Stutta viðtalið: Um Noreg endilangan

22. apríl 2020

Stutta viðtalið: Um Noreg endilangan

Sr. Inga Harðardóttir, prestur Íslendinga í Ósló og nágrenni

Prestar Íslendinga eru að störfum í Svíþjóð og Noregi. Og senn verður ráðinn sendiráðsprestur til að þjóna íslensku fólki í Danmörku en það starf var lagt niður í kjölfar hrunsins.

Þessi prestsþjónusta er með öðrum hætti en önnur prestsþjónusta. Þar er sennilega í fleiri horn að lita en annars staðar – þó víða séu þau nú býsna mörg.

Söfnuðurinn er mjög dreifður enda þótt meirihluti hans búi á einum tilteknum stað, í einni borg.

Svo er með Ósló. Mörg minni sveitarfélög liggja að borginni og margt safnaðarfólk í íslenska söfnuðinum býr í þeim og sækir starfið í Ósló. Þjónustan er því við stórhöfuðborgarsvæði Óslóar og nágrannasveitarfélög. Og í raun við alla Íslendinga í landinu þegar öllu er á botninn hvolft.

Íslendingar hafa löngum kunnað að meta starf þjóðkirkjunnar sem þeim hefur staðið til boða þegar þeir hafa verið á Norðurlöndum hvort heldur við vinnu eða nám. Fólk hefur komið saman á hátíðum og öðrum dögum til að rækta trú sína sem og við önnur tækifæri til að styrkja tengsl sín við land og þjóð.

Margir hafa tilheyrt söfnuðinum lengi og aðrir skemur. Sumt fólk hefur sest að í landinu, aðrir búa um stutt skeið. Svo eru ferðalangar sem líta við – kannski fækkar þeim um stundarsakir – verða heima, kyrrir á sinni rót, eins og þar stendur.

En söfnuðurinn er alltaf á staðnum – hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í nafni meistarans frá Nasaret. Og allir eru að sjálfsögðu velkomnir í söfnuðinn.

Alin upp í kirkjunni

Kirkjan.is ákvað að spyrja hvernig það væri að vera prestur íslensks safnaðar í útlöndum þar sem aðstæður eru með mjög svo ólíkum hætti en hér heima.

Hún er ung kona, sr. Inga Harðardóttir, sem þjónar íslenska söfnuðinum í Ósló. Reykvíkingur og alin upp í kirkjustarfi, dóttir Harðar Áskelssonar, kantors við Hallgrímskirkju, og Ingu Rósar Ingólfsdóttur, sellóleikara.

„Ég er eiginlega alin upp í kirkjunni,“ segir hún glaðlega, „í messum og á kóræfingum með foreldrum mínum, ég dundaði mér undir kirkjubekkjum sem barn.“

Og kannski er sjónarhornið undan kirkjubekknum góður skóli fyrir börnin því að þar er ákveðið öryggi að finna í hinum stóra heimi – eitt er víst að það eykur á fjölbreytnina.

Hún var ekki há í loftinu þegar hún fór að hjálpa til í sunnudagaskólanum. Síðan leiddi eitt af öðru. Hún tók að sér starf kirkjuvarðar í Hallgrímskirkju og söng í kórnum frá unga aldri.

Inga var opin og námfús og ekkert var henni óviðkomandi. Hún svalaði menntaþrá sinni við ýmsa brunna. Heimspekin átti hug hennar um skeið, sem og kennaranám og myndlist. Allt skapandi greinar og fullar af lífi og krafti. En að lokum var það drottning vísindanna, guðfræðin, sem sigraði hjarta hennar. Hvað annað? 

Um gagnsemi kirkjubekkja Var við öðru að búast af stúlku sem hafði skoðað kirkjustarfið undan hinu skemmtilega sjónarhorni sem kirkjubekkurinn er þegar hún var barn að aldri? Er lífið ekki alltaf skemmtilegra frá sjónarhorni sem er öðruvísi en þetta venjulega? Og ævintýralegra? En það er líka dularfullt að vaxa úr grasi undan kirkjubekknum og út í lífið þar sem stóra ævintýrið á sviðið.

Samhliða guðfræðináminu vann hún af fullum krafti í barna- og æskulýðsstarfi. 

