Íslenskur guðspjallamaður í Leipzig

11. apríl 2020

Íslenskur guðspjallamaður í Leipzig

Tveir vinir - Benedikt við gröf Bachs. Mynd: Michael Maul

Það hefur verið hefð í nær tvær aldir, eða nákvæmar í 170 ár, að syngja Jóhannesarpassíuna í Tómasarkirkjunni í Leipzig. Og það er ekki nein venjuleg kirkja því að þar hvílir meistarinn sjálfur, fimmti guðspjallmaðurinn.

Og passían var sungin við gröf hans. Í gær. Á föstudaginn langa.

Það er okkar maður, Benedikt Kristjánsson, sem söng passíuna með glæsibrag við undirleik snjallra hljóðfæraleikara.

Hann söng einn – íslenskur guðspjallamaður.

Það var enginn kór í kirkjunni.

Allir bekkir auðir. Engir áheyrendur.

En aldrei fleiri hafa hlustað. Rúmlega tvöhundruð þúsund manns.

Og kórinn, hvar var hann? 

Sálmalögin voru sungin út um allan heim – þátttöku kóra í flutningi Benedikts var streymt í gegnum netið.

Þar sem kórónuveiran hefur breytt ýmsu þá þarf að koma með krók á móti bragði. Benedikt útsetti verkið með þeim hætti að hann ásamt tveimur hljóðfæraleikurum getur flutt það. Yfirleitt er Jóhannesarpassían flutt af hópi fólks, allt frá þrjátíu manns upp í eitt hundrað.

Þetta form passíunnar fékk þýsku tónlistarverðlaunin Opus Klassik sem nýstárlegustu tónleikar ársins 2019, en flutningurinn í Leipzig var sá 10. í röðinni. Tríóið flutti passíuna í Hallgrímskirkju í mars, rétt áður en samkomubann var sett á og þar sungu tónleikagestir í fullri kirkju sálmana með. Ríkisútvarpið útvarpaði þeim flutningi í gærkveldi.

Og áheyrendur – hvar voru þeir?

Heima. Enda er heima best um þessar mundir. Og sér í lagi þegar menningin og trúin kemur til fólksins í þessum búningi.

Öllum var boðið til tónleikanna. Í raun allri heimsbyggðinni ef út í það er farið. Fólk sat heima og fylgdist með í sjónvarpi, síma eða öðrum snjalltækjum. Og meira en fylgdist með. Margir tóku þátt í söngnum heima.

Segja má að þessir tónleikar hafi verið tímamótaviðburður í íslenskri tónlistarsögu – og ekki síður í kirkjutónlistarsögu. Þeir sýna líka hvílíkur listamaður Benedikt Kristjánsson er. Ekki bara á íslenskan mælikvarða heldur heimsmælikvarða.

Tónleikunum var streymt um netið auk þess sem þeir voru í beinni útsendingu á þýskum sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Hér má sjá og hlusta  á tónleikana.

Hver er Benedikt Kristjánsson? Benedikt er fæddur 1987. Hann hóf söngnám 16 ára gamall við Söngskólann í Reykjavík hjá Sibylle Köll og síðan Margréti Bóasdóttur. Samhliða námi söng hann í kórum Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Þorgerður Ingólfsdóttur. Benedikt lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og nam síðan við Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín, þar sem kennari hans var prófessor Scot Weir. Benedikt hlaut 1. verðlaun í alþjóðlegri Bach söngkeppni í Greifswald í júní 2011 og einnig verðlaun áheyrenda. Hann hlaut verðlaun áheyrenda í alþjóðlegu Bach keppninni í Leipzig sumarið 2012 og var valinn Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum það sama ár. Hann hefur tvisvar sinnum hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngvari ársins. Benedikt söng sína fyrstu Jóhannesarpassíu sem guðspjallamaður með Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar árið 2011. Hlutverk guðspjallamannsins og tenórhlutverk í ýmsum óratoríum hafa borið hann í kirkjur og tónleikahús um víða veröld. Foreldar Benedikts eru Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri kirkjunnar, og sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholti. Kona hans er Angela Árnadóttir, myndlistarkona, og þau eiga þrjú börn og eru búsett í Berlín.

hsh

.
Benedikt Kristjánsson í viðtali sjá hér.


 


  • Frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju