Leiðtogaskólanum slitið

19. maí 2020

Leiðtogaskólanum slitið

Sr. Agnes afhendir útskriftarskírteini Leiðtogaskólans

Síðdegis í gær var Leiðtogaskóla þjóðkirkjunnar slitið í Grensáskirkju við hátíðlega athöfn. Venja er að foreldrar unglinganna séu viðstaddir skólaslitin en svo var ekki að þessu sinni vegna kórónuveirunnar.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, ávarpaði unglingana og afhenti þeim skírteini um að þau hefðu lokið Leiðtogaskólanum. Jafnframt flutti hún bæn og blessun.

Umsjónarfólk með Leiðtogaskólanum eru þau Magnea Sverrisdóttir, djákni, Daníel Ágúst Gautason, djákni, og Kristján Ágúst Kjartansson, framkvæmdastjóri ÆSKR (Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum). Öll fluttu þau stutta ræðu þar sem þau þökkuðu unglingunum fyrir einstaklega gefandi kynni og hvöttu þá til dáða.

Leiðtogaskólinn Unglingarnir hittast í tvo vetur á um þriggja vikna fresti og oftast í Grensáskirkju. Námsefni er af ýmsum toga. Biblíusögur eru kenndar, kirkjusögulegt efni eins og siðbótin og fjallað er um Martein Lúther, frætt er um kristið gildismat, rætt um hlutverk leiðtoga sem fyrirmynda. Þá er farið yfir ýmsar reglur kirkjunnar eins og siðareglur vígðra sem óvígðra þjóna kirkjunnar. Lögð er áhersla á jákvæðni, vináttu og traust. Einnig er farið í ýmsa leiki sem margt má læra af. Hver unglingur flutti svo eina stutta hugvekju í vetur. Máltíð byggir öll samfélög upp og treystir böndin og þess vegna borðar hópurinn alltaf í lok hverrar stundar með fræðurum sínum.

Það voru nítján unglingar sem luku Leiðtogaskólanum að þessu sinni. Þeir komu úr Árbæjarsöfnuði, Ástjarnarsöfnuði, Brautarholtssöfnuði, Grensássöfnuði, Laugarnessöfnuði, Lágafellssöfnuði, Reynivallasöfnuði og Selfosssöfnuði. Það voru tíu stúlkur og níu piltar sem sóttu skólann á þessu tímabili og útskrifuðust þau öll.

Eftir athöfnina í kirkjunni var farið inn í safnaðarheimili Grensáskirkju og þar borðaður kvöldmatur, kjúklingur og franskar.

Kirkjan.is ræddi við nokkra unglinganna og spurði þá fyrst hvort þeir væru búnir að fá vinnu í sumar. Margir þeirra voru komnir með vinnu. Einn í vegagerð, annar á veitingahúsi og enn annar sem vinnumaður í sveit svo dæmi séu nefnd. Unglingarnir voru mjög ánægðir með Leiðtogaskólann og sögðu að hann hefði verið skemmtilegur og uppbyggilegur. Öll vonuðust þau til að koma með einhverjum hætti að kirkjustarfi í sinni kirkju í tengslum við barna- og æskulýðsstarf.

Segja má að þessi vasklegi hópur ungmenna sé vaxtarbroddur safnaðanna. Kirkja sem býr að því að eiga svo öflugan hóp verður ekki á flæðiskeri stödd í framtíðinni - hún er svo sannarlega heppin!

hsh


Magnea, Kristján Ágúst og Daníel Ágúst, ræða við unglingana


Ungmennin fögnuðu í lokin með sínum hætti


  • Biskup

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Trúin

  • Viðburður

  • Æskulýðsmál

Lilja Dögg og forsetahjónin

„Sögustaðir efla samkennd okkar“

22. júl. 2024
...segir menningarráðherra á Skálholtshátíð
Forseti Íslands kom á málstofuna

"Húmorinn var aldrei langt undan"

20. júl. 2024
...málstofa til minningar um sr. Karl Sigurbjörnsson
Málþingið var fjölsótt

"Stríðið gæti þróast yfir á Vesturbakkann"

20. júl. 2024
...áhrifamikið málþing á Skálholtshátíð