Hún segist oft þakka fyrir þennan breiða bakgrunn. Hann reynist henni vel í fjölbreytilegu kirkjustarfi.

Haldið til Noregs

Sr. Inga sótti um starf hjá íslenska söfnuðinum í Noregi.

Og fékk starfið – enda búin góðum hæfileikum til að takast á við það.

„Ég var vígð í maí fyrra,“ segir hún. „Og kom til starfa í ágúst sama 2019.“ Hún segir starfsstöð íslenska safnaðarins vera í miðbæ Óslóar, kölluð Ólafíustofa í höfuðið á hugsjóna- og trúkonunni Ólafíu Jóhannesdóttur. En það er ekki eins og presturinn sé bundinn bæjarhellunni í Ósló. Aldeilis ekki.

„Ég fer um allan Noreg til að sinna guðsþjónustum og athöfnum fyrir Íslendinga í söfnuðinum,“ segir hún – en um stund raska samkomu-og ferðatakmarkanir starfinu.

Söfnuðurinn er dreifður eins og áður sagði. Og Noregur er langur og mjór – að minnsta kosti á landakortinu sem segir alltaf satt.

Sterkur söfnuður og dreifður

Hvernig gengur að reka söfnuðinn fjárhagslega?

„Það eru sóknargjöld og styrkur frá norsku kirkjunni sem standa alfarið undir rekstrinum“ segir Inga. „Svo fáum við jöfnunarstyrk frá þjóðkirkjunni og mikilvægan andlegan stuðning.“ Hún segir að í söfnuðinum séu á áttunda þúsundið: „Eða nánar tiltekið, nýjustu tölur: 7432.“

Starfið er fjölbreytilegt og dregur dám af því hve söfnuðurinn er dreifður. Sr. Inga er mánaðarlega með guðsþjónustur í Ósló, og Margrét Ólöf Magnúsdóttir djákni er með fjölskylduguðsþjónustur í Kristjánssandi og Sandefjord einu sinni í mánuði.

„Jólin eru álagstími í starfinu, hvað annað?“ segir sr. Inga. „Þá er farið víða: Björgvin, Þrándheimur, Stafangur, Drammen, Kristjánssandur og Sandefjord - og gott samstarf við Íslendingafélögin með jólaböll eftir guðsþjónusturnar“ Einnig er fastur liður að hafa um hönd sjómannadagsmessu í Tromsø.

„Ég stefni að því að hafa sem oftast sameiginlegar guðsþjónustur og helgihald þar sem allar kynslóðir koma saman“, segir hún vongóð. „Stundum er sunnudagaskóli á sama tíma og messað er í Ósló – og það er reyndar víða svo.“

Starfið er ótrúlega öflugt og margt á döfinni.

Sr. Inga segir að Krakkaklúbbur og Krílakaffi hafi verið starfandi í Ósló og gengið vel. Þá sé fólk í Þrándheimi, Álasundi og Björgvin búið að bjóðast til að sjá um mánaðarlegt starf fyrir börn, unglinga og fullorðna. „Það kemst vonandi af stað í haust,“ segir sr. Inga. „Það er náttúrlega dæmi um mjög svo lifandi söfnuð að hafa svona gott fólk sem er tilbúið að leggja starfinu lið í þessum víðfeðma söfnuði.“

Hvers kyns hópastarf er virkt eins og unglingahópar í Ósló, Sandefjord og Porsgrunn. Einn hópurinn hefur hist á netinu í samkomubanninu, það er Óslóarhópurinn. Þá eru 60+ hópar virkir í Ósló og Sandefjord.

„Ekki má gleyma menningarfulltrúanum okkar, Freydísi Heiðarsdóttur, sem stendur fyrir tónleikum, múskíkbingói og fleiru skemmtilegu, og Berglindi Gunnarsdóttur, starfsmanni safnaðarins sem tekur þátt í að skipuleggja og hlúa að safnaðarstarfinu“ segir sr. Inga.

Stjórn safnaðarins er mjög áhugasöm um starfið. Sr. Inga segir hana vera öfluga og samheldna. Það skiptir miklu máli og samstarfið er eins gott og á verður kosið.

Það er af nógu að taka. Og í lokin má bæta við fjölskyldudegi í Þrándheimi í nóvember síðastliðnum og inn í hann var fléttuð sögustund um Jólin hans Hallgríms. Ilmur af pönnukökubakstri var svo hámark gæðastundarinnar. Já, svo var ævintýradagur í Ósló þar sem skapandi iðja var í öndvegi og góð samvera. „Svo ætlum við að prófa okkur áfram með fjölskylduboðun og Kirkjubrall (Messy Church) með haustinu,“ segir sr. Inga og er augljóslega engan bilbug á unga prestinum að finna.

Kórónuveirufaraldurinn hefur sett strik í reikninginn – en hann stöðvar ekki neitt. Stefnt er að hafa ungmennahelgi, sumarbúðir fyrir börn, leiðtogaþjálfun fyrir ungleiðtoga og fermingarfræðsluferðir. En framganga kórónuveirunnar mun leiða í ljós hvað verður. En allir eru bjartsýnir.

Fermingarstarfið

Í öllum söfnuðum eru fermingarbörn.

Þau eru vorið í kirkjunni Íslenski söfnuðurinn er með 24 fermingarbörn. Sum þeirra fermast í Noregi en önnur heima á Íslandi. Fermingarefnið sem notast við er byggt á Con Dios, Kirkjulyklinum og Í stuttu máli sagt. Að sjálfsögðu er fermingarefnið sniðið eftir því sem þörf segir til um aðstæður fermingarbarnanna í íslenska söfnuðinum.

„Mikilvægast í fermingarfræðslunni eru tvær ferðir,“ segir sr. Inga, „önnur er að hausti og hin að vori.“ Í þessum ferðum eru öll fermingarbörnin hvar sem þau kunna að búa í Noregi og þau hitta önnur íslensk ungmenni í helgarferð í Svíþjóð. „Í þessari ferð fá þau fræðslu og fara í hópefli,“ segir sr. Inga. Hún segist hlakka til að taka aftur upp samstarf við íslensku söfnuðina í Svíþjóð og í Danmörku um þennan þátt fermingarfræðslunnar.

Gæfa og blessun

Þegar litið er yfir þennan víða starfsvettvang prests íslenska safnaðarins í Noregi er ljóst að starfið er umfangsmikið og krefjandi. „Þetta er frábært starf,“ segir sr. Inga full af kappi. „Það voru vissulega krefjandi aðstæður sem blöstu við síðastliðið sumar í kjölfar mikilla mannabreytinga hjá söfnuðinum.“

„En starfið hefur verið mjög gefandi og spennandi frá fyrstu stundu og mér finnst það mikil gæfa og blessun að fá að taka þátt í uppbyggingu á nýjan leik,“ segir hún.

Eiginmaður sr. Ingu er Guðmundur Vignir Karlsson, tónlistarmaður, eiga þau þrjú börn, elst er dóttirin átján ára, og hún er á Íslandi að klára menntaskóla. Svo eru það tveir drengir, sjö og fjórtán ára sem fóru með foreldrum sínum utan.

Íslenska kirkjan er heppin að eiga svo kröftugan og áhugasaman prest í Noregi sem sr. Inga Harðardóttir er. Það er mannauður kirkjunnar. Og hann er ekki lítill.

hsh

 


Frá Ólafíuhátíðinni í október s.l.


Kórinn Kjartan æfir fyrir jólamessuna í Bakke-kirke í Þrándheimi

Baráttukona - trúkona Ólafía Jóhannsdóttir (1863-1924). Starfsstöð íslenska safnaðarins er kennd við hana - í Ósló er líka gata sem ber nafn hennar: Olafiagangen. Ólafía Jóhannsdóttir fæddist árið 1863 á Mosfelli í Mosfellssveit og í lundi skammt frá kirkjunni er þessi brjóstmynd af henni. Hún var dóttir Jóhanns prests Benediktssonar og k.h. Ragnheiðar Sveinsdóttur, systur Benedikts alþm. og sýslumanns, föður Einars skálds. Hún ólst aðallega upp hjá móðursystur sinni Þorbjörgu Sveinsdóttur ljósmóður, þjóðkunnri baráttukonu fyrir réttindum kvenna. Ævisaga hennar kom út árið 2001 og heitir: Ólafía – Ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur, eftir Sigríði Dúnu Kristsmundsdóttur.

 

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall
logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.