Nokkur ráð um streymi

20. apríl 2020

Nokkur ráð um streymi

Danskur prestur undirbýr streymi

Vettvangur dagsins er hinn stafræni. Skólastarf fer nú meira og minna allt fram í fjarkennslu, grunnskólar, menntaskólar og háskólar. Vinnustaðir fjölmargra hafa færst yfir í hinn stafræna heim.

Skólakerfið er býsna sjóað í fjarkennslu og hefur nú sett um krísuskóla, eins og það er kallað, með litlum fyrirvara – margir skólar notast við „Google classroom“. Einn skólasérfræðingur hafði það á orði að ef þær kennsluaðferðir sem nú eru stundaðar hefðu ekki verið ræstar með svo að segja engum fyrirvara hefðu kennarar óskað eftir ársundirbúningi. Það var ekki í boði.

Í krísu er ekki ársundirbúningur.

Í krísu þarf að grípa strax til aðgerða.

Kirkjan er enginn eftirbátur í þeim efnum. Hún hefur sýnt ótrúlegan aðlögunarkraft á tíma kórónuveirunnar.

Hún ræsti sínar streymisvélar næstum samstundis. Nánast allir fóru upp á dekk. 

Starf kirkjunnar hefur í nokkrum þáttum færst tímabundið yfir á stafrænan vettvang, eins og Facebook, YouTube og Instagram. Ýmist í beinu streymi eða upptökum.
Flestir virðast ná að fóta sig býsna vel í þessum nýju aðstæðum. Fá allmikið áhorf meðan aðrir fá minna.

Sú spurning vaknar auðvitað hvernig eigi að ná til sem flestra. Vekja jákvætt umtal og öðlast vinsældir. Hvernig fer kirkjan að á kórónuveirutíma? Já, hvernig tekst henni að miðla boðskap sínum? Eða hvernig er best að haga starfi hennar í þessum aðstæðum?

Streymið er líka ferðalag Kirkjan.is fylgdist um helgina með nokkrum streymisviðburðum bæði úr þéttbýli og sveit. Það var athyglisvert sjónarhorn kirkjunnar sem þar kom fram og sýndi mikinn metnað og árræðni. Kirkjan.is veit ekki til þess að þeir prestar sem þar voru í fyrirsvari séu einhverjir sérstakir tæknimenn umfram aðra. Einn presturinn hélt til dæmis bara á farsímanum og streymdi beint úr kirkjunni. Það var vasklega að verki staðið. Sérstakir upptökumenn voru að starfi í öðrum kirkjum. Tekið var upp í kirkjunum. Einn presturinn brá á það ráð að fara eftir stutta hugleiðingu með söfnuðinn í dálítið ferðalag um kirkjuna, sýndi til dæmis skrifstofuhúsnæðið og húsnæðið þar sem hún hafði sjálf verið í fermingarfræðslu; og tengdi minningu þaðan við guðspjall dagsins. Það var flott.

En aðferð við streymi kallar á umræður og vangaveltur eins og allt. Þetta er nýtt, streymiskirkjan, er ný leið sem notast verður við meðan á samkomubanni stendur. Og eflaust eftir að því lýkur – í einhverjum mæli þótt ekkert komi í stað hinnar hefðbundnu kirkju þar sem fólki hittist augliti til auglitis.

Sr. Kristján Grund Sørensen er danskur prestur sem hefur sérhæft sig í margmiðlun og lífssýn, er með doktorspróf í þeim fræðum frá Álaborgarháskóla. Hann var sóknarprestur í aldarfjórðung áður en hann fór að kenna í háskólanum.

Hann gefur nokkur ráð til þeirra sem eru á fullu skriði í streymiskirkjunni og lesa má í Kristeligt Dagblad í dag. Hér skal drepið á það helsta sem fram kom hjá honum - og reyndar öðrum á þessum vettvangi. Allt getur það verið lærdómsríkt og vakið umræður og skoðanaskipti í hópi þeirra sem fást við að streyma frá kirkjuviðburðum. 

Sr. Kristján Grund segir að flestar kirkjur streymi efni til þess að halda sambandi við söfnuðinn, sýna samstöðu og mannúð á erfiðum tíma. Hinn hefðbundni boðskapur sé vissulega mikilvægur sem áður en sé þó ekki í fyrsta sæti í streymiskirkjunni. Heldur það að ná til fólks, vera hjá fólki í þessum sérstöðu aðstæðum – og það kemur auðvitað heim og saman við inntak hins kristna boðskapar. Og í einhverjum tilvikum blundar vissulega sú von að krækja í nýja safnaðarmeðlimi – enda ekkert uppgjafahljóð í kirkjunnar fólki!

Þau ráð sem sr. Kristján Grund gefur eru meðal annars þessi:

Nokkur ráð
Kirkjurnar eiga að streyma beint frá þeim stundum sem þær eru með. „Það gefur áhorfandanum tilfinningu fyrir því að það sé raunveruleg manneskja hinum megin á línunni, á skjánum, og það er einmitt djúp þrá meðal fólks í dag þegar margir eru einmana.“
Annað ráð sem hann gefur er þetta: Nú ættu kirkjurnar að fara út fyrir kirkjurýmið – ástæðan er einföld: tóm kirkja, einn prestur, sýnir svo augljóslega að söfnuðurinn er ekki á staðnum. Kirkjurýmið er prestur, starfsfólk og söfnuður. Annað rými er því betra og ákveðin tilbreyting – gefur fólki ekki þá sterku tilfinningu að það sé ekki á staðnum sem það ætti að vera á.
Þriðja ráðið sem hann gefur er að fólk einblíni ekki á hið fullkomna streymi, fullkomna útsendingu. Margir halda sjálfir á símanum og taka upp, einhver heldur á upptökuvélinni og margvíslegar hreyfingar koma í ljós, jafnvel hlykkir og skrykkir; sumir eru með vél á fæti og allt gengur eins og smurð vél. Hljóðið þarf ekki að vera fullkomið – og það er bara heimilislegt að mati hans ef nokkrir skruðninga fylgja með – og hugsanlega dýrmætar kúnstpásur sem ekki voru á dagskrá. Hann telur að ef útsendingin – streymið sé nánast fullkomið geti sú tilfinning sprottið fram hjá fólki að verið sé að stjórna því um of – hvaða guðsþjónusta er til dæmis fullkomin hversu góður sem litúrginn er?- hið fullkomna er ekki alltaf leiðin að hjarta mannsins. Enginn er nefnilega fullkominn svo sem kunnugt er – flestir sjá sjálfa sig í ófullkomleikanum. Mannlegur veikleiki getur skapað meiri trúverðugleika en fullkomið yfirbragð þess sem hefur alla þræði í hendi sinni – að sjálfsögðu að eigin áliti. Jafnvel spaugilegur vandræðagangur nýliðans getur verið þyngri á metunum í þessu samhengi heldur en svipur fullkomnunarinnar hjá hinum reynslumikla.

„Jafnvægi er mikilvægt engu að síður, presturinn verður að vera hann sjálfur, og ekki of upptekinn af því að hann sé í beinu streymi og sviðið sé hans – með því getur hann auðveldlega skyggt á það sem hann eða hún ætlar að koma á framfæri,“ segir sr. Kristján Grund. „Of mikill tilfinningahiti í framsetningu getur fengið fólk til að standa upp og hætta að horfa.“ 

Það er margt að athuga við ýmsa þætti í streymi sem fólk leiðir ekki hugann að í fyrstu.

Sjónarhorn upptökuvélar, of stórt andlit á skjá getur skotið áhorfandanum skelk í bringu, upptökuvél má ekki beina upp í móti, eins og áhorfandinn sé undirsáti þess sem talar, tónlist þarf að fara vel með. Styrkur raddar þarf að vera við hæfi. Og margt fleira, ótal margt. Reynslan er góður kennari í þessu eins og öðru. Eitt er líka nokkuð víst. Eftir kórónuveirutímann verður skotið á námskeiðum um streymi og allt sem því tengist. Gott mál.

Svo þarf náttúrlega að spyrja söfnuðinn við gott tækifæri. Hvað fannst honum? 

Gróskan í kirkjunni Prestar eru ekki leikarar né leikstjórar. Allt streymið hefur verið unnið í hraða, og nánast hönd fest á það sem flogið hefur fyrir. Þess vegna er ákveðin gróska í streymiskirkjunni, frumleiki og ferskleiki, kannski jafnvel frumkirkjubragur. Sem gerist í beinni útsendingu, hér og nú. Er ekki fínpússuð, klippt og snyrt guðsþjónusta, send út síðar. Allt gerist núna, strax. Þá er gott að vera reynslumikill og þá er líka gott að vera nýliði.

Beint streymi er núið.

Eins og manneskjan sjálf í núinu. Hvar er manneskjan annars staðar?

Hér er ein stutt grein eftir sr. Kristján Grund um nærveru kirkjunnar á stafrænni tíð.

hsh/Kristeligt Dagblad

Eitt gott dæmi af mörgum um góð vinnubrögð: Vaskir menn, karlar og konur, fyrir austan!


  • Covid-19

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Skipulag

  • Viðburður

  • Menning

Háteigskirkja

Laust starf

30. apr. 2024
...prests í Háteigsprestakalli
Sr. Sigurvin Lárus Jónsson

Sr. Sigurvin Lárus ráðinn prestur

30. apr. 2024
…í Garðaprestakall
Lokahátíð barnastarfsins í Akureyrarkirkju.jpg - mynd

Lokahátíð barnastarfs Akureyrarkirkju 2024

29. apr. 2024
...mikil tónlistrveisla