Syngjandi sumarkveðja

28. apríl 2020

Syngjandi sumarkveðja

Gróður jarðar - allt er Guði að þakka, segir skáldkonan Herdís

Þá kemur sjötta sumarmyndbandið af ellefu sem sent er í gegnum vef kirkjunnar og það er þakkar- og lofgjörðarsálmur eins og í gær. 

Tvíburasysturnar Herdís og Ólína Andrésardætur eru meðal þeirra fáu kvenna sem eiga sálma og lög í núverandi sálmabók. Þær voru fæddar í Flatey á Breiðafirði 1858, Herdís lést 1939 og Ólína 1935.

Herdís var skáldkona, og kunn sagnakona, eins og systir hennar. Margar frásagnir þeirra systra eru prentaðar í Gráskinnu og Rauðskinnu. Ljóðabók systranna, Ljóðmæli, kom út 1924 og hefur verið gefin út nokkrum sinnum, nú síðast 1982.

Margir sálmar hafa það líkan bragarhátt að hægt er að nota sama lag til söngs. Sálmur Herdísar, Upp hef ég augu mín, hefur verið sunginn við gamalt þýskt lag sem hentaði sálminum ekki vel.

Sálmabókarnefnd vildi gjarnan auka hlut kvenna og fyrir nokkrum árum var Kirstín Erna Blöndal beðin um að semja lag við þennan sálm Herdísar. Lag hennar fellur sérlega vel að sálminum sem var frumfluttur á síðasta ári í Fríkirkjunni í Reykjavík, í kórraddsetningu Gunnars Gunnarssonar.

Sálmarnir ellefu sem hér eru kynntir fram til 4. maí hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar.

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd, völdu sálmana ellefu, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svo nokkuð sé nefnt.

Upp hef ég augu mín
Lag: Kirstín Erna Blöndal
Texti: Herdís Andrésdóttir

Flytjendur:

Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju:
Hulda Dögg Proppé
Hugi Jónsson
Þórunn Vala Valdimarsdóttir

Organisti: Guðmundur Sigurðsson

Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson

hsh/mb

                                         Upp hef ég augu mín

                                    Upp hef ég augu mín,
                                    alvaldi Guð, til þín.
                                    Náð þinni' er ljúft að lýsa,
                                    lofa þitt nafn og prísa.

                                    Allt er að þakka þér
                                    það gott sem hljótum vér
                                    um allar aldaraðir,
                                    eilífi ljóssins faðir.

                                    Vér erum gleymskugjörn,
                                    gálaus og fávís börn,
                                    en þú, sem aldrei sefur,
                                    á öllum gætur hefur.

                                    Ég veit að aldrei dvín
                                    ástin og mildin þín,
                                    því fel ég mig og mína,
                                    minn Guð, í umsjá þína.

                                              
                                              Herdís, María og Ólína
                                              Andrésardætur




  • Frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta