið að það reki upp stór augu og haldi að læknaliðið hafi tekið völdin af kennilýð spítalans! Öll eru þau, prestarnir og djákninn, í hvítum spítalafötum eða hlífðarfötum eins og læknar og hjúkrunarfólk. „Það er enginn skrúði, alba, stóla eða hökull vegna kórónuástandsins,“ segir sr. Ingólfur.

Það var Ásvaldur Kristjánsson á samskiptadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss sem sá um upptökuna á fjórðu hæðinni á Landspítala í Fossvogi. Stundin tekur um hálfa klukkustund. 

Sr. Ingólfur segir í lokin að þessi stund hafi verið dýrmæt fyrir þau, prestana og djáknann, vegna þess að þau hafi lítið sem ekkert hist undanfarnar vikur út af kórónufaraldrinum. Hver verið á sínum stað. „Það var því gott að eiga þess stund saman í bæn og tilbeiðslu,“ segir sr. Ingólfur.

hsh


Sr. Eysteinn Orri Gunnarsson, sjúkarhúsprestur




  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna
Árbæjarkirkja

Laust starf organista

02. jan. 2025
...við Árbæjarkirkju
Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar