Syngjandi sumarkveðja

30. apríl 2020

Syngjandi sumarkveðja

Garðakirkja á Álftanesi. Höfundur sálmatextans, sr. Helgi Hálfdanarson, var prestur þar 1858-1867

Nú er það áttunda sumarmyndbandið af ellefu sem sent er í gegnum vef kirkjunnar. Sálmurinn fjallar um trúna og mikilvægi hennar. 

Saga sálma er oft áhugaverð og stundum löng leið þangað til lag og texti mætast þar sem bæði njóta sín.

Sálmur nr. 207 í sálmabókinni, Sú trú sem fjöllin flytur, eftir sr. Helga Hálfdanarson (1826-1894), er einn af þeim sem sunginn hefur verið við lag sem einnig er notað við marga aðra sálma. Lagið hefur því enga sérstaka tengingu við textann.

Afkastamaður En hver var sr. Helgi Hálfdanarson, höfundur textans? Hann var vígður til Kjalarnesþings og sat á Hofi og síðan var hann prestur á Görðum á Álftanesi 1858-1867. Forstöðumaður Prestaskólans í Reykjavík - og sat á Alþingi um skeið. Hann samdi fermingarkverið: Kristilegur barnalærdómur (Barnaspurningar, Helgakver) sem var notað í nokkra áratugi. Sr. Helgi var formaður sálmabókarnefndarinnar sem stóð að útgáfu endurskoðaðrar sálmabókar árið 1886. Sjálfur var hann gott skáld. Í sálmabókinni frá 1886 eru yfir tvö hundruð sálmar af hans hendi, ýmist frumortir eða þýddir. Í bókinni voru 650 sálmar alls. Í núverandi sálmabók á hann hátt í eitt hundrað sálma. - Sr. Helgi var hæfileikaríkur áhrifamaður í kirkju Íslands á 19du öld og fram á þá 20stu. Sonur hans var dr. Jón Helgason, biskup, (1866-1942).


Árið 1990 samdi sr. Guðmundur Karl Brynjarsson sem þá þjónaði á Skagaströnd, lag við sálm Hallgríms Péturssonar, nr. 125, Víst er ég veikur að trúa, en lagið getur líka gengið við sálminn Allt eins og blómstrið eina, og var flutt þannig einu sinni á tónleikum á Skagaströnd. Það var hljómsveitin Góðu fréttirnar sem flutti lagið og var sr. Guðmundur Karl félagi í henni.

Árið 2010 við messuundirbúning í Lindakirkju, langaði Guðmund Karl til að láta syngja sálm nr. 207 og nefndi við Óskar organista, að lagið væri þó heldur óspennandi. Sálmasöngsbókin bauð aðeins upp á eitt annað lag sem féll að hryn sálmsins, lagið við Allt eins og blómstrið eina. Þá mundi prestur eftir eigin lagasmíð og sýndi organistanum, sem var ekki lengi að útsetja lagið og æfði það um kvöldið með kórnum. Það var svo flutt í messunni og þá sagði höfundurinn að loks hefði honum fundist lagið vera „komið heim“. 

Söngmálastjóri kynnti lagið ásamt fleiri nýjum sálmalögum á norrænni ráðstefnu um sálma og í framhaldi óskuðu Finnar eftir því að fá það, ásamt þrem öðrum íslenskum sálmum í sinn sálmabókarviðbæti sem kom út árið 2019. Sálmarnir voru allir þýddir á finnsku. Það er því ljóst að sálmar eru ágætis útflutningsvara!

Sálminn Sú trú sem fjöllin flytur er einnig að finna á plötu Kórs Lindakirkju, Með fögnuði.

Sálmurinn er hér fluttur í útsetningu Óskars Einarssonar, organista Lindakirkju.

Sálmarnir ellefu sem hér eru kynntir fram til 4. maí hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar.

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd, völdu sálmana ellefu, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svo nokkuð sé nefnt.

 

Flytjendur:

Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju:
Hulda Dögg Proppé
Hugi Jónsson
Þórunn Vala Valdimarsdóttir

Organisti: Guðmundur Sigurðsson

Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson

hsh/mb

                                        Sú trú sem fjöllin flytur 

                                        Sú trú sem fjöllin flytur 
                                        oss fári þyngstu ver, 
                                        ei skaða skeyti bitur, 
                                        þann skjöld ef berum vér, 
                                        í stormum lífs hún styður 
                                        og styrkir hjörtu þreytt, 
                                        í henni' er fólginn friður 
                                        sem fær ei heimur veitt. 

                                        Minn Jesú, lát ei linna 
                                        í lífi trú mér hjá 
                                        svo faldi fata þinna 
                                        ég fái þreifað á 
                                        og kraftinn megi kanna 
                                        sem kemur æ frá þér 
                                        til græðslu meinum manna 
                                        og mesta blessun lér. 

                                        Í trú mig styrk að stríða 
                                        og standast eins og ber, 
                                        í trú mig láttu líða 
                                        svo líki, Drottinn, þér. 
                                        Er dauðans broddur bitur 
                                        mér beiskri veldur þrá, 
                                        þá trú er fjöllin flytur 
                                        mig friða láttu þá.
Klæðafaldur frelsarans, skáldið og hin sjúka kona
Athyglisvert er að sjá 19da aldar sálmaskáldið, sr. Helga, talar í öðru erindinu fyrir munn konunnar blóðlátssjúku – svo segir í Lúkasarguðspjalli 8.43-48:
Þar var kona sem hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði leitað lækna og varið til aleigu sinni en enginn getað læknað hana. Hún kom að baki Jesú og snart fald klæða hans og jafnskjótt stöðvaðist blóðlát hennar. Jesús sagði: „Hver var það sem snart mig?“ En er allir synjuðu fyrir það sagði Pétur: „Meistari, mannfjöldinn treðst að þér og þrýstir á.“ En Jesús sagði: „Einhver snart mig því að ég fann að kraftur fór út frá mér.“ En er konan sá að hún fékk eigi dulist kom hún skjálfandi, féll til fóta Jesú og skýrði frá því í áheyrn alls fólksins hvers vegna hún snart hann og hvernig hún hafði jafnskjótt læknast. Jesús sagði þá við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.“

 

  • Frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju