Páskamorgunn á Þingvöllum

12. apríl 2020

Páskamorgunn á Þingvöllum

Páskadagsmorgunn á Þingvöllum 2020

Við sólarupprás í morgun hófst guðsþjónusta á Þingvöllum. Sú hefð varð til árið 2000 og hefur haldist órofin síðan.

Nú var guðsþjónustan með öðrum hætti en vanalega vegna kórónufaraldursins. Guðsþjónustan hófst utan dyra um kl. 05.55 með lestri úr páskavöku eins og venja hefur verið, austan megin við kirkjuna. Í þetta sinn var ekki farið inn í kirkju til að neyta altarissakramentis enda samkomubann. Streymt var frá henni um Facbókar-síðu Skálholts og það má sjá hér.

Það var vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, sem hafði allt skipulag með höndum. Auk þess prédikaði hann og þjónaði fyrir altari. Björg Þórhallsdóttir, söngkona, leiddi sönginn og við orgelið var Hilmar Örn Agnarsson. Einnig söng Guðjón Stefánsson. Meðhjálpari: Guðrún Helga Bjarnadóttir og synir.

Veður var kyrrt og fallegt. Og fuglar Þingvalla sungu af hjartans lyst.

Fólk var hvatt til að taka þátt í helgihaldinu þar sem það væri statt, heima eða í bústað, og notast vð síma sinn eða önnur tæki. Ganga út og horfa í austur, mót páskasólinni. Mót upprisunni.

Fjarþátttaka í helgihaldi er nýjung en ótrúlegur fjöldi kirkna (safnaða, presta) víðs vegar um landið hefur tekið upp þann hátt að streyma frá helgihaldi.

Páskarnir eru fyrsta stórhátíð kirkjunnar þar sem streymið er allsráðandi.

Streymiskirkjan Streymið hefur verið sem nýr vaxtarbroddur í kirkjunni á þessum aðþrengdu tímum þegar fólki er ekki heimilt að koma saman vegna kórónuveirunnar. Það hefur eflt söfnuði með nýjum hætti og auk þess gefið landsmönnum kost á að njóta fjölbreytilegs helgihalds innan þessa ramma sem streymið er. Fólk hefur getað tekið þátt í helgihaldi heima hjá sér í stofu hvort heldur í Reykjavík eða austur á Fjörðum. Kynnst nýjum kirkjum og nýjum prestum á öllum aldri. Í raun má segja að til hafi orðið streymiskirkja á landsvísu, landið í raun ein sókn, og sýnir það vel aðlögunarhæfileika kirkjunnar. Sýnir að þrátt fyrir að einum af grunnþáttum kirkjunnar, samfélaginu sjálfu, sé kippt út til varnar manneskjunni á veirutíð, þá verður til annars konar tímabundið samfélag, fjarsamfélag. Enda þótt að margur telji streymið vera tímabundna aðferð við miðlun fagnaðarerindis kristinnar trúar þá er eins víst að það verði notað í ríkara mæli jafnhliða hefðbundnu helgihaldi. Tíminn mun leiða það í ljós hvernig fer.

Guðspjall páska samkvæmt Markúsarguðspjalli 16.1-7 Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

Gleðilega páska!

hsh

 

 

 



  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju