Doktorsvörn í guðfræði á morgun

23. apríl 2020

Doktorsvörn í guðfræði á morgun

Sr. Bjarni Karlsson heldur hér á doktorsritgerð sinni

Á morgun, föstudaginn 24. apríl, mun sr. Bjarni Karlsson, verja doktorsritgerð við Guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands.

Ritgerðin ber heitið: Vistkerfisvandi og fátækt. Einkenni lífvænlegrar heimsmyndar, mannskilnings og fátæktarhugtaks í fjölmenningarsamfélagi síðnútímans. - Ritgerðin er á sviði siðfræðinnar.

Doktorsvörnin hefst kl. 9.00 og lýkur kl. 11.00.

Vegna kórónuveirufaraldursins verður fámennt við athöfnina sjálfa þar sem hún verður lokuð gestum en henni verður streymt á netinu, hér, og geta því fleiri en endranær fylgst með doktorsvörninni sem fer fram í hátíðarsal H.Í.

Um hvað snýst ritgerðin?

Ritgerðin dregur fram og gagnrýnir ýmsa ágalla nútímalegrar hugsunar um fátækt, heiminn, og stöðu mannsins í honum. Borin er saman hnattræn orðræða veraldlegra og trúarlegra aðila og rök færð fyrir samskilningi um gildi þess að leggja niður eindahyggju og mannmiðlægni en taka upp tengslahyggju og lífmiðlægni í heimsmenningunni.
Með samanburði á völdum stefnuskjölum eru færð rök fyrir því að engin neikvæð spenna ríki í hnattrænni orðræðu milli veraldlegrar og kristinnar umfjöllunar um vistkerfisvanda og fátækt. Orðræða S.Þ., hefur snúist frá mannmiðlægni til lífmiðlægni á umliðnum fimmtíu árum. Höfundur heldur því fram að guðmiðlæg nálgun kristninnar geti falið í sér þá lífmiðlægu og hlúð að henni í menningunni, m.a. með því að líta á vistkerfið sem líkama Guðs.
Spurt er: Hver eru meginatriði í siðfræði þar sem fátækt er forðað og almannahagur er leiðarljós?
Tillögur að svari eru lagðar fram um leið og gildi hins lýðræðislega samtals er undirstrikað. Í stað einhliða áherslu á lög og reglur í meintu hlutlausu almannarými nútímasamfélagsins er mælt með lýðræðislegri og margþættri samræðu þar sem ólíkar hefðir og menningarheimar mætist og haldi hvert öðru ábyrgu í gagnkvæmri hlustun og virðingu.

Andmælendur við vörnina verða dr. Jón Ásgeir Kalmansson, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og dr. Sigríður Guðmarsdóttir, dósent við VID vitenskaplige høgskole í Noregi.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Sólveigar Önnu Bóasdóttur, prófessors í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Kolbeinn Hólmar Stefánsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, og dr. Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.

Dr. Rúnar Már Þorsteinsson, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, stjórnar athöfninni.

Kirkjan.is óskar sr. Bjarna Karlssyni góðs gengis í vörninni og til hamingju með lærdómsgráðuna.

Sr. Bjarni er fæddur 6. ágúst 1963 og lauk hann embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1990 og meistaragráðu í guðfræðilegri siðfræði 2007 frá sama skóla. Hann starfaði sem sóknarprestur í Vestmannaeyjum og Laugarneskirkju í Reykjavík árin 1991- 2014 en rekur nú eigin sálgæslustofu í Reykjavík.

hsh


  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju