Spenna og forvitni dofna

30. apríl 2020

Spenna og forvitni dofna

Öll áhugasöm þessa stundina - mynd: Kristeligt Dagblad

Eins og fram hefur komið hér á kirkjan.is hafa söfnuðir verið duglegir við að streyma frá ýmsum viðburðum þann tíma sem samkomubann hefur staðið yfir. Í raun og veru má segja að framboð af ýmsum helgistundum og hugleiðingum hafi verið býsna mikið og talað hefur verið um streymiskirkjuna. Þau sem setið hafa við tölvuskjái hafa haft úr nógu að moða af heimasíðum kirkna og Facebókarsíðum. Og eflaust hafa mörg flakkað á milli helgra stunda til að sjá og heyra. Og kannski staldrað lengur við á einum stað frekar en öðrum. Það er auðvitað allt önnur menning sem fylgir rafrænni þátttöku í helgihaldi heldur en í raunveruleikanum.

Hlustun og áhorf er rannsakað. Meira en það: allt er skráð. Tölur eru til um fjölda áhorfenda hverju sinni.

Danska sjónvarpsstöðin DR2 kannaði málið á hlustun og áhorfi fyrir páska og eftir. Í ljós kom að hlustendum og áhorfendum fækkaði milli sunnudaga. Kannski spilaði þar inn betra veður, þ.e.a.s. fólk flykktist út í garða og húsahverfi. Danska vorið var komið.
Einn forsvarsmaður sjónvarpsstöðvarinnar segir ástæðuna fyrir dalandi hlustun og áhorfi á guðsþjónustur og helgistundir vera einfaldlega þá að fólk skynji það mæta vel að ekki sé um að ræða lútherska guðsþjónustu þegar myndavél er beint að presti í tómri kirkju. Sjálfur segist hann hafa í byrjun haft brauð og vín um hönd til að taka þátt í fjaraltarisgöngu en sé nú hættur því.

Fulltrúi menntasviðs dönsku þjóðkirkjunnar tók svo til orða að skjár gæti ekki rúmað innsta kjarna guðsþjónustunnar. Slagsíðan sé augljós. Of mikið af prestum, enginn söfnuður. Jú, margir hafa horft en verið hlutlausir þátttakendur. Og víxlsöngur prests og safnaðar fjarri. Allar hugleiðingarnar, Biblíulestrarnir, bænastundirnar, sem fleytt hefur verið um streymið, séu allra góðra gjalda verðar. En þær eru viss einleikur, eða leikur út í myrkrið. Sá eða sú sem talar veit að einhver hlustar, en þekkir ekki aðstæðurnar. Mjög erfitt sé að meta streymið og segja eitthvað um það nema rannsókn fari fram. Það verkefni bíður. Samt sem áður var streymistæknin góð við þessar ákveðnu aðstæður. Þetta var spennandi – en nú hlakkar fólk til að koma aftur í kirkjuna. Kirkjan er nefnilega samband við fólk. Og við Guð.

Kirkjan.is kannaði málið hjá nokkrum söfnuðum og hvernig þeim hefði þótt til takast með streymið.

Svörin voru margvísleg:

Sjónarhornin

Sum þeirra sögðu áhuga vera enn mikinn – önnur sögðust finna fyrir því að hann hefði dofnað. Bent var á að streymið mætti ekki vera „yfirgnæfandi“, betra væri að hafa það sjaldnar en oftar. Framboðið væri giska mikið.

Þau sem höfðu streymt í hófi sögðust ekki hafa orðið vör við minnkandi áhorf.

Aðrir sögðust hafa það á tilfinningunni að fólk sem ekki hefði verið eitthvert sérstakt „kirkjufólk“ hefði sett inn jákvæð ummæli um myndbönd kirkna, og jafnvel deilt. Þannig væri kannski búið að vekja áhuga hjá fólki utan hins almenna kirkjuramma.

Aðrir sáu að áhorf nánast hrapaði smám saman eftir því sem á tímann leið.

Enn aðrir sáu að deilingum fjölgaði.

Sum tóku svo eftir því að áhorf á einstaka stundir sveiflaðist dálítið til og frá og hefði vissulega minnkað þegar á leið. Töldu að ákveðinn kjarni horfði alltaf - það hefði góð áhrif þegar leikmenn deildu streyminu eins og bænastund að kvöldi dags.  

Einn viðmælenda sagði að kirkjunni hefði ekki verið stætt á öðru en að bregðast við með streymi eða einhverjum öðrum sambærilegum hætti. Fólk hefði ekki getað setið aðgerðalaust heima eða látið það bara nægja að hringja í sóknarbörn. Bætti því við að jafnvel hefði mátt líta á streymið sem litla öndunarvél fyrir kirkjuna. Eftir samkomubannið kæmi hún til fólksins með gamla laginu en reynslunni ríkari og ynni í samræmi við reglur sóttvarnayfirvalda.

En allt bíður þetta þess tíma þegar einhver áhugasamur tekur sig og rannsakar málið. 

Öll vitum við að tungumál streymis og sjónvarps er annað en það sem viðgengst í kirkjunni. Þetta eru miðlar sem verður að læra inn á – eða fá fagmenn til að sinna. Nokkrir söfnuður fengu reyndar fagmenn til að taka upp. Samt var í raun fallegt að sjá hvernig margir söfnuðir ruku bara af stað – einhver hefði sagt í anda Íslendingsins: til að redda málum. Það tókst auðvitað misjafnlega eins og allt – en enginn skandall. Það efni sem á að höfða til fólks í gegnum þessa miðla verður að vera mjög svo ígrundað og vel gert. Það er pæling út af fyrir sig.

Þegar streymið stóð sem hæst var því stundum varpað fram að kannski væri bara ráð að loka kirkjunum. Auðvitað sagt til að vekja upp umræðu. Eftir því sem liðið hefur á tíma samkomubannsins hefur fólki orðið ljósar en áður mikilvægi kirkjunnar eða öllu heldur kirkjurýmisins. Hins vegar hafi reynsla af streymi opnað fyrir nýja leið með mjög svo áþreifanlegum hætti. Leið sem hæfir mörgum. Ekki öllum. Og kannski alls ekki sem einhver allsherjarlausn fyrir kirkjuna. Ný leið með gamalli. Eins og reyndar alltaf: nýtt og gamalt fer vel saman.

Áskorun Og í lokin en þó afar umhugsunarvert: Einn viðmælenda sló á aðrar nótur þegar hann var búinn að segja sitt um streymið. Hann sagði að kirkjunnar biði mikið og alvarlegt verkefni sem væri að spyrja sjálfa sig hvernig hún gæti komið til aðstoðar þeim tugum þúsunda sem misst hafa atvinnuna. Allir viti að atvinna sé stór partur af sjálfsmynd fólks – og atvinnuleysisbætur nái aldrei þeim launum sem fólk hafði áður. Hvað getur kirkjan gert til að styðja við bakið á þessu fólki og fjölskyldum þess? Þá dugar ekkert streymi, sagði hún.

hsh/Kristeligt Dagblad


  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju