Viðgerð hefst senn

13. maí 2020

Viðgerð hefst senn

Skálholtsdómkirkja - vígð 1963

Á kirkjuráðsfundi fyrir hálfum mánuði var lagt fram erindi vígslubiskupsins í Skálholti þar sem hann lýsti neyðarástandi í Skálholtsdómkirkju. Kirkjuráð brást snarlega við og ákvað að strax yrði farið í viðgerð á þaki kirkjunnar, turni og ytra byrði.

Kirkjan.is leitaði til sr. Kristjáns Björnssonar, vígslubiskups í Skálholti, og spurði hann nánar út í málið.

Sr. Kristján sagði að fyrir nokkru hefði orðið mikill vatnsleki í turni Skálholtsdómkirkju. Inni í turninum liggja þakrennur sem gáfu sig á klukkuloftinu og safnaðist þar vatn fyrir sem lak ofan næstu hæðir turnsins. Í turninum er hið merka bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar, sýslumanns, sem keypt var til Skálholtsstaðar á sínum tíma. Mildi má teljast að ekki urðu vatnsskemmdir á því en vígslubiskupinn komst að þessum leka í tæka tíð svo ekki varð tjón á safninu. Starfsfólk Skálholts hóf þegar aðgerðir og vígslubiskupinn lagaði rennuna til bráðabirgða.

„Nú verður tafarlaust hafist handa með að flytja bókasafnið í Gestastofuna,“ sagði sr. Kristján, „en lengi hefur verið um það rætt.“ Hann segir undirbúning vera þegar hafinn og safnið verði flutt með þeim hætti að sjálfboðaliðar handlanga bækurnar frá turni og yfir í Gestastofu. „Fólki verður gefinn kostur á að skrá sínar verkfúsu hendur,“ segir sr. Kristján, „þetta er menningarlega mikilvægt verkefni.“

Sr. Kristján sagði að flögusteinninn á þakinu væri ónýtur og þekjan öll mosagróin. Þá hafi lengi lekið úr turni og niður í kirkju. „Þetta verk má ekki bíða og er dýr framkvæmd, kostar tæpar 100 milljónir króna,“ segir vígslubiskup.

„Við stefnum að því að öllum endurbótum verði lokið á kirkjunni utan sem innan ekki síðar en á 60 ára afmæli kirkjunnar 2023,“ sagði sr. Kristján að lokum.

Sjá nánar um málið hér á  skalholt.is

hsh
  • Menning

  • Samfélag

  • Sjálfboðaliðar

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls